Krefjast þess að ellilífeyrir hækki um tæpar 16.000 krónur

Stjórn LEB – Landssamband eldri borgara samþykkti á fundi sínum í dag, 30. nóvember, hörð mótmæli vegna kjara eldri borgara eins og þau birtast í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021. Ályktunin hljóðar þannig:

Stjórn LEB mótmælir harðlega að ellilífeyri hækki aðeins  um 3.6% í  frumvarpi  til fjárlaga fyrir árið 2021.

Það er skýlaus krafa LEB að ellilífeyrir hækki um 15.750 kr. vegna ársins 2021 eins og aðrir fá.

Eldri borgarar hafa ekki samningsrétt og verða að treysta að Alþingi fari að lögum við ákvörðun um hækkun ellilífeyris og tryggi sambærilegar hækkanir.

Fleiri eru farnir að láta í sér heyra, þegar enn og aftur er vikið frá því að hækka ellilífeyri minna en sem nemur almennri launahækkun.  Eins og Lifðu núna greindi frá hefur Grái herinn sent alþingismönnum áskorun um að fara að lögum við hækkun ellilífeyris  og Félag eldri borgara í Reykjavík hefur einnig sent þingmönnum Reykvíkinga bréf, þar sem segir:

Á næstu vikum mun það koma í ykkar hlut að taka þátt í afgreiðslu fjárlaga næsta árs og þá m.a. taka af­stöðu til þess hver eigi að verða hækkun greiðslna almannatrygginga milli áranna. Í því sambandi vill FEB vill vekja athygli ykkar á því að á undanförnum árum hefur stöðugt dregið sundur með lágmarkslaunum og líf­eyri almanna­trygginga til aldraðra og öryrkja, eins og sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti í mörgum umsögnum um fyrirliggjandi fjár­lagafrumvarp.

Samkv. 69. gr. laga um almannatryggingar ber að taka mið af launaþróun við ákvörðun um upphæðir almannatrygginga. Á undanförnum árum hefur ákvörðunin hverju sinni byggst á spá í fjárlagafrumvarpi um strípaða „meðaltalshækkun skv. kjarasamningum,“ en sú aðferðafræði hefur leitt til þess að á s.l. 10 árum hefur óskertur ellilífeyrir farið úr því að vera 91,5% af lág­markslaunum niður í 75%. Með öðrum orðum: Uppsafnaður hlutfallslegur halli þessara ára er orðinn 18%.
Óánægja og reiði aldraðra vegna þessarar þróunar fer vaxandi og um leið vantrú á að eitthvað sé að marka fögur fyrirheit stjórnmálamanna og flokka fyrir kosningar. Krafa eldri borgara er að frekari kjaragliðnun verði stöðvuð nú þegar, og síðan verði hafist handa um að vinda ofan af kjaragliðnun undanfarinna ára.
Nú liggur það fyrir að samkvæmt lífskjarasamn­ingn­um eru hækkanir launataxta á næsta ári ekki ákveðnar í prósentum, heldur verða þær sama krónu­tala á alla línuna; 15.750 kr. ofan á alla launataxta lága sem háa. Það er hin almenna launaþróun sem rökrétt er að hækkun ellilíf­eyrisins taki mið af. Ellilífeyririnn þarf því að hækka um þessa sömu krón­utölu ef full­nægja á 69. greininni. Hann myndi þá fara úr 256.800 kr./mán. í 272.550 kr., sem gerir hækkun um 6,1% í stað þeirra 3,6% sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrum­varpinu.
Með tilliti til atvinnuástandsins í landinu er líka vert að benda á, að það myndi hafa jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn að draga úr skerðingum elli­lífeyris vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum, t.d. með því að sameina núverandi frítekjumörk í eitt 125 þús. kr. almennt frítekjumark. Það myndi auðvelda eldra fólki að láta af störfum og losa með því um störf fyrir þá sem yngri eru.
Fyrir hönd um 13.000 félagsmanna í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni heitum við á ykkur, þingmennina okkar, að veita þeim málefnum sem hér hafa verið rakin stuðning ykkar við afgreiðslu fjárlaga á komandi vikum.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar FEB
Ingibjörg Sverrisdóttir
formaður

 

 

Ritstjórn nóvember 30, 2020 21:52