10 atriði sem ætti ekki að nefna við barnabörnin

Flestir afar og ömmur hafa sjálfsagt upplifað að missa út úr sér eitthvað við barnabörnin sem betur hefði verið ósagt. Til að halda góðu sambandi við uppkomnu börnin sín og barnabörnin þarf stundum að vanda sig og láta ekki allt flakka. Ráðin sem hér eru gefin um það sem ber að forðast að segja og það sem hægt er að segja í staðinn, eru sótt á vefsíðuna grandparents.com og eru hér stytt og staðfærð. Ráðleggingarnar koma úr smiðju Jodi RR Smith, sem er höfundur bókarinnar. Etiquette Book. The Complete Guide to Modern Manners. Það er ekki víst að mannasiðirnir bandarísku eigi algerlega við hér, en engu að síður er forvitnilegt að sjá hvaða atriðum hún telur að afar og ömmur eigi að halda útaf fyrir sig og ekki nefna við barnabörnin.

Systir þín er betri í fótbolta en þú.

Afi og amma segja þetta kannski til að fá barnabarnið til að leggja harðar að sér og ná sama árangri og systirin. En þó þú bendir barninu á það að hún sé betri í fótbolta, er það ekki líklegt til að hjálpa neitt. Barnið vill ekki að afi og amma séu að dæma, heldur hvetji það áfram.

Hér telur Smith betra að segja ekki neitt, nema barnið spyrji hvort eða af hverju systirin sé betri í fótbolta. Þá er hægt að svara. „Já, hún er mjög góð í fótbolta, en við sjáum líka hvað þú ert frábær í sundi, eða hvað það nú er sem barnið stendur sig vel í. Ef barnið spyr ekki, er best fyrir afa og ömmu að þegja, nema þau geti hrósað barninu fyrir eitthvað sem það gerir vel.

Þú ert uppáhaldsbarnabarnið mitt.

Varúð! Menn halda kannski að þeir myndu aldrei láta svona nokkuð út úr sér, en það er vel mögulegt að fólk geri það. Smith segir fólki að varast þessa setningu, hana á heldur ekki að segja í hita leiksins, þegar fólk er að grínast eða í trúnaði. Barnabörnin tala saman og þú vilt að þau treysti þér þegar þú segir þeim að þú elskir þau.

Það er miklu betra að segja. „Þarf ég virkilega að segja ykkur það? Þið eruð öll í fyrsta sæti hjá mér“.

Á ég að segja þér þegar pabbi þinn fékk lánaðan bílinn hans afa?

Menn halda kannski að það sé góð leið til að ná sambandi við barnabörnin að segja þeim skemmtisögur af barnabrekum foreldra sinna. Eða að þau geti lært eitthvað af slíkum dæmisögum.  En því er aldeilis ekki að heilsa, segir Smith. Það getur hins vegar grafið undan áhrifum foreldranna á börnin.

Hún segir að það eigi að sleppa slíkum sögum og ekki segja þær nema foreldrarnir séu viðstaddir og geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri, eða að þetta séu sögur sem eru vel þekktar í fjöskyldunni og börnin hafi heyrt þær áður. Vilji menn að barnabörnin dragi lærdóm af dæmisögum, er best að afi og amma segi sögur af sjálfum sér.

Ef þú færð þér tattú þá brjálast ég.

Hmm.. Virkuðu svona hótanir þegar þú varst að ala upp þín eigin börn? Líklega ekki og það ætti heldur ekki að reyna þetta við barnabörnin. Viltu virkilega að barnabörnin verði sakbitin, ef eitthvað kemur fyrir þig?

Ætli barnabarnið að fá sér tattú, eða gera eitthvað sem þú ert öruggur um að það muni sjá eftir, eða eitthvað sem þú ert ósáttur við, er best að ræða það við barnið. Það má útskýra það að barnið mun alla ævi þurfa að bera á sér blek sem næst ekki af. Það er ekki verra að slík útskýring komi frá einhverjum af eldri kynslóðinni.

Mikið er þetta sætur strákur, er hann kærastinn þinn?

Stefnumót unglingsáranna eru nógu vandræðaleg, þó ekki bætist við enn vandræðalegri spurningar fullorðna fólksins um málið. Þær eru ekki beint það sem þau þurfa á að halda. Það er eðlilegt að afi og amma séu forvitin, en ekki hafa orð á þessu að fyrrabragði. Ekki nema þið séuð sett inní málið eða spurð.

Það er affararsælast að segja ekkert um þetta. Ef þú vilt vita hverja þau eru að hitta, spurðu þá einslega. Ef þú hefur áhuga á ástarlífi barnabarnanna spurðu þá opinna spurninga segir Smith, eins og „Hefurðu orðið skotin/inn í einhverjum nýlega?“

Það er bara krúttlegt að vera svolítið þybbin/inn.

Ekki hefja umræður um holdarfar eða útlit barnabarnsins. Þó það sé vel meint og ykkur finnist það hljóma elskulega eða sem hrós, getur það virkað þveröfugt á barnið, sem getur orðið stórmóðgað eða hreinlega miður sín. Smith telur það hlutverk afa og ömmu að byggja upp traust.

Ef þú hefur áhyggjur af að barnabarnið sé að þyngjast of mikið, skaltu bjóða því hollt snakk eins og ávexti í staðinn fyrir flögur. Og það er líka gott að bjóða barninu frekar að fara með ykkur í göngutúr, en horfa með ykkur á mynd í sjónvarpinu.

Af hverju ertu aldrei í peysunni sem ég gaf þér?

Ef barnabörnin eru jafn vel upp alin og þið vonist til, kunna þau að sýna gleði þegar þau opna frá ykkur pakka og þakka kurteislega fyrir sig.  Það gerir lítið fyrir sambandið við barnabarnið að spyrja hvers vegna hún sé ekki í peysunni sem þið gáfuð henni þó ykkur dauðlangi að vita það. Sérstaklega þegar þið sjáið að hún er enn í gamla snjáða jakkanum sem hún er alltaf í, en nýja peysan sést hvergi.

Það er betra að hafa ekki orð á þessu, en næst þegar kemur gjafatími, afmæli eða jól, væri ráð að spyrja foreldrana hvað hana langar í, eða gefa henni gjafabréf, þannig að hún geti valið gjöfina sjálf.

Hvað segja foreldrar þínir um mig?

Ertu að fiska eftir upplýsingum? Það er sama hvort skilnaður stendur yfir í fjölskyldunni og þig langar að vita hvort  tengdadóttirin eða sonurinn séu að tala illa um þig, eða hvort þú ert bara forvitin að heyra hvað foreldrum barnsins finnst um þig. Ekki láta þér detta þetta í hug. Það er mjög óþægilegt fyrir börn og unglinga að vera stillt þannig upp við vegg og þurfa að bera upplýsingar á milli fullorðinna.

Þegar skilnaður verður á alls ekki að segja neitt sem börnin geta upplifað sem neikvætt. Jafnvel þó ykkur semji ekki við tengdabörnin. Það á að ræða þetta eins hlutlaust við barnið og hægt er og láta það ráða því hvað það vill segja og hvað ekki.

Fékkstu góðar einkunnir í skólanum?

Það er væntanlega ekki ætlunin að setja meiri pressu á barnabarnið. Það á mjög sennilega nú þegar,  fullt í fangi með að standa undir væntingum foreldra og kennara um góðar einkunnir. Julia Siemens, kona sem vitnað er í og sem sér um foreldrafræðslu, segir að það geti komið barninu í uppnám að segja kannski ósatt, af því það vill fyrir alla muni að afi og amma séu ánægð með þeð.

Það er betra að spyrja barnabarnið almennt um skólann. Hverjar eru uppáhalds námsgreinarnar og hver er skemmtilegasti kennarinn? Ef þið sýnið áhuga getur það hjálpað barninu til að opna sig og ræða við ykkur um þau hugðarefni sín sem tengjast skólanum.

Ekki örvænta þetta gengur yfir.

Hvort sem það eru leiðindi í skólanum, unglingabólur eða ástarsorg er ekki rétt að benda barnabörnunum á að þetta gangi yfir eða þau vaxi uppúr þessu. Það er vissulega vel meint og satt, en slík viðbrögð geta fallið í grýttan jarðveg og jafnvel sært barnið. Svona setningar geta hljómað eins og að þið viljið gera lítið úr vandamáli sem í huga barnsins er eins og heimsendir.

Það virkar betur að spyrja. Viltu tala um það? Eigum við að hittast á sunnudaginn og ræða þetta yfir ís?

 

 

 

Ritstjórn desember 15, 2022 07:00