Geturðu passað í kvöld?

Það er ekki mikið um nýjar kannanir sem varða líf og starf eldra fólks í landinu. En við hjá Lifðu núna höfðum gaman af að glugga í þessa gömlu rannsókn á því hversu mikið afar og ömmur gæta barnabarnanna. Það voru Ingibjörg H. Harðardóttir lektor í sálfræði og Amalía Björnsdóttir dósent í aðferðafræði sem gerðu hana árið 2006.Tafla barnagæsla 1 Rætt var við 21 eldri borgara í könnuninni og fram kom að um 62% af öfum og ömmum taka þátt í að gæta barnabarnanna, en tæplega 40% sögðust aldrei passa. Erlendar rannsóknir sýna að afa og ömmu hlutverkið er að flestra dómi eitt það mikilvægasta í lífinu þegar árin færast yfir og afar gefandi. Það er ótrúlegt að því sé öðruvísi farið hér á landi. En gefum öfum og ömmum í rannsókninni orðið.

Ég hef alltaf verið að sinna svolítið barnabörnum og m.a.s. langömmubörnum svo ég gríp ennþá inn í það, mætti segja mér að það væri tvisvar í viku sem ég sæki barn á leikskólann og hef hann þangað til mamman kemur heim og er að passa langömmubörn á meðan mamma er að reyna að læra. Ég gríp alltaf eitthvað í það.

Eldri börnin sem eru orðin meira sjálfbjarga koma oft við á skólatíma ef afi og amma búa nálægt: „Það er meira á matartímum. Stundum ef það eru göt hjá þeim þá koma þeir.

Afar og ömmur í rannsókninni segjast einnig hjálpa barnabörnunum við námið;

Elsta langömmubarnið er núna orðið 14–15 ára. Og hann býr nú reyndar í Danmörku en þegar hann kemur þá kemur hann hingað. Eins var hann í skóla hér í hálft ár og þá kom hann reglulega einu sinni til tvisvar í viku og ég hjálpaði honum með íslenskuna sem hann var að gera í skólanum. En það var ósköp ljúft að fylgjast með honum.

Enn aðrir eru virkir í að fylgjast með íþróttastarfi ungu kynslóðarinnar;

Ég mæti á flest alla leiki sem að hér eru og öll íþróttamót og reyni alltaf að hjálpa til í undirbúningi að mótum og öðru, þegar þau standa, og ég tel ekki eftir mér að vinna í sjálfboðavinnu að vinna við það. Ég held að það sé mikið forvarnarstarf unnið þar og tel að það sé öllum hollt að vinna í slíku starfi.

Í sumum fjölskyldum eldri borgara eru, eins og í öðrum fjölskyldum, viðfangsefni sem kalla á sértækan stuðning og það er ljóst af viðtölunum í rannsókninni að þar leggur þessi hópur sitt af mörkum gagnvart börnum og barnabörnum. Má nefna einhverfan dreng sem nýtur aðstoðar afa síns við lyfjagjöf og fatlaðan dreng sem nýtur stuðnings ömmu sinnar og afa;

Jú, hann getur ekki gengið en er afskaplega glaður og svona duglegur strákur. Nýtur þess að vera á hestbaki og það er álitið að það sé mjög gott fyrir svona fötluð börn. Við höfum verið að fara með hann upp í Kópavog einhvers staðar. Og svo flytjum við líka þangað þegar mamma hans þarf að fara.

Í rannsókninni segir ennfremur að það sé ljóst að eldri borgarar séu  liðtækir í stuðningi við fjölskyldur sínar þegar sérstakrar aðstoðar sé þörf og myndi eins konar öryggisnet þegar á þurfi að halda. Oft brúi þeir bilið áður en til opinberrar aðstoðar komi. Í mörgum tilfellum séu þeir líklega þeir einu innan fjölskyldunnar sem geti ráðstafað tíma sínum að eigin geðþótta og veitt þennan stuðning.

 

Ritstjórn janúar 16, 2015 15:20