Að halda góðu sambandi við hitt ömmu- og afasettið!

(Þýðing af vef Sixty and me, grein Ann Richardson)

Þegar við verðum afi og amma í fyrsta sinn er gífurlega spennandi að bjóða nýtt barn velkomið í heiminn. Svo ekki sé talað um öll hin stigin, þ.e. frá því barnið er smábarn og upp úr. En þið munuð taka eftir að koma barnabarna hefur áhrif á samband við fjölda annarra í lífi ykkar.

Samband við okkar eigin son eða dóttur dýpkar mögulega en það getur líka kallað fram gamla spennu.

Sambandið við tengdason eða -dóttur mun líka breytast. Þau eru í hópi þeirra sem dáir nýja einstaklinginn. Þú gætir komist að því að betra er að fara varlega til að sýnast ekki afskiptasamur eða -söm. En líklega kemur mest á óvart að það er hitt settið af afa og ömmu sem verður allt í einu mjög mikilvægar manneskjur í lífi ykkar.

Hinir foreldrarnir

Reynslan hefur kennt mér að fólkið sem okkar eigin börn kjósa að deila lífinu með er með alls konar bakgrunn og við höfum lítið með valið að gera. Þetta geta mögulega verið börn nágranna eða vina en þau eru það samt sjaldnast.

Oftar en ekki eru tengdaforeldrar barnanna okkar ólík okkur á ýmsan hátt. Þeir geta til dæmis verið af öðru þjóðerni, trúarbrögðum eða stétt.

Stundum eru þeir mjög stífir á meðan þú ert ef til vill fyrrverandi hippi eða öfugt. Þeir geta verið fastir á meiningunni varðandi trúmál á meðan þú hefur engar sérstakar trúarskoðanir.

Þeir kunna að vera helteknir af skemmtisiglingum til fjarlægra landa á meðan þú myndir aldrei fara í slíka ferð o.s.frv.

En kannski eru þau yndislegt fólk og þið eruð sæl yfir að börnin ykkar kynntu ykkur. Maður veit bara aldrei.

Að hittast

Flestum þykir dýrmætt að koma á góðum samskiptum við tengdaforeldra barna sinna snemma svo eftirleikurinn verði sem þægilegastur fyrir alla.

Móðir mín ákvað til dæmis að það væri góð hugmynd fyrir hana og föður minn að hitta móður nýja eiginmanns míns og núverandi mann hennar, eitt sinn þegar foreldrar mínir áttu leið um London. Tengdamóðir mín var verkakona, mikil drykkjukona og á varðbergi gagnvart fólki sem hún þekkti ekki.

Ég vissi sem var að þetta gat aldrei orðið fyrirmyndasamband tengdafólks. Ég var ekki þarna en mikið rosalega held ég að þetta hafi verið langt og leiðinlegt kvöld sem þetta ókunna fólk átti saman.

Afi og amma

Og næsta skref er að börnin ykkar verða foreldrar og skyndilega eigið þið sameiginlegt áhugamál sem er ,,barnabarn“.

Þessar nýju aðstæður okkar allra geta orðið áhugaverðar, erfiðar eða, ef við erum heppin, hamingjusamar.

Fyrir nokkru skrifaði ég bók byggða á djúpum viðtölum við ömmur og afa og komst að því að reynsla fólks gat verið mjög ólík.

Í besta falli kunni allt þetta fólk vel hvert við annað og gekk langt í að gera líf barna sinna auðveldara, samræmdu til dæmis áætlanir varðandi barnapössun o.s.frv. Þau voru meðal annars vakandi fyri því þegar unga parið þurfti svigrúm til að tala saman eftir vökunætur.

Samkeppni

Á hinn bóginn gat myndast alvarleg spenna. Stundum verður til samkeppni milli ömmu og afa um það hvort settið getur gert meira fyrir barnabörnin í þeim tilgangi að komast nær þeim og verða vinsælli.

Stundum kemur fram ágreiningur um uppeldi ungviðisins og þar geta trúarskoðanir líka haft sitt að segja.

Einnig getur ágreiningur um uppeldi orðið að bitbeini og ósætti vegna strangra reglna gert ógagn eins og misræmi í því hversu hátt markið er sett varðandi næringu fyrir barnabörnin. Í einu tilvikinu hafði önnur amman miklar áhyggjur af því að börnin fengju of mikið af sætum drykkjum og sælgæti hinum megin og þá eru góð ráð dýr.

Að senda út gárur

Þegar betur er að gáð kemur á óvart hversu margt, sem við gerum, sendir truflandi skilaboð, langt umfram það sem búist var við. Þegar afkomandi manns kynnist maka og til verður barn hefur lífið allt í einu snúist á hvolf sem getur verið alvöru ,,bónus“ eða mikill höfuðverkur. En þá er það okkar að gera það besta úr, barnsins vegna!

Ritstjórn júní 16, 2022 07:00