Í ár á Thorvaldsensfélagið 150 ára afmæli. Thorvaldssenkonur héldu uppá afmælið þann 19. nóvember síðastliðinn. Þetta er eitt öflugasta og elsta góðgerðafélag kvenna hér á landi og á afmælinu veittu þær styrki til líknarmála, m.a.50 milljónir til Kvennaathvarfsins. Of fáir vita að í sameiningu reiddu kvenfélögin fram þriðjung af byggingarkostnaði Landspítalins þegar hann var byggður 1930, framtak sem þær tóku sér í fang til að fagna kosningaréttinum sem þeim hlotnaðist 1915.
Fyrsti formaður Thorvaldsensfélagsins var Þórunn Jónassen, hálfsystir Hannesar Hafstein fyrrum ráðherra Íslands. Hún er jafnframt ein af þeim konum sem fjallað er um í varanlegri sýningu í Hannesarholti sem nefnist Konur í lífi Hannesar Hafstein og dregur fram konurnar sem voru áhrifavaldar á mótunarárum Hannesar og gerðu hann að kvenréttindamanni sem hlífði sér hvergi í baráttunni fyrir réttindum kvenna. Af þessum sökum ber Thorvaldsensfélagið oft á góma í Hannesarholti þar sem sagt er frá stofnun félagsins og afrekum formæðranna. Sigríður Bachmann sagnfræðingur hannaði sýninguna.
Í tilefni af 150 ára afmæli Thorvaldsensfélagsins fengu Thorvaldsenskonur heimboð í Hannesarholt, þar sem farið var yfir sýninguna, húsið skoðað og stuttmynd um Hannes Hafsteein og mótunarár borgarinnar notið. Að sjálfsögðu var afmælinu fagnað með kaffi og hjónabandssælu.
Tveimur vikum síðar, á sama tíma, miðvikudaginn 26.nóvember kl.13.30 er meiningin að við fara af stað með reglulega samverustund í Hannesarholti sem kallast Prjónum saman og þá eru félagskonur Thorvaldsensfélagsins velkomnar með handavinnu sína eins og annað fólk sem sinnir hannyrðum.
Ragnheiður Arnórsdóttir skrifar.







