900 hjúkrunarfræðingar að hætta störfum

Það verður skortur á starfsfólki í heilbrigðis- og ummönnunargeiranum, á næstunni að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem Vinnumálastofnun hefur tekið saman um horfur og stöðu á vinnumarkaði næstu tvö árin. Í skýrslu Vinnumálastofnunar segir að ríflega tuttugu þúsund manns hafi verið starfandi í heilbrigðis- og félagsþjónustu árið 2014 og megi segja að á heildina litið hafi ekki orðið miklar breytingar á fjölda starfandi í greininni frá 2008. Líkt og í annarri opinberri þjónustu er gert ráð  fyrir áframhaldandi aðhaldi í útgjöldum til málaflokksins næstu ár.

Hjúkrunarfræðingar hætta vegna aldurs

Þörf fyrir fjölgun starfsfólks fer þó vaxandi vegna fjölgunar aldraðra og vegna aukinnar þarfar almennt í heilbrigðiskerfinu fyrir aukna þjónustu eftir aðhaldsaðgerðir síðustu ára. Því er gert ráð fyrir lítils háttar fjölgun í greininni og aukinni þörf verði mætt að minsta kosti að hluta til. Endurnýjun í mörgum greinum heilbrigðisþjónustu getur orðið vandamál á næstu árum. Sem dæmi má nefna að á næstu 3 árum má gera ráð fyrir að um 900 hjúkrunarfræðingar hætti störfum sökum aldurs á meðan aðeins er gert ráð fyrir að milli 400-500 nýir hjúkrunarfræðingar útskrifist á sama tíma, að því er fram kemur í skýrslu Vinnumálastofnunar. Þá er nokkuð um að hjúkrunarfræðingar séu að mennta sig til annarra starfa eða að flytja til útlanda samkvæmt könnun sem Félag hjúkrunafræðinga gerði í október á síðasta ári. Samkvæmt könnuninni íhuga um 30 prósent  hjúkrunarfræðinga að flytja af landi brott á næstu 2 árum og er hlutfallið hærra meðal þeirra yngri.

 

 

 

 

Ritstjórn apríl 13, 2015 12:08