Nærri fjórðungur atvinnulausra 50 plús

141 einstaklingur 50 ára og eldri fullnýtti atvinnuleysisbótarétt hjá Vinnumálastofnun á síðasta ári. En bótarétturinn er tvö og hálft ár. Alls voru 975, fimmtíu ára og eldri á skrá hjá Vinnumálastofnun í síðasta mánuði, næstum jafnmargir karlar og konur. Heildarfjöldi atvinnulausra í apríl voru 4.073, 50 ára og eldri eru því tæp 24 prósent þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá.

Af þeim sem voru 50 ára og eldri höfðu 429 verið innan við hálft ár á skránni. Um 550 einstaklingar teljast langtímaatvinnulausir, það er þeir hafa verið lengur á atvinnuleysisskrá en í sex mánuði. Rúmlega 300 voru búnir að vera á skránni í eitt ár eða lengur.

Þrátt fyrir að hópurinn 50 ára og eldri sé tiltölulega fjölmennur á atvinnuleysisskránni hefur fækkað töluvert í hópnum á síðustu mánuðum. Sem dæmi má taka að atvinnulausir 55 ára og eldri voru 870 í janúar 2016, þeim hafði bækkað í 634 í september sama ár en í apríl síðast liðnum voru þeir orðnir 494.

Fjölmennustuhóparnir sem eru atvinnulausir 50 ára og eldri í apríl, voru annars vegar þeir sem eru með grunnskólapróf fjöldi þeirra var 396 og hins vegar þeir sem eru með háskólapróf fjöldi þeirra var 241.

 

Ritstjórn maí 22, 2017 11:15