Miðaldra atvinnulausir með háskólapróf

Tæplega 550 einstaklingar með háskólamenntun 40 ára og eldri voru á skráðir atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun í janúar þar af eru 247, 50 ára og eldri.  Á atvinnuleysisskrá hjá stofnuninni eru tæplega 1150 manns með háskólamenntun og er það rúmlega fjórðungur allra atvinnulausra.  Atvinnulausir með háskólamenntun eru fleiri en atvinnulausir með stúdentspróf.

(heimild Vinnumálastofnun)

Vinnumálastofnun hefur nú sent ákall til sveitarfélaga og ríkisstofnana um að ráða háskólamenntaða af atvinnuleysisskrá til starfa í sumar.  Fjölmennasti hópur háskólamenntaðra eru viðskiptafræðingar eða 150, 54 lögfræðingar eru á skránni, 33 kennarar og 18 verk- og tæknifræðingar og 13 sem er félagsfræðimenntun, 876 eru með aðra háskólamenntun.  Vinnumálastofnun segir að möguleikar séu á því að að með hverjum sem ráðinn væri fylgdi starfsþjálfunarstyrkur sem næmi annað hvort fullum eða hálfum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði eða styttra ef ráðningartíminn væri styttri.  Fullar bætur eru nú rúmar 227 þúsund krónur á mánuði.  Vinnumálastofnun segir að æskilegast væri að störfin sem í boði væru féllu sem best að menntun þeirra og reynslu sem ráðnir væru og í ráðningunni fælist þjálfun sem gæti nýst fólki í næstu skrefum út á vinnumarkaðinn.

Ritstjórn febrúar 19, 2018 09:25