Á að breyta heiti félaga eldri borgara?

Nokkrar umræður spunnust um það á aðalfundi Félags eldri borgara, hvort það væri rétt að breyta heiti Félaga eldri borgara. Einn félagsmanna taldi fráleitt að „yngri“ eldri borgarar hefðu nokkurn áhuga á að mæta á böll félagsins „Það vill enginn fara á ball með afa og ömmu“, sagði hann. Þorkell Sigurlaugsson sem hætti við formannsframboð í félaginu, stakk uppá heitinu Sextíu plús. Annar félagsmaður taldi að ekki ætti að tengja heiti félagsins aldri.

Ingibjörg ávarpar fundinn eftir endurkjörið

Ingibjörg H. Sverrisdóttir var endurkjörin formaður með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, enda ein í framboði. Kári Jónasson var atkvæðahæstur í stjórnarkjörinu sem fram fór á fundinum.

Félagsmönnum í FEB fjölgaði verulega á síðasta starfsári félagsins. „ Og eru félagsmenn nú orðnir um það bil 14.000 sem er ómetanlegur styrkur fyrir félagið“, sagði Ingibjörg þegar hún flutti skýrslu stjórnar fyrir árið 2021 á fundinum.  Það kom einnig fram hjá henni að mikil áhersla hefði verið lögð á baráttuna fyrir bættum kjörum á síðasta ári, í samvinnu við Landssamband eldri borgara og önnur aðildarfélög innan þess. Þá hefði samvinnuverkefni aðildarfélaga LEB verið keyrt áfram fyrir síðustu Alþingiskosningar undir kjörorðinu „Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf“.  Unnið væri að hliðstæðu verkefni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.

Þrátt fyrir Covid, var félagsstarfið býsna öflugt hjá Félagi eldri borgara í fyrra og  ferðir voru farnar bæði innanlands og utan, en þær hafa verið gríðarlega vinsælar meðal félagsmanna. Það þurfti einungis að fella niður eina ferð vegna Covid.

Dýrleif Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri FEB kynnti stöðu fjármála á fundinum. Hún greindi frá því að hagnaður hefði orðið á rekstrinum árið 2021, um 15,7 milljónir króna. Þetta er mikill viðsnúningur frá árinu á undan, þegar 3,7 milljóna króna tap varð á rekstri félagsins.

 

 

 

Ritstjórn mars 8, 2022 18:21