Vilja láta afnema vasapeninga en ráðamenn virðast heyrnarlausir

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

„Landssamband eldri borgara hefur ítrekað lagt til að vasapeningar á sjúkrastofnunum fyrir aldraðra verði afnumdir. Þeir svipta fólk bæði sjálfræði og fjárræði,” segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landsambands eldri borgara.Sambandið telur að það þurfi að breyta lögum um almannatryggingar og um málefni aldraðra. Fólk sé svipt sjálfræði og fjárforræði þegar það fer á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Þá hætti það að fá beinar bótagreiðslur úr almannatryggingarkerfinu auk þess að innheimt sé viðbótargreiðsla af lífeyrisréttindum þessa hóps fái það lífeyri úr almenna kerfinu.

Forræðishyggja gagnvart öldruðum

„Þetta fyrirkomulag sviptir fólk  bæði sjálfstæði og sjálfsvirðingu og er niðurlægjandi  og í því felst forræðishyggja sem samræmist ekki grundvallarsjónarmiðum um jafnrétti og mannréttindi,” segir Jóna Valgerður. LEB vill afnema  svokallaða vasapeninga  til þeirra sem dvelja á hjúkrunar-og dvalarheimilum, en að fólk haldi sínum  lífeyri og tryggingarbótum. Það verði að setja skýar reglur um hvað einstaklingur á að greiða þegar hann flytur af eigin heimili á annað sem samfélagið rekur. Landssambandið hefur margítrekað afstöðu sína til þessara mála. Í greinargerð með ályktun sem samþykkt var fyrir rúmu ári segir að það sé óviðunandi að heimilisfólk á hjúkrunarheimilum sé svipt fjárræði sínu. Allir borgi sömu óskilgreindu upphæðina í dvalargjöld þrátt fyrir mikinn aðstöðumun. Það samræmist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að einungis þeir þegnar sem orðnir eru 67 ára borgi fyrir ummönnun sína.

 

 

 

 

Ritstjórn mars 26, 2015 16:49