Á að fara í jarðarför fyrrverandi maka?

Þegar fólk eldist, fjölgar jarðarförunum sem það fer í. Foreldrar falla frá, vinir og samferðamenn í lífinu. Oftast er það nokkuð augljóst hvaða jarðarför er farið í og hvaða ekki. En kannski ekki endilega alltaf. Fólk fer í jarðarför nánustu aðstandenda og fjölskyldu, gamalla vina og jafnvel vinnufélaga. En hvað með gamla vini, sem lítið samband hefur kannski verið við í áratugi, er óviðeigandi að fara í þeirra jarðarför og taka pláss frá örðum í kirkjunni? Eða fyrrverandi tengdafólk? Og hvað með foreldra gamalla vina, sem maður þekkti ekki endilega vel?

Fóru í allar jarðarfarir og erfidrykkjur

Anna Sigríður Pálsdóttir

Menn fara í jarðarfarir vegna þess að þeir vilja kveðja þann sem er látinn. En stundum fara menn til þess að votta vinum sínum samúð og stuðning, hafi þeir til að mynda misst foreldra sína eða aðra nákomna, jafnvel þó þeir hafi ekki þekkt vel til hins látna. „Ég man eftir mönnum í gamla daga sem fóru í allar jarðarfarir og allar erfidrykkur, en ég held að það sé liðin tíð“, segir séra Anna Sigríður Pálsdóttir sem þjónaði lengi sem prestur. „Ef fólk spyr mig ráða um hvort það eigi að fara í ákveðna jarðarför eða ekki, segi ég því að horfa í hjarta sitt. Af hverju vill það fara? Til að kveðja, eða sýna vináttu og virðingu? Ef menn eru bara forvitnir og vilja til dæmis vita hverjir eru í jarðarförinni, þá eru þeir  komnir yfir strikið og eiga ekkert erindi í jarðarförina“, segir hún.

Sakna þess að geta ekki kvatt þegar jarðað er í kyrrþey

Ef jarðað er í kyrrþey, er fólki gjarnan boðið í jarðarförina. Anna Sigríður segir að stundum hafi sá látni gefið um það afdráttarlaus fyrirmæli að engir séu velkomnir í jarðarförina nema allra nánustu ættingjar. „Það getur verið vegna sárinda í fjölskyldum“, segir hún. „En margir sakna þess að geta ekki kvatt þann sem er jarðaður í kyrrþey“.  Hún segir líka að fólk gefi stundum ítarleg fyrirmæli um það hvernig jarðarförin eigi að vera. „Stundum er gott að vita hvers hinn látni óskaði sér í þeim efnum, en stundum er það líka svolítið erfitt , því þá fá aðstandendur ekki að koma með neitt frá sjálfum sér, en jarðarförin er fyrir þá sem eftir lifa“ segir hún.

Flestir í bænum koma í jarðarförina

Anna Sigríður þjónaði um tíma sem prestur á Stokkseyri og Eyrarbakka. Hún segir að jarðarfarir séu með öðru sniði úti á landi. „Þá koma flestir í bænum í jarðarförina“, segir hún.  Þarna kemur fram munurinn á hverjir fara í jarðarfarir í smærri samfélögum og stærri. Að meðaltali mæta um 150 manns í jarðarfarir á Íslandi, en 25-30 í Svíþjóð. Anna Sigríður segist eitt sinn hafa jarðsungið sænskan vin sinn í Svíþjóð og það hafi vakið athygli hvað hún talaði persónulega um hann í kirkjunni, en í sænskum athöfnum sé það ekki venjan, heldur sé meira um bænir og guðsorð, en um æviskeið hins látna. Hún segir líka ólíkt að á Íslandi sé fyrirtækjum stundum lokað vegna jarðarfarar til að fólk komist í jarðarför hjá vinnufélaga, en það gerist aldrei í Svíþjóð.

Jarðarfarir fyrrverandi tengdafólks

Almennt um það að fara í jarðarför hjá fyrrverandi maka eða tengdafólki, segir Anna Sigríður að það fari eftir því, í hversu nánu sambandi menn séu við fólkið. Hafi sambandið verið gott komi af sjálfu sér að menn kveðji fyrrum maka og tengdafólk, en það sé ekki jafn sjálfgefið þar sem mikil særindi hafi verið. Einföld lausn sé að spyrja tengdafólkið og eftirlifandi maka fyrrum eiginmanns eða konu, hvort það sé því á móti skapi að maður komi í jarðarförina. Anna Sigríður, segist almennt ekki muna eftir að aðstandendur hafi amast við fólki sem mætti í jarðarför. „ Það er sjaldgæft að fólki sé meinað að koma í jarðafarir. Það er helst ef að erfiðleikar hafa verið í samskiptum í fjölskyldum. Það þarf að hvíla ró og friður yfir athöfninni og ekki ástæða til að ýfa upp sárar tilfinningar á þessum tímamótum“, segir Anna Sigríður.

Skoðið Upplýsingabanka Lifðu núna til að fá upplýsingar um andlát og útfarir. Smella hér.

Ritstjórn febrúar 8, 2019 11:26