Hvað telst viðeigandi klæðnaður í jarðarförum?

Viktoria drottning klæddist svörtu í fjörutíu ár.

Hvað er viðeigandi klæðnaður í jarðarförum? Það er spurning sem flestir hafa spurt sig. Eitt er þó víst að við mætum ekki í jarðarfarir í áberandi fötum, hlaðin stórum og áberandi fylgihlutum. Jarðarför er stund til að minnast þess sem genginn er en ekki stund til að draga athyglina að okkur sjálfum. Að því sögðu getur verið erfitt að ákveða hvað telst viðeigandi fatnaður og hvað ekki.

Á vef Huffington Post var nýlega rætt við þrjá sérfræðinga um hvað væri tilhlýðilegur klæðnaður í jarðarförum. Lifðu núna endursagði og stytti örlítið.  Það er löng hefð fyrir því að klæðast svörtu í jarðarförum. Í vestrænum þjóðfélögum hefur svarti liturinn verið tengdur sorg í gegnum aldirnar. Sá siður að klæðast svörtu við jarðarfarir nær allt til daga rómverska heimsveldisins. Viktoría drottning Bretaveldis á árunum 1837 til 1901  kom svo svarta litnum endanlega á kortið en hún klæddist svörtu við allar jarðarfarir af virðingu við hinn látna. Raunar klæddist Viktoría nánast aldrei öðru en svörtum fötum eftir lát Alberts eiginmanns síns en hún lifði hann í fjörutíu ár. Svartur er hins vegar ekki sorgarlitur í nærri öllum samfélögum. Í Kína er hvítur litur sorgarinnar, í Tælandi klæðast ekkjur fjólubláu á meðan þær syrgja eiginmann sinn. En hefðir breytast í tímans rás. Fólk syrgir á mismunandi hátt og sumir vilja fagna lífinu í jarðarförum og það kallar ekki á jafn formlegan klæðnað. Þrátt fyrir er svarti liturinn sá litur sem fólk í hinum vestræna heimi velur hvað oftast að klæðast í jarðarförum.

Það er í lagi að klæðast dökkbláu.

„Fólk heldur að það eigi að vera í svörtu. Ef þú ert karlmaður áttu kannski ekki svört föt og það er allt í lagi. Dökk föt í hvaða lit sem er eru gjaldgeng í jarðarförum, og það gildir jafnt fyrir karla og konur,“ segir Diane Gottsman siðameistari og skólastjóri. Hún segir að það sem fólk þurfi að hafa í huga sé að draga ekki athyglina um of að því sjálfu með áberandi fatnaði. „Þú átt ekki að klæðast eins og þú sért að fagna,“ segir hún. Í sama streng tekur siðameistarinn Daniel Post Senning. „Hefðin segir að við eigum að vera dökkklædd en það þarf ekki endilega að þýða að fólk eigi að klæðast svörtu frá toppi til táar. Ekki klæða þig eins og þú sért á leið í veislu. Klæddu þig eins og þú sért að tjá sorg þína.“  Senning segir að hefðirnar séu að breytast það vilji ekki  allir mæta eins í jarðarfarir. Elaine Swann, þriðji siðameistarinn sem Huffington Post ræddi við, segir að einstaka sinnum biðji aðstandendur fólk um að mæta í einhverjum ákveðnum lit sem hafi þá verið uppáhaldslitur hins látna. „Það er sjálfsagt að fara að slíkum tilmælum,“ segir hún. Sérfræðingarnir þrír eru þó sammála um að litir eins og svart, grátt eða dökk blátt séu öruggir litir til að mæta í jarðarfarir eða eins og Gottsman segir „þú vilt ekki draga athyglina að sjálfum þér.“

Kjóll af þessu tagi þætti seint tilhlýðilegur.

En það eru ákveðin föt sem fólk ætti aldrei að mæta í í jarðarfarir. „Enginn ætti að mæta í íþróttafatnaði eða æfingafatnaði. Það er fatnaður sem ætti aldrei að sjást í jarðarförum,“ segir Swann. Hann segir líka að fólk ætti ekki að koma gallabuxum. Ef fólk á ekkert annað til að vera í ætti það að klæðast góðri skyrtu og blazer jakka við buxurnar en allir ættu samt af fremsta megni að forðast slíkan klæðnað við jarðarfarir. Annað sem fólk ætti ekki að nota við jarðarfarir eru stutt pils eða kjólar, flegnir kjólar,  bolir og hlýrabolir. „Stutt er flott, en þegar fólk lítur tvisvar til þrisvar á pilsið þitt og þú átt í vandræðum með að sitja almennilega er pilsið orðið of stutt,“ segir Gottsman og bætir við „Það vita allir að það er ekki óviðeigandi að vera í pilsi sem nær niður fyrir hné en það vita allir að pilsið er óviðeigandi þegar það skín í nærbuxurnar.“

Aðrir hlutir sem fólk ætti að athuga eru að vera ekki of glitrandi, það er sleppa því að nota pallíettukjólinn, jakkann eða jakkann úr glansefninu. Það ætti líka að passa að vera ekki með þungt ilmvatn eða nota rakspíra í óhófi. Mörgum finnst óþægilegt að sitja eða standa nálægt fólki sem lyktar af ilmvatni eða rakspíra. Þegar kemur að skóm ráðleggur Gottsman fólki að vera í þægilegum dökkum skóm. Það þarf að vera hægt að ganga í skónum innandyra en fólk þarf líka að hafa í huga að það þarf að geta gengið í þeim á malarstígum eða grasi. Hann segir að tvennt sé bannað í jarðarförum en það eru strigaskór og íþróttaskór. Í lok dags snýst þetta allt um að þú hafir sýnt hinum látna og aðstandendum hans virðingu, bæði hvað varðar klæðaburð og framkomu. „Fólk tekur eftir því þegar annað fólk leggur sig fram,“ segir Gottsman og bætir við ef þú ert ekki viss fáðu þá ráð hjá fjölskyldu þinni eða vinum. Spurðu hverju þeir ætli að klæðast, en slepptu því að hringja í nánustu aðstandendur hins látna. Þeir hafa öðru að sinna en ráðleggja fólki í hverju það eigi að vera.

Ritstjórn febrúar 16, 2018 06:16