Brot

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar. 

 

Ég er sífellt að velta vöngum yfir einhverju. Oftar en ekki rekur hver óreiðukennd hugsunin aðra en saman mynda þessar tætingslegu hugsanir ákveðna brotakennda heild sem er lífið sjálft; skoðanir mínar, viðhorf og tilfinningar.

„Fólkið í landinu“

Ég hlusta mikið á Ríkisútvarpið og dagskrá Rásar 1 er nánast undirspil í erli míns daglega lífs. Oftast líkar mér efnið ágætlega og slekk bara ef það höfðar ekki til mín. En á dagskrá er líka efni sem ég bæði vil og þarf að hlusta á og fylgjast með; eins og til dæmis þátturinn Vikulokin á laugardagsmorgnum. Samt fer þessi þáttur stundum í taugarnar á mér og veldur vonbrigðum. Þáttastjórnendur bjóða til sín gestum sem fara yfir málefni liðinnar viku og best gæti ég trúað að markmiðið sé að gestirnir endurspegli ólíkar skoðanir og viðhorf “fólksins í landinu”. Það er hins vegar deginum ljósara að ég og mínir líkir teljumst ekki til þess hóps miðað við það sem fram kemur hjá gestum þáttarins. Málefni okkar eru reyndar stundum rædd í mýflugumynd en við erum sjaldnast spurð álits – ekki einu sinni þegar mál sem okkur varðar sérstaklega eru til umræðu. Í nýlegum þætti Vikuloka bar heilbrigðismál á góma, enda mikilvægur málaflokkur sem alla varðar, og aðeins ýjað að því að eldra fólk og þeir sem eru í viðkvæmri stöðu fengju ekki þá heilbrigðisþjónustu sem nauðsynleg er. Áhugi gesta þáttarins á þessum málum var lítill sem enginn og þeir voru fljótir að snúa sér að öðrum og “mikilvægari” málum. Samkvæmt lögum ber mér að koma með bílinn minn reglulega í skoðun enda mikilvægt að hann sé í góðu standi. Ekkert mál að mæta og bíða smástund meðan sérfræðingarnir fara yfir gripinn. Málið horfir hins vega öðruvísi við þegar kemur að okkur sjálfum. Hvernig væri að hið opinbera sæi til þess að við fengjum árlega heilsufarssskoðun þar sem okkur væri í leiðinni leiðbeint um ýmsa þætti sem gætu bætt líf okkar og tilveru og forðað okkur og samfélaginu frá því að við verðum “fráflæðivandi”. Auðvitað þarf oft meira til en kannski væri slík ”ársskoðun” gott fyrsta skref.

Rútína

Dagskrá míns daglega lífs er í frekar föstum skorðum. Ég fer oftast á fætur á sama tíma á morgnana, sinni hefðbundinni snyrtingu, kveiki á útvarpinu, fæ mér morgunverð og fletti Mogganum. Ég staldra alltaf við minningargreinarnar enda komin á þann aldur að oft er verið að skrifa um fólk sem ég þekki eða kannast við og fólk á mínum aldri eða jafnvel yngra. Reyndar ver ég líka töluverðum tíma í að ráða Sudoku gátur dagsins enda sannfærð um að þeim tíma sé vel varið og þrautirnar góðar fyrir heilabúið. Síðan tekur hvert atriðið við af öðru þangað til ég tek teppið af rúminu, undirbý mig undir að koma mér í háttinn og næ mér í bók til að lesa fyrir svefninn. Sem betur fer á ég kost á að brjóta þetta hefðbundna ferli upp á ýmsa vegu og geri það sannarlega. Daglega rútínan tekur líka ákveðnum breytingum eftir árstímum. Á sumrin spila ég golf og fæ hreyfingu út úr því að ganga eftir golfvellinum og þegar haustar taka daglegir göngutúrar eða leikfimi við. Ég á góða vini, sæki fundi, fer í leikhús og spila bridge þannig að ég næ að rækta bæði andann og efnið. Rútínan er hins vegar þægilegur rammi utan um daglegt líf mitt og tilveru.

Röfl, tuð, umhyggja eða ást

Við hjón höfum verið gift í rúmlega hálfa öld. Á þessum langa tíma hafa ýmsar breytingar orðið á lífi okkar og tilveru og samskipti okkar mótast af því. Áður en ég sofna á kvöldin býð ég manninum mínum góða nótt, eins og ég hef reyndar gert frá því við byrjuðum að búa, og færi honum óskir um að hann sofi vel. Á morgnana er fyrsta spurningin: “Hvernig svafstu?” Eða: “Hvernig var nóttin?”  Og hann svarar í sömu mynt. Í fljótu bragði kunna þetta að virðast léttvægar athugasemdir en þegar grannt er skoðað eru þær það svo sannarlega ekki. Svefn næturinnar er undirstaða dagsins sem framundan er. Hafi hann verið slitróttur og slæmur má búast við að dagurinn í kjölfarið beri þess merki. Ég minni hann líka á að skipta um skó, láta klippa sig, fá sér eitthvað að borða og fara varlega þegar hann fer út úr húsi. Sumir myndu flokka orð mín sem afskiptasemi, tuð eða röfl. Aðrir sjá hins vegar í orðunum umhyggju og ást.

Jarðarfarir og minningargreinar

Ég velti því oft fyrir mér þegar ég sæki jarðarfarir og hlusta á prestinn tala yfir moldum hins látna hvað yrði sagt ef það væri ég sem verið væri að jarðsyngja og hugsa líka um hvaða tónlist yrði þá fyrir valinu. Ég mun hins vegar ekki lesa minningargreinar um sjálfa mig og ekki vera í stöðu til þess að ákveða hvaða tónlist verður leikin yfir mér. Sem betur fer virðist mér líka hvoru tveggja yfirleitt vera í góðu lagi og hef í raun ekki miklar áhyggjur af þessum þáttum. Þegar ég les minningargreinar hugsa ég á svipuðum nótum – en þó ekki alveg. Nánast undantekningalaust er miklu lofi hlaðið á hinn látna í minningargreinum og ég er viss um að greinarnar eru skrifaðar af hlýju og heilindum. Að mér læðist samt sú spurning hvort hinn látni hafi í lifanda lífi fengið að heyra hvað hann eða hún hafi verið góð og merkileg manneskja. Líklega erum við ekki nógu dugleg að leyfa fólkinu okkar að heyra hvað það skiptir okkur miklu máli. Vangaveltur um slíkt hafa oft sótt á mig. Einhverju sinni var ég til dæmis að velta fyrir mér hvort sonur minn vissi í raun hvað ég elskaði hann mikið. Ég ákvað því að taka upp tólið og segja honum það. Viðbrögðin hefðu kannski ekki átt að koma mér á óvart: “Er ekki allt í lagi með þig, mamma?”

Niðurlæging – sjálfsvirðing

Ég hef sterka sjálfsvirðingu og hefur sem betur fer sárasjaldan verið sýnd lítilsvirðing. Því miður hefur samt orðið á vegi mínum fólk sem mér hefur fundist koma illa fram við mig. Ég hef hins vegar kosið að leiða slíkt hjá mér eftir mætti – en ekki gleymt því. Upp í hugann kemur manneskja sem mér fannst beita mig miklum rangindum. Ég tók hins vegar með sjálfri mér þá ákvörðun að umrædd manneskja væri ekki þess virði að ég væri sár eða reið út í hana. Ég vissi sem var að slíkar hugsanir kæmu verst niðri á sjálfri mér. Fyrir mörgum árum ræddi við mig kona sem var niðurbrotin eftir að þekktur einstaklingur hafði komið illa fram við hana og viðhaft niðurlægjandi framkomu. Hún ræddi við mig sem ritstjóra og spurði hvað ég myndi gera ef ég væri í hennar sporum. Ég vissi sem var að hún gæti farið með mál sitt í fjölmiðla en það gæti sá sem beitti hana rangindum líka gert og ætti rauninni greiðari aðgang að fjölmiðlum en hún. Niðurstaðan eftir töluverðar umræður og vangaveltur var að hún færi ekki lengra með málið og léti sem umræddur gerandi væri ekki til. Henni fannst sjálfsvirðing sín meira virði en svo að hún kærði sig um að gefa gerandanum frekari höggstað á sér.

Með vindinn í fangið – eða í bakið

Fyrir skömmu las ég viðtal við erlenda konu á níræðisaldri sem menntaði sig sem hjartaskurðlæknir. Hún lýsti í viðtalinu hvað leið hennar að settu marki hafi verið torsótt og að sér hafi í raun fundist hún allt sitt líf hafa verið með vindinn í fangið. Aðeins sárafáar konur á hennar aldri luku stúdentsprófi, enn færri fóru í háskóla og þær sem luku læknanámi voru nánast teljandi á fingrum annarrar handar. Þegar hún sótti um læknastöður stóð hún alltaf höllum fæti ef karlmaður sótti um sama starf. Ég hef mikið velt þessu viðtali fyrir mér. Sjálf lagði ég reyndar fyrir mig hefðbundið kvennastarf – varð kennari – og launin voru þau sömu hvort sem um var að ræða konu eða karlmann. Reyndar voru flestir skólastjórar á þessum árum karlar en það er önnur saga. Þegar mér bauðst að verða ritstjóri buðust mér ákveðin laun sem ég féllst á.  Skömmu síðar var karlmaður ráðinn ritstjóri hjá fyrirtækinu á mun hærri launum en ég. Ég man enn hvað mér fannst mér misboðið þegar ég uppgötvaði umræddan launamun. Skýringarnar hafa sjálfsagt verið ýmsar þó að mér hafi þótt skýringin fyrst og fremst felast í kynjamissrétti. Hvort sem sú var raunin eða ekki ákvað ég að ræða málið og fara fram á að misréttið, sem mér fannst ég beitt, yrði leiðrétt. Niðurstaðan varð sú að laun mín voru hækkuð til jafns við laun umrædds karlmanns. Ég hef því ekki þurft að vera með vindinn í fangið á vinnumarkaði. Reyndar er lífið þannig að stundum höfum við meðbyr en svo blæs líka stundum á móti.

Þuklað á tískunni

Ég hef gaman af að punta mig og hef alltaf haft gaman af fallegum fötum. Þegar ég var að alast upp sigldi pabbi með fisk á markað í Englandi. Hann notaði þá tækifærið og keypti kjóla á okkur systur og mömmu og líka einhverjar spariflíkur á bræður mína. Á þessum tíma var mikill vöruskortur hér á landi þannig að fatakaup pabba komu sannarlega í góðar þarfir. Gömul mynd af okkur systkinum hangir upp á vegg hjá mér og sýnir vel hvað pabbi var mikill smekkmaður. En nú er öldin  önnur og hægt að fá allskonar fínan fatnað í búðum en líka keyptan á netinu. Mér er sagt að hægt sé að gera frábær kaup á netinu – bæði hvað varðar úrval og verð. Ég hef hins vegar ekki fundið hentuga leið þegar kemur að fatakaupum á netinu. Verð og snið eru ekki helsta hindrunin. Mér nægir ekki að flíkin sé falleg og á hagstæðu verði. Efnið þarf líka að vera þannig að mér finnist gott að koma við það! Mér nægir ekki að fara í fataverslanir og horfa á flíkurnar. Niðurstaðan af þuklinu getur jafnvel ráðið úrslitum þegar kemur að fatakaupum. Þess vegna kaupi ég mér eiginlega aldrei flíkur á netinu. Fer frekar á stúfana og kíkí á fatnað í búðum sem selja fatnað við mitt hæfi – jafn vel þó að sömu verslanir kjósi að auglýsa vörur sínar með því að láta háar og grannar unglingsstúlkur klæðast þeim. Ég læt slíkt hins vegar ekki fæla mig frá kaupunum ef snið, verð og efni falla að mínum smekk og flíkin „þuklist“ vel.

Gullveig Sæmundsdóttir febrúar 24, 2024 10:41