Förum alsæl á eftirlaun

Það er til fólk sem fagnar því að komast á eftirlaun, aðrir kvíða því þegar eftirlaunaaldurinn nálgast en fæstir sleppa við starfslokaaldurinn. Hér fyrir neðan  eru sex grundvallaratriði sem menn þurfa að velta fyrir sér þegar þeir eldast og horfa fram á að hætta að vinna. Þessi ráð, svolítið staðfærð,  koma úr smiðju AARP sem eru samtök eftirlaunafólks í Bandaríkjunum.

Eru menn tilbúnir að hætta að vinna?

Margt fólk sem er komið á eftirlaunaaldur, kýs að halda áfram að vinna. Stundum vegna þess að það hefur þörf fyrir tekjurnar sem því fylgja, eða þau réttindi sem það veitir. En stundum er ástæðan sú að fólk er ánægt í vinnunni og með félagsskap vinnufélaganna þar. Menn ættu því að hugsa það vel og vandlega hvort þeir eru tilbúnir til að hætta að vinna og losna við álagið sem því fylgir – en líka ánægjuna sem fylgir því að vera í vinnunni.

Hvað ætlar fólk að gera þegar starfsævinni lýkur?

Eftirlaunatímabilið getur orðið mjög langt.  Þegar Íslendingar ná sextíu og fimm ára aldri, geta þeir vænst þess að lifa við góða heilsu lengur en flestar aðrar þjóðir.  Íslensk kona getur búist við að lifa í rúm 20 ár, þar af við góða heilsu í 15 ár.  Íslenskur karl getur vænst þess að lifa í 18 ár eftir að hann nær 65 ára aldri, og í 13 ár við góða heilsu.  Þetta getur þýtt að eftirlaunatímabilið vari í fjölda ára og ekki ætlar fólk að sitja aðgerðarlaust allan þann tíma.  Þannig er skynsamlegt að taka ákvörðun um það áður en menn láta af störfum, hvað þeir ætla að gera þegar þeir eru hættir.  Það er ráðlegt að velja eitthvað sem menn hafa áhuga á og hentar hæfileikum þeirra og reynslu.  Það er hægt að kenna í Háskóla þriðja æviskeiðsins, það er hægt að vinna sjálfboðaliðastörf fyrir Rauða krossinn eða sinna öðrum verkefnum sem fólki finnst skemmtileg, veita vellíðan og gera því kleift að kynnast nýju fólki, sem er mikilvægt fyrir þá sem eru komnir á eftirlaun.  Sumir kjósa að ganga í félög eins og Lions, Rotary, Zonta klúbba eða önnur sambærileg félög.  Það býður uppá persónuleg samskipti og ferðalög, jafnvel til annarra landa.

Hvernig breyta starfslokin lífinu?

Menn standa á krossgötum þegar þeir hætta að vinna og þá hefst nýtt tímabil þar sem þeir ráða sínum tíma og sínum verkefnum sjálfir. Ef þig langar að skreppa í bíó klukkan fimm á virkum degi, þá geturðu gert það. Ef þig langar að spóka þig í góðu veðri í bænum á venjulegum degi, er það ekkert mál. Ef þig langar að verja 2-3 dögum í að fylgjast með íþróttakeppni, eða sækja ráðstefnu, þá hefurðu tíma til þess. Ef þig langar að læra spænsku, drífðu þig á námskeið.

Hvaða máli skipta börnin þegar starfsævi er lokið?

Það er ekki ósennilegt að börnin verði stöðugt stærri hluti af lífi þínu. Þegar þú eldist þá má vera að þau aðstoði þig við við að fara til læknis, skreppa uppá á spítala eða kaupa í matinn.   Þannig að þegar þú skipuleggur starfslokin, er ekki úr vegi að reyna að búa nálægt börnunum, hugsanlega í sama hverfi og þau. Það getur auðveldað þér lífið síðar meir. En þú átt líka eftir að komast að því að börnin, afa- og ömmubörnin og langömmu- og afabörnin geta verið endalaus uppspretta gleði þegar þú ert kominn á eftirlaun. Leitaðu leiða til að sýna þeim hvað þau eru þér dýrmæt.

Hvernig á að takast á við vandamál eftirlaunaaldursins?

Enginn er stöðugt hamingjusamur. Veikindi og dauði eru hluti af lífsgöngunni. Fólk sem missir maka sinn eða vini eftir langa samveru upplifir erfiða tíma. En það er hægt að ylja sér við minningarnar um hamingjustundirnar með makanum, jafnvel þótt hann sé ekki lengur til staðar. Það er líka hægt að rifja upp góðar stundir og skemmtilega samveru með vinum sem eru horfnir yfir móðuna miklu.

Hafa menn efni á að fara á eftirlaun?

Það er nauðsynlegt að fara vel yfir fjárhaginn þegar starfslok nálgast. Það þarf að fara yfir væntanlegar tekjur, eftirlaun frá ríki, greiðslur úr lífeyrissjóðum og það fé sem menn hafa sparað, hafi þeir gert það. Síðan þarf að meta mánaðarleg útgjöld. Ef útgjöldin eru hærri en tekjurnar, gæti verið skynsamlegt að vinna áfram í nokkur ár, ef það er mögulegt.

Ritstjórn september 16, 2014 15:48