Á flug eftir miðjan aldur

Felix hefur starfað í fjölmiðlum með hléum frá árinu 1988. Hér undirbýr hann sig fyrir útsendingu á þætti sínum Fram og til baka sem er alla laugardagsmorgna á Rás 2.

Felix Bergsson er nú kominn á miðjan aldur og hefur notið vaxandi vinsælda á ýmsum sviðum eftir því sem árunum hefur fjölgað. Nú lifir hann lífinu nákvæmlega eins og hann kýs sjálfur. Hann er með fastan, vikulegan þátt á Rás 2, er að undirbúa stóra Eurovision þáttinn okkar “Alla leið” fyrir sjónvarpið og leikur í Mömmu klikk í Gaflaraleikhúsinu. Hann er þegar farinn að undirbúa Eurovision ferðina þar sem hann er fararstjóri fyrir utan ýmis önnur verkefni. “Það er nákvæmlega svona sem ég hef kosið að lifa lífinu,” segir Felix sem varð 54 ára nýverið og er fullkomið dæmi um þann sem hefur nýtt hæfileika sína vel og uppsker núna á miðjum aldri.

Sjálfstraustið er forsendan

“Þetta er líklega spurning um sjálfstraust  því að á miðjum aldri er fólk oft búið að vinna sér inn sjálfstraustið sem er svo gott að hafa fyrir framhaldið. Á þessum aldri

erum við búin að upplifa að margt af því sem við höfum gert hefur fengið  hljómgrunn annarra og búin að finna út að þó svo hafi ekki verið skiptir það ekki öllu máli. Lengi vel var ég ofboðslega upptekinn af því sem öðrum fannst um mig, þ.e. hver ég væri og hvernig ég gerði hlutina. Það átti sérstaklega við þegar ég var ungur leikari

Felix og Baldur hófu samband og sambúð árið 1996 og hafa verið óaðskiljanlegir síðan. Þeir giftu sig 1999. Þessi mynd er tekin í Soho Gardens í London árið 1997.

að stíga mín fyrstu skref. Svo lærði ég smám saman að treysta sjálfum mér og treysta hjartanu og fór að sjá í gegnum þessa vitleysu. Það er svo mikið frelsi þegar maður hefur náð þeim áfanga,” segir Felix sem hefur sannarlega fundið sína fjöl þótt leiðin þangað hafi oft verið þyrnum stráð eins og hjá öðrum “opinberum persónum”.

Útvarpið frábær miðill

Felix nýtur sín mjög vel í útvarpi og segir að hann hafi verið svo heppinn að hafa fengið góða leiðsögn hjá stórkostlegum samstarfsmönnum. “Leikarar eru oft ekkert sérstaklega góðir útvarpsmenn því þeir fara svo oft að taka viðtal við sjálfa sig. Ég var algerlega í þeim hópi” segir Felix og hlær. “En þessir ósiðir mínir voru rækilega lamdir úr mér af frábærum samstarfsmönnum eins og Margréti Blöndal, sem ég hef lært meira af en nokkurri annarri útvarpsmanneskju og svo Guðrúnu Gunnarsdóttur. Þessar tvær eru svo góðir útvarpsmenn og stoppuðu mig þegar ég var komin í eitthvert rugl.”

Felix með hljómsveitinni Greifunum sem sló eftirminnilega í gegn árið 1986. Þarna er verið að troða upp í Hollywood í Ármúla.

Byrjaði að syngja í Melaskólakórnum

Felix segir að útvarpsvinnan rími mjög vel við annað sem hann er að gera þessa dagana sem er margskonar listræn vinna eins og tónlistarverkefni og vinna fyrir börn. Felix kom í upphafi inn á leikarasviðið sem söngvari. Hann byrjaði að syngja í Melaskólakórnum hjá Magnúsi Péturssyni og hefur oft sagt söguna af því þegar hann og Hafsteinn vinur hans breyttu stúlknakór Melaskóla í samkór af því þá langaði svo mikið að vera í kór. “Magnús hafði svo gaman af þessum áhuga okkar að stúlknakórnum var breytt í blandaðan kór,” segir Felix brosandi. “Eftir það fór ég að syngja meira og rataði í ýmis ævintýri. Ég lék í Þjóðleikhúsinu 12 ára í barnaleikriti sem hét Krukkuborg eftir Odd Björnsson og svo var það hljómsveitin Greifarnir sem var stóra sönghlutverkið mitt. Þá var ég kominn í Versló og farinn að syngja á nemendamótum 19 ára. Þaðan lá leiðin svo inn í leikarabransann. Veikleiki minn er samt sá að ég spila ekki á hljóðfæri eða sem tónlist heldur er ég eingöngu flytjandi. Ég hef samt orðið stóran hóp af góðum vinum í kringum mig  sem eru tilbúnir að vinna með mér. Ég er búinn að koma frá mér tveimur sólóplötum og stefni á að gera meira af því á næstunni.

Guðmundur sonur Felix og Baldurs fetaði í fótsporin og vinnur sem sjálfstætt starfandi sviðslistamaður. Þeir feðgar hafa nokkrum sinnum troðið upp saman og skemmt sér konunglega.

Sér framtíðina í flakki milli greina

Fyrir utan verkefni fyrir útvarp og sjónvarp er Felix að leika í Mamma klikk með Gunnari Helgasyni. “Gunni hefur það skemmilega mottó að það eigi að vera gaman í lífinu og ef það er ekki gaman þá beri manni að breyta einhverju. Við horfum reglulega á hvor annan þegar afmælisdögum fjölgar og spyrjum okkur hvað við ætlum að halda þessu lengi áfram. En á meðan við höfum svona gaman af þessum ærslum ætlum við að halda áfram,” segir Felix og hlær. Og staðreyndin er sú að á meðan það er svona gaman hjá þeim smitar það frá sér og við hin fáum að njóta.

Félagarnir og bestu vinirnir Gunni og Felix hafa starfað saman frá árinu 1993 og halda stóra afmælistónleika í haust en þeim þurfti að fresta á síðasta ári vegna Covid faraldursins.

“Mér þykir óhemjulega skemmtilegt að vinna með ólíku fólki. Mér líður mjög vel í þeirri tilveru og langar að prófa svo margt. Þar má nefna sem dæmi að gera leikið efni fyrir sjónvarp og bíó og svo meira leikhús. Lífið býður upp á svo margt en það eina sem er öruggt er

Barnabörnin Arnaldur Snær Guðmundsson og Eydís Ylfa Árnadóttir fæddust með þriggja vikna millibili í sumar og hafa klófest hjörtu afa sinna sem segjast aldrei verða samir menn.. Ljósmynd – Eygló Gísladóttir

að ég ætla mér að vera frjáls inni í þessum listræna heimi,” segir Felix.

Blómstrum á mismunandi tímum

 

“Við blómstrum sannarlega ekki öll um tvítugsaldurinn. Ég spriklaði mikið og var alltaf að prófa eitthvað nýtt á þeim tíma en var ekki alltaf sáttur í eigin skinni. En svo kom það smátt og smátt og allt tengist það því að finna sátt við sjálfan sig. Þá er maður tilbúinn að takast á við ný verkefni í lífinu. Maður velur auðvitað þá sem maður treystir og miklu máli skiptir að þeir sem standa manni næst séu tilbúnir að hlusta á vangaveltur manns. Ég er mjög heppinn þar því maki minn er mjög góður barometer fyrir mig og ég þarf ekki að hlusta á raddir þeirra sem þekkja mig ekki en tala oft hátt.”

Búnir að búa til lítið þorp

Felix og maðurinn hans Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, búa í fallegu húsi í Vesturbænum. Nú býr dóttir Baldurs og stjúpdóttir Felix öðrum megin við þá og móðir hennar þar við hliðina. Segja má að þarna sé orðið til lítið fjölskylduþorp sem fer stækkandi því þeir félagarnir eignuðust tvö barnabörn með þriggja  vikna millibili í sumar. “Þegar maður eignast sín eigin börn er maður á allt öðrum aldri og upptekinn af sjálfum sér og mikið í gangi í lífinu. En þegar barnabörnin koma upplifir maður enn frekar hversu stórkostlegt kraftaverk þau eru. Þá er maður orðinn meðvitaður og veit að það er sannarlega ekki sjálfsagt að allt gangi vel alltaf. Maður hefur lært að vera  þakklátur,” segir Felix. “Álfrún og Árni búa við hliðina á okkur og þau eignuðust dótturina Eydísi Ylfu og Guðmundur og Blær eignuðust soninn Arnald Snæ í sama mánuði en þau búa líka í Vesturbænum og eru í miklu sambandi við þorpið,” segir Felix og hlær. “Þar með snerist allt við og þegar fólk vælir yfir 2020 getum við ekki annað en glottað því árið var frábært og gjöfult ár hjá okkur,” segir Felix brosandi og er þakklátur fyrir lífið og tilveruna. “Og með okkar góðu nágrönnum hinumegin við götuna á Starhaganum er samfélagið í kringum okkur sérlega skemmtilegt.”

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

Felix hefur starfað í fjölmiðlum með hléum frá árinu 1988. Hér undirbýr hann sig fyrir útsendingu á þætti sínum Fram og til baka sem er alla laugardagsmorgna á Rás 2
Nýleg leikaramynd af Felix fimmtugum Ljósmynd – Jónatan Grétarsson

 

 

Ritstjórn janúar 15, 2021 08:13