Á furðulegu ferðalagi

Múffa eftir Jónas Reyni Gunnarsson er furðusaga, svolítið á pari við Lísu í Undralandi nema hér er það síðmiðaldra kona, eiginmaður hennar og stjúpsonur sem leggja upp hvert í sitt ferðalag og enda öll á mjög mismunandi stöðum. Hér er öðrum þræði verið að tala um tengslaleysi nútímafólks, hvernig tölvan getur tekið yfir líf manna og það hvernig við höfum áhrif á líf annarra.

Sagan byrjar í kjallaraherbergi Markúsar, þrjátíu og þriggja ára manns sem í þorpi á Íslandi. Hann situr við tölvuna, líkt og hann gerir alltaf þegar hann er ekki í vinnunni, og borðar skyndibita. Afgangnum hendir hann út um gluggann þar sem flækingshundur bíður og gerir leifunum góð skil. Magnús er ekki að fara neitt í lífinu og er fyllilega sáttur við það. Stjúpmóðir hans, Alma, vill sýna honum skilning þótt hún hafi ekki gefið upp alla von um að hann hrökkvi í gang einhvern daginn en Björn faðir hans og eiginmaður Ölmu er alls ekki sammála. Hann telur að aðgerða sé þörf eigi sonur hans ekki að hverfa gersamlega úr þessum heimi og inn í veröld tölvuleikja. Þegar Markús fær senda múffu í pósti telur Björn sýnt að þar með sé síðasti naglinn í líkkistu hans sleginn í botn því þar með hafi sonur hans allt það sem hann mögulega getur þarfnast í kjallaraherberginu og muni þess vegna aldrei fara þaðan út. Hjónin takast á um þetta og rifrildið verður til þess að Björn flytur út af heimilinu.

Alma heyrir svo óvænt frá gömlum vini og heldur af stað til að heimsækja hann. Markús er með henni en þau missa hvort af öðru og halda hvort í sitt ferðalag eftir það. Björn leggur svo upp í leit að þeim.

Í fyrstu fylgir sagan nokkuð hefðbundnu frásagnarformi en síðan taka dularfullir atburðir að gerast. Það minnir nokkuð á Krossfiska eftir sama höfund en þar gerast svipaðar furður.  Fjölskyldan hefur tvístrast og er í leit að svörum, tengingum og tengslum hvert og eitt á sinn hátt og allsendis óvíst að þau nái saman. Þetta er fyndin bók, skemmtileg aflestrar og mjög opin fyrir túlkunum. Eiginlega má segja að hver lesandi geti ákveðið bæði um hvað og hvernig þessi saga endar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn janúar 7, 2025 07:03