Á leið gegnum lífið

Minni mannsins er flókið og athyglisvert fyrirbæri. Ekki er nóg með að minnið sé brigðult og persónulegt heldur er það einnig síbreytilegt eftir aldursskeiðum. Flestir finna án efa fyrir því að þegar aldurinn færist yfir leitar hugruinn aftur í tímann og æskuminningarnar verða sífellt verðmætari. Tvær athyglisverðar bækur byggja einmitt á minningum höfunda sem báðir horfa aftur til æsku sinnar og ungdómsára.

Atvik – á ferð um ævina

Njörður P. Njarðvík er listagóður sögumaður. Í bók sinni Atvik – á ferð um ævina segir hann frá atvikum vegferð sinni gegnum lífið. Sum er afgerandi og dramatísk, önnur notaleg og hverfast um samveru og gleði og enn önnur sterkar upplifanir og breyta manneskjunni sem þau henda. Njörður hefur lifað viðburðaríku lífi. Hann hefur ferðast víða, búið og dvalið um lengri og skemmri tíma á öðrum menningarsvæðum. Hann er talsmaður mannréttinda, umburðalyndis og friðar og hefur beitt sér fyrir slíkum málum á margvíslegan hátt.

Þessar stuttu frásagnir endurspegla einmitt þetta lífsviðhorf og gildi og eru þess vegna mannbætandi í sjálfu sér. Njörður hefur líka einstakt lag á að gæða það fólk sem hann segir frá lífi og í hans meðförum verða hversdagslegustu atvik lítil ævintýri. Ég naut þess mjög að lesa þessi minningarbrot og það hitti þannig á að ég las hana að morgni til og vitnað um að þessi fallega bók er gott veganesti út í daginn. Ljóðabók Njarðar, Eina hverfula stund, kom út árið 2022 og þar er á ferð afburðafalleg og áhrifamikil bók. Þar rifjar höfundur einnig upp minningar á meitlaðan og sterkan hátt. Það skín sums staðar í ljóðskáldið í textanum í þessari bók og það er verðmætt að fá að hverfa með annarri manneskju yfir tíma og rúm til að upplifa atburði sem skiptu sköpum í lífi hennar.

Njörður P. Njarðvík (1936–) er prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum viðHáskóla Íslands. Hann hefur sent frá  fjölda bóka – ljóð, skáldsögur, barnabækur, ævisögur, kennslubækur og fræðirit – auk þýðinga. Njörður hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir bækur sínar og störf.

Með minnið á heilanum

Þórhildur Ólafsdóttir rithöfundur og þýðandi, ólst upp í afskekktri sveit á Vatnsnesi við Húnafjörð. Hún rifjar upp minningar frá æskuárunum í bókinni, Með minnið á heilanum.  Heimurinn er þröngur, snýst um afa, ömmur, foreldra og systkini og auðvitað dýrin. Bækur opna litlu s´tulkunnni sýn ekki bara út í heim heldur á aðra heima. Þórhildur segir frá minningum sínum frá sjónarhóli barnsins og nær að vera trú viðhorfi þess og bernskri sýn. Það er sérlega gaman fyrir þá sem muna þessa tíma að hverfa aftur til þess þegar kýr voru mjólkaðar handvirkt og enn var gengið í fjósið til að klappa kúnum og blessa þær.

Ólöf Þórhildur Ólafsdóttir lauk doktorsprófi í frönskum bókmenntum við Háskólann í Orléans í Frakklandi árið 1982. Hún var lektor og síðar dósent í frönsku við Háskóla Íslands í nokkur ár. Frá árinu 1988 hefur hún verið búsett í Strasbourg í Frakklandi þar sem hún starfaði við Evrópuráðið í aldarfjórðung.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 24, 2025 07:00