Anna amma, stóra ástin hans afa

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar.

 

Nýlega rakst ég á afar fallega mynd af föðurömmu minni Önnu Sigurðardóttur og afasystur minni Elínborgu Björnsdóttur á netsíðu Héraðsskjalasafns A-Húnvetninga.

Mynd þessi var tekin á Akureyri árið 1905, en Anna amma og Elínborg voru bekkjasystur í Gagnfræðiskóla Akureyrar veturinn 1904-1905.

Elínborg, sem var fimm árum yngri en amma, ólst upp að Miklabæ í Skagafirði, þar sem faðir hennar, Björn Jónsson, var prófastur. Hún hafði því aðeins yfir eina heiði að fara til að komast í Gagnfræðaskólann á Akureyri, en leið ömmu Önnu til Akureyrar var löng og ströng. Hún kom þangað að austan, eftir að hafa unnið sem vinnukona, á hinum ýmsu bæjum á Suður- og Austurlandi.

Amma Anna var fædd árið 1881 og ólst upp í Pálsbæ á Seltjarnarnesi. Foreldrar hennar voru hjónin Sigurður Einarsson útvegsbóndi fyrst í Pálsbæ og síðar í Seli, og Sigríður Jafetsdóttir. Þau hjónin eignuðust tólf börn og var Anna amma sjötta barnið í röðinni, en ellefu af börnum þeirra komust á legg.

Barnaskarinn var stór en efnin ekki mikil, svo amma og systkini hennar fóru snemma að vinna fyrir sér. Þegar amma Anna var um tvítugt hóf hún að vinna sem vinnukona á sveitabæjum á Suður-og Austurlandi. Ég segi sveitabæjum, því amma var afar vandlát og, ef henni líkaði ekki vistin á einum bæ, hikaði hún ekki við að flytja sig um set í leit að betri kjörum og betra atlæti.

Amma þráði að mennta sig þess og sparaði þess vegna hvern eyri sem hún gat til þess að láta þann draum rætast. Hann rættist haustið 1904, þegar amma var 23 ára gömul, en þá hafði hún safnað nægu fé til að greiða fyrir eins árs nám við Gagnfræðaskóla Akureyrar.

Í minningagrein um Önnu ömmu frá árinu 1962, sem bekkjabróðir hennar, Snorri Sigfússon, ritaði, segir hann frá því að hún og Elínborg hafi borið af hvað varðaði fas, útlit og klæðnað annarra stúlkna í bekknum. Það kom því engum á óvart, að þær stöllur urðu, frá fyrsta degi, að óaðskiljanlegum vinkonum.

Elínborg og Anna. Myndin er birt með leyfi Héraðskjalasafns Austur-Húnavatnssýslu.

Þegar náminu lauk um vorið áttu amma og Elínborg erfitt með þá tilhugsun að þurfa að skiljast að. Til að koma í veg fyrir að svo yrði, bauð Elínborg ömmu að koma með sér heim á Miklabæ til að vinna í heyskapnum yfir sumarið. Amma þáði boðið og átti það eftir að hafa örlagarík áhrif á líf hennar, því í heyskapnum á Miklabæ varð stóra ástin í lífinu á vegi hennar. Stóra ástin reyndist vera elsti bróðir Elínborgar, Guðbrandur, sem var þremur árum yngri en amma. Hann var heima í sumarleyfi, en hann stundaði um þær mundir nám í guðfræði við Prestaskólann í Reykjavík.

Amma sat í festum í þrjú ár, eða þar til afi lauk guðfræðináminu. Það gerði hann vorið 1908 og í október sama ár voru þau gefin saman í kirkjunni að Miklabæ. Skömmu síðar var afi skipaður prestur í Viðvíkurprestakalli í Viðvíkurhreppi í Skagafirði.  Afi og amma bjuggu í Viðvík í nær þrjá áratugi og þar eignuðust þau fjórar dætur og einn son.- Seinna bjuggu þau um tíma á Hofsósi.

Á þessum árum voru samgöngur milli landshluta strjálar og erfiðar og almenningur ferðaðist ekki svo glatt milli landshluta. Amma fór ekki oft suður þá þrjá áratugi sem hún bjó í Skagafirði. En þriggja áratuga búseta í Skagafirði gerði ömmu Önnu þó ekki að Skagfirðingi, í hjarta sínu var hún alltaf Sunnlendingur og þráði alla tíð að flytja suður. Þegar afi Guðbrandur fór á eftirlaun árið 1954 rættist sá draumur. Hún og afi fluttu suður  og bjuggu fyrst um sinn í Hafnarfirði, en árið 1957 fluttu þau inn í kjallaraíbúð í nýbyggðu þriggja hæða sambýlishúsi í Grænuhlíðinni. Fjölskylda mín bjó á miðhæðinni og var að vonum mikill samgangur á milli hæða.

Það varð fljótt mjög gestkvæmt á heimili ömmu og afa í Grænuhlíðinni, en þangað streymdu systur ömmu og gamlar vinkonur hennar í heimsókn. Þær sátu löngum í rúmgóðu eldhúsinu, drukku kaffi, reyktu smávindla, dreyptu á koníaki og rifjuðu upp gamlar sögur af mönnum og málefnum.

Systur ömmu höfðu orð á sér fyrir að vera í senn kaldhæðnar og ákaflega fyndnar og sögðu gjarnan gamansögur og gerðu létt grín af mönnum og málefnum. Þær hlógu hátt og dátt, svo hátt og dátt, að þakið á húsinu okkar í Grænuhlíðinni lyftist upp. Eða svo sagði pabbi, og ég sjálf var sannfærð um að hafa séð þakið lyftast upp oftar en einu sinni fyrir tilstuðlan hláturrokana úr ömmu, systrum hennar og vinkonum.

Ljóst er af þessu að amma var í essinu sínu eftir að hún flutti suður, en sveitamaðurinn hann afi var þar eins og álfur út úr hól. Þótt hann hafi dvalið í Reykjavík við nám í Prestaskólanum og einnig um tíma við Hafnarháskóla, þá breyttu þessar borgardvalir honum hvorki í borgarbúa né heimsmann. Hann var alla tíð sveitamaður úr Skagafirði. Gott dæmi um þetta var, að þegar hann flutti suður, hafði hann aldrei stigið fæti sínum upp í strætisvagn. Ég átti heiðurinn af því að taka hann í hans fyrstu strætisvagnaferð. Afi átti erindi í Landsbankann og faðir minn, sem var með læknastofu í Lækjargötunni, keyrði okkur einn morgun niður í bæ, þegar hann var á leið í vinnuna. Ég sá um að fylgja afa í bankann og tók hann síðan heim í strætó.

Að loknu erindi afa í bankanum, tókum við strætó frá Lækjartorgi upp í Hlíðar.  Allt gekk vel þar til strætisvagninn var að yfirgefa stoppustöðina í Lönguhlíðinni. Þá hrópaði afi hátt og snjallt með sinni sterku prédikunar rödd: „Grænuhlíð 6 næst takk.“ Allir í vagninum fóru að hlæja og snéru sér við til að kanna hver þessi sveitalubbi væri, sem héldi að strætisvagnar Reykjavíkur keyrðu farþega heim í hlað. Ég stokkroðnaði við þessa uppákomu afa og vildi helst láta mig hverfa af skömm. En afi lét þetta ekki á sig fá, ekki frekar en hann léti það á sig fá, þegar krakkaskarinn í Grænuhlíðinni safnaðist fyrir framan kjallaratröppurnar í húsinu okkar á morgnana, og gerðu gys að afa þar sem hann gerði Muller æfingar sínar á móti morgunsólinni.

Ekki veit ég hvar afi kynntist Muller æfingunum, en hann hafði stundað þær um árabil fyrir norðan og hélt því ótrauður áfram eftir hann flutti til Reykjavíkur. Eins og áður sagði þá lét hann ekki hlæjandi krakkaskarann á sig fá, ekki frekar en gigtina, sem hann þjáðist af og hafði gert hann að spýtukarli.

Amma og afi áttu saman sjö góð ár eftir að þau fluttu suður, en amma Anna lést á nýársdag árið 1962, rétt fyrir 81 árs afmælið sitt. Lát hennar var mikið áfall fyrir afa, en á milli hans og ömmu ríktu miklir kærleikar og síðustu æviár hennar mátti afi varla af henni sjá.

Þau átta ár, sem hann lifði eftir að amma dó voru honum erfið. Síðustu æviárin dvaldi hann á Sólvangi í Hafnafirði. Undir lokin var hann meira og minna kominn út úr heiminum og þekkti engan lengur, engan nema ömmu. – Á náttborðinu við hliðina á rúminu hans á Sólvangi var mynd af ömmu, ungri og fallegri, og við áttuðum okkur fljótt á því, að ef við hreyfðum við myndinni, þá reis afi upp við dogg og sagði, „þetta er konan mín hún Anna.“ Henni gleymdi hann aldrei.

Afi lést árið 1970 og var jarðsettur í Fossvogskirkjugarðinum við hliðina á ömmu. Og þar hvíla þau að eilífu saman í sunnlenskri mold.

Inga Dóra Björnsdóttir apríl 9, 2024 08:36