Betra að safna minningum en draumum

Hulda ber LÍFIÐ ER NÚNA armbandið, en með því styður hún samtök ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein.

Hulda Kolbrún Guðjónsdóttir er orðin sjötug og lifir lífinu lifandi. Hún segir sjálf að hún sé í þeirri stöðu að þurfa ekki að taka þriðju vaktina sem geti verið mörgum þung í skauti. ,,Ég á ekki aldraða foreldra á lífi og ekki lítil barnabörn og svo á ég ekki mann. Þess vegna get ég varið tíma mínum nákvæmlega eins og mér sýnist,“ segir þessi hressa kona sem nú er að hefja áttunda áratuginn. ,,Ég hef áhuga á ofboðslega mörgu og langar að gera margt en svo er auðvitað takmarkað hverju maður kemur í verk.“

Reglulega út fyrir rammann

Hulda er virk á Facebook en hún segir brosandi að þar skeyti hún skapi sínu en sé að öllu jöfnu geðgóð. ,,Ég er ofboðslega virk á Facebook og eitt af því sem ég geri er að hvetja fólk á mínum aldri til að gera skemmtilega hluti því það skiptir svo miklu máli. Og ef manni leiðist heima þá er nokkuð víst að það eru fleiri í sömu stöðu og af hverju er þá ekki tilvalið að gera eitthvað í því? Galdurinn er nefnilega sá að manni leiðist ekki þegar fleiri koma saman.“ Hulda vill minna á samfélagshúsin þar sem alls saðar er hægt að finna uppákomur og afþreyingu við allra hæfi.

Hulda var í skátunum sem ung manneskja og nú þegar árunum hefur fjölgað koma tengslin við skátana sterkt inn í líf hennar. ,,Við hittumst fimm fyrrverandi skátasystur í sextugsafmæli einnar fyrir nokkrum árum og eftir það afmæli var ákveðið að stofna skátaflokk. Við vildum tengja okkur skátunum með góðverkum og útivist og mörgu því sem skátar gera en ekki síst að hafa gaman saman. Við bjuggum til óskalista um það sem okkur langaði til að gera, til dæmis í útivist, tónlist og ýmsu fleiru og ég hef þegar heyrt af fleiri hópum þar sem eldri skátar koma saman og félagsskapurinn er ómetanlegur. Við vinkonurnar hittumst mánaðarlega og erum alltaf með eitthvað á prjónunum. Við höfum gefið jól í skókassa, styrkt Konukot, aðstoðað við störf á Úlfljótsvatni og það síðasta sem við tókum upp á var ótrúlega skemmtilegt. Það var verið að halda upp á 100 ára afmæli kvenskátastarfs á Íslandi og þá var haldin kvöldvaka í Ráhúsi Reykjavíkur. Ein okkar bauð okkur fram í skemmtiatriði og við tróðum upp með eldgamalt skemmtiatriði sem sló algerlega í gegn. Það heitir ,,fatan hún lekur“ og allir höfðu gaman af. Ég spilaði á ukulele í þessu atriði og spilaði bara tvo hljóma af þessum þremur sem þurfti,“ segir Hulda og brosir.

Söngfjelagar að taka þátt í listahátíð. Atriðið var sett upp í portinu í Hafnarhúsinu og heitir Sun & Sea.

Út fyrir rammann 

Hulda hefur sungið í kórum frá því hún var barn og nú syngur hún í kór Hilmars Arnar Agnarssonar, Söngfélaginu, og segir að sá kór sé skemmtilegasti kór í heimi. ,,Hilmar fer nefnilega reglulega með okkur út fyrir rammann og er endalaus uppspretta hugmynda og skemmtilegrar vitleysu. Við erum alltaf til í að henda okkur í djúpu laugina með honum og útkoman verður alltaf skemmtileg.

Hulda segist fá mjög mikið út úr því að gera eitthvað sem hún hefur ekki gert áður. Hún nefnir atriði sem Söngfjelagið tók eitt sinn þátt í á Listahátíð. Þá voru flutt þangað 50 tonn af sandi og kórfélagar voru þar í sundfötunum og sungum með erlendum listamönnum. ,,Þetta var algerlega út fyrir rammann og var ofboðslega skemmtilegt. Svo fór ég til Tenerife nokkru síðar og fékk að upplifa þar að kafa sem var mjög spennandi. Og nú á ég mér þann draum að snorkla í Silfru en það getur verið erfiðleikum bundið því það þarf að framvísa  læknisvottorði þegar maður er ,,orðinn svona gamall,“ segir Hulda og hlær.“

Dreymir um að eignast jeppa

Hulda á eina dóttur og uppkominn dótturson. Hún starfaði sem kennari og hætti fyrir tveimur árum. ,,Við erum lítil fjölskylda en erum mjög náin. Ég var einstæð móðir meirihlutann af starfsævinni og var í basli eins og gerist. Ég flutti út á land af því þar gat ég fengið ódýrara húsnæði en í höfuðborginni og trygga vinnu. Ég fór fyrst austur á Hallormsstað í sjö ár og svo á Kleppjárnsreyki í sex ár. Ég var svo lánsöm að ég gat klárað að borga af íbúðinni áður en ég fór á eftirlaun og það gerir gæfumuninn. Ég borgaði alltaf hundrað þúsund krónur á hverjum mánuði og nú eru eftirlaunin rétt rúmlega hundrað þúsund krónum lægri en launin sem ég hafði. Ég byði ekki í það ef ég þyrfti núna að borga af láni af eftirlaununum. Ég hef verið í byggingafélagi samtaka aldraðra og kannski get ég fengið hjá þeim íbúð sem væri ódýrari en þessi sem ég er í núna. Þá gæti ég e.t.v. fengið milligjöf og keypt mér jeppa sem mig dreymir um. Mig langar svo að geta ferðast á bíl sem ég get gist í og ráðið mér sjálf hvert sem ég fer.“

Útivistin dásamleg

Í hópi kafara á Tenerife.

Hulda er í gönguhóp sem hefur hist einu sinni í viku frá 2011. Hún keypti sér bókina Gönguleiðir í Reykjavík og nágrenni eftir Reyni Ingibjartsson. ,,Ég var búin að fletta henni í nokkra mánuði og enginn hringdi í mig,“ segir Hulda og hlær að sjálfri sér. ,,Ég ákvað þá að senda skilaboð í allar áttir og spurði hvort einhver væri ekki til í göngur. Auðvitað voru margir til í útivistina og úr varð 10 – 15 manna  hópur sem hefur gengið vikulega saman hér í nágrenni Reykjavíkur. Svo er eiginlega leyndarmál að inni á ja.is er hægt að smella á Íslandskortið, sem þar er á forsíðu, og þar er hægt að sjá gönguleiðir um allt. Ég hef verið í gönguhópum hjá Ferðafélaginu og mun e.t.v. gera það aftur því ég á mér draum um að geta gengið auðveldlega upp að steini í Esjuhlíðum og á fleiri fjöll. Ég hef ekki í tíma fyrir meira í bili því tónlistin tekur sífellt meiri tíma. Ég er, ásamt tveimur vinkonum, áskrifandi að tónleikaröð hjá Sinfóníunni sem er mikils virði. Eitt sem er á listanum sem mig langar að gera er að spila á píanó með hópum eins og öldruðum eða fötluðum þar sem er þörf fyrir tónlist og söng.

Hulda að kafa á Tenerife.

Tölvufærni mikilvæg

Hulda notaði tölvur við kennslu svo hún er ágætlega tölvufær. Hún skipuleggur sín eigin ferðalög í gegnum Internetið og notar kortið í símanum til að rata á ókunnugum stöðum. ,,Allt þetta er einfalt ef maður lærir það bara og það skiptir mjög miklu máli að fylgjast með svo maður haldi sjálfstæði sínu,“ segir Hulda.

Þegar viðtalið var tekið var Hulda að fara með dóttur sinni og vinnustað hennar til Varsjár og svo til Lettlands með kórnum sínum. ,,Ég vil ekki þurfa að segja; ,,bara ef ég hefði nú….“, því betri eru minningar en draumar,“ segir Hulda Kolbrún og heldur ótrauð áfram að gera það sem er skemmtilegt.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Þetta er endurbirt og lítillega uppfært viðtal Sólveigar við Huldu Kolbrúnu sem var tekið á síðasta ári.

Ritstjórn ágúst 4, 2023 07:00