Á morgun gæti þetta verið ég

„Við viljum persónulega nálægð í stað faglegrar fjarlægðar“, segir Sigrún Huld Þorgrímsdóttir hjúkrunarfræðingur og höfundur nýrrar bókar sem heitir Ný menning í öldrunarþjónustu.  Sigrún hafði unnið víða sem hjúkrunarfræðingur, þegar hún fór að vinna að öldrunarmálum um síðustu aldamót. Þá kviknaði áhugi hennar á þessum málum,  umbótum í kerfinu, nýrri hugmyndafræði og nýjum aðferðum. „Ég var deildarstjóri á hjúkrunarheimili og það var svo mikið gleðileysi. Gamla fólkið var vansælt, aðstandendur voru óánægðir og vansælir og starfsfólkið síóánægt“, segir Sigrún Huld í samtali við Lifðu núna. Henni fannst vanta alla gleði í öldrunarþjónustuna og þegar hún varð þess áskynja að öll hennar orka fór í annað, en það sem þurfti að hennar mati að gera, sagði hún upp og hætti.

Sigrún Huld með bókina góðu

Hvað er hún að vilja uppá dekk?

Hún ákvað að setjast á skólabekk í Háskóla Íslands og afla sér menntunar á þessu sviði. Hún vildi læra meira og fannst ekki tekið nægilegt mark á því sem hún hafði fram að færa, þar sem hún var ekki háskólagengin, en hún tók próf í hjúkrunarfræði frá gamla Hjúkrunarskólanum.  Hún segist hafa nálgast viðfangsefnin út frá því gleðileysi sem hún upplifði í öldrunarþjónustunni, en ekki beint út frá hjúkrunarfræðinni. „Þess vegna kom ég með hugmyndir og aðferðir úr náminu sem voru, ekki í samræmi við viðteknar venjur. Ég hélt að þeim yrði tekið fagnandi. En viðbrögðin voru frekar, Hvað er hún að vilja uppá dekk? Hún er búin að vera að gera eitthvað allt annað, en það erum við sem höfum unnið hér á sviðinu, segir Sigrún Huld þegar hún rifjar þetta upp.

Sá að það var að verða menningarbreyting

Sigrún er orðin 67 ára. Hún hefur verið í 49% starfi sem hjúkrunarfræðingur frá áramótum. Hún segist ekki framar eiga eftir að sækjast eftir einhverjum stöðum og fannst tímabært að gefa út þessa bók, sem hún ákvað að skrifa árið 2012, eftir að hafa sótt stóra ráðstefnu um Eden hugmyndafræðina, þar sem forsprakki hennar  William H. Thomas var aðalfyrirlesarinn. „Þarna var þó nokkuð af Íslendingum sem voru að vinna eftir Eden hugmyndafræðinni og aðrir sem vildu kynna sér hana. Þarna sá ég að það var að verða menningarbreyting hjá okkur í öldrunarþjónustunni og vildi skrifa um hana“, segir Sigrún Huld og bætir við að hún sé fegin að það hafi dregist hjá sér að skrifa bókina, því nýjar hugmyndir séu stöðugt að koma fram. Hún ákvað að gefa bókina út sjálf, undir merkjum útgáfu sem kallast Ömmuhús, en hún á þrettán barnabörn sem hún er ákaflega stolt af.

Engar pakkalausnir

Þessi nýja menning er okkur af 68 kynslóðinni kunnugleg, en við höfum séð ýmsar breytingar verða á hinum ýmsu sviðum samfélagsins. „Þetta er hugmynd um einstaklingsmiðaða þjónustu, en ekki pakkalausnir sem menn þurfa að passa inní“, segir hún.  „Þetta er spurning um að mæta fólki þar sem það er statt. Það eru allar manneskjur mikils virði. Eitt sinn voru ákveðnir hópar jaðarsettir, það var litið niður á þá. Í nútímanum er hugmyndin sú að það eigum við ekki að gera það, heldur hafi allir menn gildi í sjálfu sér“.  Sigrún Huld segir að í persónumiðaðri þjónustu þurfi að kynnast einstaklingnum. „Við viljum vita eitthvað um líf fólksins og tengjast því, en það gerir meiri faglegar kröfur til okkar“, segir hún.  „Fagleg þekking er gjarnan notuð sem vörn í hjúkruninni. Þarna eru þau, hrum, heilabiluð, já alveg úti á túni, en hér erum við fagfólkið. Það hlífir manni við óttanum um að á morgun geti þetta verið ég, en við vitum vel að á morgum gæti þetta ósköp vel verið ég“, bætir hún við.

Breytingin byrjaði í Bandaríkjunum

„Þetta er í stórum dráttum hugmyndin“, segir Sigrún Huld og segir hana eiga rætur að rekja til Bandaríkjanna. Þar varð til hreyfing um nýja menningu, sem er kölluð uppá ensku culture change movement.  Hún varð til á tímum Ronalds Reagan. Svipaðar hugmyndir voru í gangi í Norður Evrópu en Sigrún Huld segist ekki þekkja hvernig þetta er á öðrum svæðum í heiminum.  Sjálf notar hún þessar nýju aðferðir í sinni vinnu, bæði minningarvinnu og lífssögur fólks.

Ný menning í öldrunarþjónustu er ákaflega forvitnileg bók. Þar er farið yfir söguna í öldrunarmálum og hjúkrunarheimilismálum og hugmyndir manna hér og víðar í heiminum um þjónustu við elsta fólkið í samfélaginu. Við gípum niður í kafla úr bókinni þar sem vitnað er í smásöguna Fagra haust eftir Jakobínu Sigurðardóttur sem er móðir höfundar. Bókin

Eigið þér engin skyldmenni sem gætu annast yður fyrst um sinn? spyr læknirinn.

Ja,-skyldmenni, jú, ég á svo sem bæði frændur og frænkur, eins og annað fólk, en hvað geta þau? Meðan allir voru fátækir var þetta allt annað. Nú þarf fólk að hafa stofur, fínar stofur – líka þær sem voru nú rétt og slétt vinnukonur eins og ég. Hver ætli kæri sig um mig í stofuna sína? Og ég hef sosum ekkert gert fyrir mitt skyldfólk um ævina, nema þá helzt hana Gunnu litlu hennar Jónu systur minnar, sem var nú ekki nema sjálfsagt, og hún er nú hálfgerður vesalingur og ekki á bætandi þar. Ó, nei.

*

Það er svo gott að vera hérna, segir gamla konan og einhver hiti er kominn í röddina. – Er það áreiðanlega að ekkert sé að mér?

Ekki annað en slit og sú hrörnun sem er ellinni samfara, svarar læknirinn, – það er ekki næg ástæða til þess að ég geti haft yður hér. Sjúklingar, jafnvel fárveikir, þurfa að komast að. Þetta er ekki gott, Anna mín góð, en héðan verðið þér að fara. Hafið þér reynt fyrir yður í Skjólgarði?

Elliheimilinu? En þar, – það er ekki gott að vera þar, segir fólk. Það fást svo fáir til að hugsa um gamalt fólk, og svo – Rödd gömlu konunnar er aftur orðin köld og hrum eins og andlit hennar.

Það er nú ekki alveg rétt, svarar læknirinn. – Að vísu er þar ýmsu ábótavant, en ekki svo mjög fyrir þá sem geta haft fótavist, eins og þér.

Enn þögn. Konan við gluggann fer að tauta við sjálfa sig á nýjan leik:

Óvíst að nokkur verði við höndina ef þú ert orðin svo að þú kemst ekki hjálparlaust á klósettið, gerir víst ekki mikið til þó fólk missi í rúmið áður en það hrekkur upp af, – tvisvar verður gamall maður barn. Situr sjálfsagt enginn við stokkinn og heldur í höndina á þér meðan þú skilur við —

Það er víst ekki um annað að ræða, segir gamla konan og leggst útaf.

 

 

 

Ritstjórn ágúst 27, 2019 07:28