Bætt líknarmeðferð fremur en líknardráp

Það er bannað hér á landi að aðstoða deyjandi fólk við að taka eigið líf. Það er hins vegar leyfilegt í Hollandi og önnur lönd, svo sem Belgía, Sviss og einstök ríki í Bandaríkjunum hafa prófað sig áfram með þetta að uppfyltum ströngum skilyrðum. Þetta efni var rætt nýlega á málþingi í Reykjavík, en yfirskrift þess var Líknardauði/líknarmeðferð – hvar liggja mörkin? Þar kom fram að aðstandendum ráðstefnunnar finnst tímabært að við Íslendingar tökum þessi mál til umræðu og að við ræðum dauðann almennt.

Fólk fær aðstoð við að deyja

Það sem átt er við með líknardrápi er að við lífslok fái deyjandi einstaklingur læknisfræðilega aðstoð við sjálfsvíg óski hann þess. Þetta getur gerst með því að læknir gefur sjúklingnum lyf sem hann tekur til að stytta sér aldur, eða með því að læknir heldur að sér höndum varðandi meðferð. Helstu rökin gegn þessu eru að það sé ekki hægt að ætlast til að manneskja deyði aðra, þetta stríði gegn hugmyndum um lækningu og svo þau trúarlegu rök að lífið sé ávallt heilagt. Rökin með eru fyrst og fremst þau að það sé réttur einstaklingsins að ákveða líf og dauða og að það sé mannúðlegt að deyða einstakling sem líður óbærilegar kvalir og bíður þess eins að deyja. Það sé gert í dýraríkinu.

Íslenskir öldrunarlæknar á móti

Meðal þeirra sem höfðu framsögu á þinginu var Jón Snædal öldrunarlæknir. Hann sagði að Félag öldrunarlækna á Íslandi teldi líknardráp ekki réttu leiðina í þessu. Hann benti á að hjúkrunarheimilin í landinu væru orðin að líknardeildum. Verkefnin þar hefðu aukist og orðið meira krefjandi en fé væri naumt skammtað. Þessu þyrfti að breyta og almennt taldi hann að mannsæmandi meðferð við lífslok væri það sem stefna ætti að. Elfa Þölll Gísladóttir hjúkrunarfræðingur sem hefur sérhæft sig í líknarmeðferð taldi einnig að það þyrfti að bæta líknarmeðferð á hjúkrunarheimilum landsins og að við þyrftum að ræða þessi mál meira en við gerum og hvernig við vildum standa að þeim.

Innan við 3% notfæra sér þetta í Hollandi

Hollendingurinn Jaap van der Spek formaður Landssambands eldri borgara í Hollandi var gestur málþingsins. Þar í landi deyja um 140.000 manns á ári. Um 2.8% fá að deyja með aðstoð læknis. 80% þeirra eru krabbameinssjúklingar. Þetta er einungis gert að ósk deyjandi sjúklings sem líður óbærilegar kvalir og á enga von um bata. Til að þetta sé leyft þarf að upplýsa sjúklinginn mjög vel og fá skriflegt álit annars læknis á ástandi hans.   Erlendir ríkisborgarar í Hollandi geta ekki fengið þessa þjónustu.

 

Ritstjórn maí 21, 2014 13:21