Um 200 karlar greinast árlega með blöðruhálskirtilskrabbamein

Hækkandi aldur er einn helsti orsakaþáttur blöðruhálskirtilskrabbameins, samkvæmt upplýsingum á vef Krabbameinsfélags Íslands. Fjölskyldusaga um krabbamein, hjá syni, föður eða öðrum hefur einnig sitt að segja og kynþáttur karlanna sem í hlut eiga. Blökkumenn fá til að mynda síður blöðruhálskrabbamein en hvítir karlar. Eðli málsins samkvæmt eru það eingöngu karlar, sem eiga á hættu að greinast með blöðruhálskrabbamein, konur eru ekki með blöðruhálskirtil.

Karlkynshormón stýra vexti hans, segir ennfremur á síðunni, og undir eðlilegum kringumstæðum er kirtillinn á stærð við valhnetu. Blöðruhálskirtillinn er fyrir framan endaþarminn, undir þvagblöðrunni og umlykur efri hluta þvagrásarinnar. Hlutverk hans er að framleiða sáðvökva, sem verndar og nærir sáðfrumur. Nokkrar tegundir af frumum finnast í blöðruhálskirtli en krabbameinin eru langoftast af kirtilfrumugerð. Stundum getur krabbameinið vaxið hratt og dreift sér til annarra líffæra en langflest vaxa hægt.

Helstu einkenni

Oft eru engin einkenni frá blöðruhálskrabbameini, segir á vefsíðunni, en stækki meinið getur það þrýst á þvagrásina og valdið einu eða fleiri einkennum sem lýsa sér þannig:

Þvagtregða, erfiðleikar að byrja þvaglát, kraftlítil þvagbuna, dropar í lok þvagbunu og/eða erfitt að tæma þvagblöðruna.

Tíð þvaglát, sérstaklega á næturnar.

Blöðrubólga, verkur eða óþægindi við þvaglát.

Blóð í þvagi eða sáðvökva.Góðkynja sjúkdómar í blöðruhálskirtli eru þó algengasta orsök þessara einkenna.

Einkenni sem ágerast hratt eða koma fram hjá körlum undir fimmtugu þarf alltaf að rannsaka. Hafi krabbameinið dreift sér til annarra líffæra geta einkennin verið eftirfarandi.

Beinverkir í mjöðmum, mjaðmagrind, hryggsúlu eða lærleggjum.

Þreyta.

Slappleiki.

Þyngdartap.

Meðferð við blöðruhálskirtilskrabbameini

Virkt eftirlit. Sé sjúkdómurinn staðbundinn kemur undir ákveðnum skilyrðum til greina að fylgjast með viðkomandi og veita ekki meðferð nema sjúkdómurinn ágerist. Sú nálgun er kölluð virkt eftirlit. Regluleg þreifing kirtilsins, PSA-mæling og jafnvel sýnataka úr kirtlinum er notuð til þess að meta framgang sjúkdómsins.

Geislameðferð og skurðaðgerð. Hefðbundið er að gefa ytri geislameðferð og/eða fjarlægja kirtilinn gegnum tíu sentimetra langan skurð á milli lífbeins og nafla eða í kviðsjáraðgerð með nýja aðgerðarþjarkanum. Stundum er beitt svokallaðri innri geislameðferð þar sem geislavirkum kornum er komið fyrir í kirtlinum.
Aukaverkanir. Báðar meðferðirnar geta leitt til getuleysis og þvagleka. Það stafar af því að þvaglokan er rétt fyrir neðan blöðruhálskirtilinn og taugar og æðar sem fara niður í getnaðarlim liggja þétt við kirtilinn svo erfitt er að hlífa þeim við aðgerðina.

Andhormónameðferð. Ef sjúkdómurinn er þegar útbreiddur við greiningu eru horfur lakari en við staðbundinn sjúkdóm. Þrátt fyrir það má búast við góðri svörun með svokallaðri andhormónameðferð sem byggist á því að fjarlægja eða hindra virkni karlhormónsins (testósterón) á krabbameinsfrumurnar. Þessi meðferð getur haft í för með sér kyndeyfð og hugsanlega svitakóf en ekki verður nein breyting á útliti karlmanna eða rödd þrátt fyrir meðferðina.

Algengi og lífshorfur

Lífshorfur byggjast á því hvort sjúkdómurinn er bundinn við kirtilinn eða hvort hann hafi sáð sér til eitla eða beina. Eins getur gangur hans verið mjög misjafn eftir einstaklingum. Mestar líkur eru til þess að hægt sé að uppræta sjúkdóminn greinist hann á byrjunarstigi. Í flestum tilvikum er sjúkdómurinn þó hægfara og veldur jafnvel aldrei einkennum, einkum ef hann er staðbundinn hjá eldri einstaklingum.

Að meðaltali greinast um 200 karlar með sjúkdóminn árlega og í lok árs 2013 voru um 2040 karlar á lífi með sjúkdóminn. Sjá nánar hér á vef Krabbameinsfélags Íslands.

Ritstjórn febrúar 27, 2018 09:16