Að fjallabaki í glampandi sól

Það voru eftirvæntingarfullir ferðalangar sem klifu um borð í rútu fyrir utan félagsheimili Félags eldri borgara í Stangarhyl, í glampandi sól, á leið í ferð um Fjallabaksleið nyrðri. Kári Jónasson var fararstjóri og hann stóð við fremri dyr rútunnar og taldi þá sem komu inn. Ámundi Kristjánsson bílstjóri beið rólegur, en hann átti eftir að sýna ótrúlega takta á ferð með um 60 manna rútu um vegleysur inná hálendinu, keyra yfir óbrúaðar ár og upp og niður snarbrattar hlíðar.

Gætuð allar tekið þátt í fegurðarsamkeppni

Það var brunað af stað og Kári lumaði á margs konar fróðleik sem hann miðlaði okkur af yfir daginn. Hann sagði okkur til dæmis að bærinn Gunnarshólmi, rétt utan við borgina, héti eftir Gunnari kaupmanni í kjötbúðinni Von á Laugavegi, sem þá var og hét, en hann átti jörðina. Hann þótti mjög skemmtilegur maður og einn úr hópi farþega sagði sögu af því að eitt sinn hefðu þrjá vinkonur komið inní búðina hjá honum á Laugaveginum. Gunnar sem sagður var kunna að meta fagrar konur sagði þá: „Mikið eruð þið fallegar konur, þið gætuð allar tekið þátt í Fegurðarsamkeppni Íslands“ – „ já að minnsta kosti þið tvær“ , bætti hann við, en sá óðara að hann hafði hlaupið á sig og ákvað í skyndi að bæta skaðann. „En það þýðir ekki að þú getir ekki verið góð húsmóðir“ sagði hann í huggunarrómi við þá þriðju.

Fóru í „útskriftarferð“ til Kína

Þórdís Leifsdóttir

Það var fjölbreyttur hópur fólks sem lagði af stað í ferðina. Sumir voru einir, eða tveir og tveir saman, sumir voru jafnvel fleiri saman. Fólk á öllum aldri frá sextugu og uppúr. Þórdís Leifsdóttir sagðist vera að fara í sína fyrstu ferð með Félagi eldri borgara, en hún væri nýgengin í félagið, enda orðin sextug. Það er einmitt aldurstakmarkið til að ganga í Félag eldri borgara. Hún sagði það sniðugt fyrir alla að fara í svona dagsferðir. „Mér finnst gaman að fara ein í svona ferðir og er mikill hálendisunnandi“, bætti hún við.  Fyrsti staðurinn sem stoppað var á, var við þjóðhátíðarbæinn í Þjórsárdal.

Þórlaug, Ásta og Sólveig

Þar tók blaðamaður tali þrjár konur. Þórlaugu Guðbjörnsdóttur, Ástu Jóhannsdóttur og Sólveigu Stefánsdóttur. Þær Þórlaug og Ásta sögðust ferðast mikið. Þær unnu saman í banka og þegar þær hættu störfum ákváðu þær að fara í „útskriftarferð“ til Kína. Það var árið 2005 og þær voru svo hrifnar að þær fóru aftur til Kína tveimur árum síðar. Annars sagðist Ásta vera farin að fara minna til útlanda í seinni tíð og kjósa að ferðast hér heima. Sólveig sagðist ekki hafa farið mikið í ferðir með eldri borgurum, en hún hefði sótt Íslendingasagnanámskeiðin og farið í ferðir um söguslóðir bæði Laxdælu og Njálu.

Kemst þangað sem ekki er hægt að fara á eigin bíl

Hanne og Haraldur í Landmannalaugum

Á pallinum við skálann í Landmannalaugum voru hjónin Haraldur D. Haraldsson og konan hans Hanne Fisker að borða nestið sitt. Hanne er dönsk. „Hún var flutt inn árið 1975“, sagði Haraldur hlæjandi þegar blaðamaður spurði hversu lengi hún hefði búið á Íslandi. Hann sagðist vera að fara í þriðju ferðina með eldri borgurum „Mér finnst frábært að komast með þessum hætti á staði sem maður kemst varla til á eigin bíl“. Hanne tók undir það og sagði dásamlegt að félagið byði uppá þetta. Hún ólst upp á Jótlandi og var því ekki vön fjallendi þegar hún flutti til Íslands, en undi sér vel í sólinni í Landmannalaugum þar sem náttúrufegurðin er ótrúleg.

Ferðin tókst vel í alla staði, þeir ferðalangar sem blaðamaður Lifðu núna spjallaði við, voru almennt ánægðir með daginn, sem varð þó býsna langur. Veðrið var ótrúlegt, sólskin allan daginn og útsýni með því allra besta sem sést, jöklar og fjöll blöstu við íbland við gróskumiklar sveitirnar á Suðurlandinu. Hérna fyrir neðan má skoða nokkrar svipmyndir úr ferðinni.

Ritstjórn ágúst 9, 2019 14:23