Ég veit ekki enn hvort ég á að hlæja eða gráta

Jónína Ólafsdóttir

Jónína Ólafsdóttir

Jónína Ólafsdóttir skrifar

Ég fékk bréf. Dreifibréf. Ég opnaði það og renndi yfir innihaldið. Ég lokaði því aftur og athugaði hvort það hefði virkilega verið stílað á mig. Það var rétt, það var stílað á mig. Ég þurfti umhugsunartíma. Lokaði því aftur. Velti því fyrir mér. Skoðaði aftur hvort það hefði örugglega verið sent til mín. Renndi aftur yfir innihaldið. Vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta. Félagsstarf eldri borgara á Seltjarnarnesi júní og júlí 2016! Til mín!

Fyrsta málsgreinin fjallaði um kennslu í tölvu, spjaldtölvu og snjallsímanotkun. Ég vann á skrifstofu þegar tölvuöldin hófst á níunda áratug síðustu aldrar og var ein af þeim sem notaði hið margfræga “word perfect” forritið í byrjun. Það leiddi síðan til annarra afkomenda ritvinnsluforritanna, og svo náttúrulega excel og power-point og síðar internetsins og tölvupóstsins og alls þess sem því fylgdi. Svo á ég náttúrulega mína I-fjölskyldu, itölvur, ipod, ipad og iphone til daglegra nota. Ha – þarf einhver að taka mig í tíma og kenna mér? Ég er sextug og lærði þetta fyrir löngu!

Önnur málsgreinin er upptalning tíu atriða sem boðið er upp á fyrir eldri borgara. Fæst af því gerir ráð fyrir að þú sért í vinnu sem ég er, enda sextug kona við góða heilsu þó hárið sé fagurgrátt og ég hafi ýmislegt reynt um ævina. Síðasta atriðið í upptalningunni vekur mesta kátínu eða mestu sorg, eftir því hvernig maður vill líta á það. Það er hið árlega Harmonikuball! Enn og aftur, ég er sextug! Ha – mín tónlist tengist hippakynslóðinni. Ekki harmonikum heldur Megasi, Dylan, Cohen, Janis Joplin og svo framvegis. Harmonikutónlist kannast ég ekki við að hafi notið vinsælda hjá mínum aldurshópi, hvorki þá né nú. Ég myndi allavega ALDREI fara á harmonikuball!

Er þetta bréf sent af alvöru, án umhugsunar eða er það bara óttalega lélegur brandari? Er viðeigandi að setja alla sem eru svo heppnir að komast á “efri ár” undir sama hatt? Eru sextugir einstaklingar í dag taldir eiga margt sameiginlegt með þeim sem eru áttræðir eða níræðir eða með stækkandi hóp tíræðra?

Ég veit ekki enn hvort ég á að hlæja eða gráta.

 

Ritstjórn júní 28, 2016 09:44