Ferðaskrifstofa eldri borgara ekki nýtt félag

Sigurður K Kolbeinsson

Niko ehf., eigandi vörumerkjanna Ferðaskrifstofa eldri borgara og Hótelbókana.is gerir athugasemdir við grein sem birtist á Lifðu núna nýlega, en þar var meðal annars sagt frá yfirlýsingu Félgs eldri borgara í Reykjavík, sem snerist um Ferðaskrifstofu eldri borgara. Sjá hér. Sigurður K. Kolbeinsson eigandi Niko ehf. telur að í yfirlýsingunni og greininni sé  beinlínis farið rangt með staðreyndir.  Það sé engu að síður rétt að FEB hafi  ekkert með rekstur Ferðaskrifstofu eldri borgara að gera frekar en rekstur annarra ferðaskrifstofa á Íslandi. Orðrétt segir í athugasemdum Sigurðar.

Ferðaskrifstofa eldri borgara er ekki nýtt félag heldur hefur fyrirtækið rekið ferðaþjónustu fyrir eldri borgara í 16 ár eða síðan 2004, upphaflega í Kaupmannahöfn og gekkst þá fyrir Aðventuferðum eldri borgara ásamt Icelandair og Emil Guðmundssyni undir vörumerkinu Hótelbókanir.is  Fyrirtækið átti samstarf við Félag eldri borgara í Reykjavík á árunum 2018 og 2019 um kynningu ferðanna fyrir félagsmenn FEB og gekk það samstarf mjög vel.  Það er því fjarstæðukent að halda því fram að FEB hafi gengist fyrir þessum ferðum.  Aðventuferðirnar verða áfram með sama sniði frá 15. nóvember 2020, 17. árið í röð og rekstur ferðanna verður alfarið í höndum Ferðaskrifstofu eldri borgara.

Í kjölfar starfsloka framkvæmdastjóra FEB breyttist mikið og var þá leitað eftir áframhaldandi samstarfi við FEB með það fyrir augum að tryggja félaginu tekjur af sölu ferða okkar auk þess að koma félaginu til aðstoðar þar sem FEB er ekki handhafi ferðaskrifstofuleyfis en slík staða getur valdið  óöryggi hjá farþegum. Boði okkar var hafnað af hálfu framkv.stjórnar FEB.

Hótelbókanir.is sáu um rekstur og umsjón Færeyjaferðar á síðasta ári að beiðni FEB og var óskað eftir því að þeim ferðum yrði haldið áfram og verðum við með 2 slíkar í ár, í mars og október. FEB var boðið samstarf um þær ferðir auk þóknunar en það boð var ekki þegið þrátt fyrir mikið lof okkar farþega á ferðatilhögun, skipulag og fararstjórn á síðustu ferð.

Gísli Jafetsson sem starfaði sem framkvæmdastjóri FEB í rúm 5 ár, hefur verið ráðinn til að sinna sérstökum verkefnum fyrir Ferðaskrifstofu eldri borgara, aðallega á sviði fararstjórnar og mun hann hefja störf í mars n.k.

Ferðaskrifstofa eldri borgara óskar stjórn og félagsmönnum FEB velfarnaðar á næstu  árum og verður ávallt reiðubúin til að þjónusta FEB og félaga þess sem og alla aðra eldri borgara hvar sem á landinu þeir búa.

 

 

Ritstjórn janúar 21, 2020 14:38