Það er best að einfalda hlutina ef maður ætlar að koma sér upp góðum fataskáp þar sem allt er í röð og reglu. Farðu í gegnum öll fötin í skápnum og settu í þrjár hrúgur. Í eina hrúguna eru sett föt sem þú hefur ekki notað í eitt til tvö ár, í næstu hrúgu fara föt sem sjaldan gefst tilefni til að nota og loks fara þau föt sem þú elskar og notar mikið í þriðju hrúguna. Losaðu þig strax við fötin sem þú ert hætt að nota, farðu aftur í gegnum fötin sem sjaldan gefst tækifæri til að nota og haltu eftir einni eða tveimur uppáhaldsflíkunum þínum í þeim bing. Gakktu frá fötunum sem þú notar inn í skáp.
Góð snið og efni skipta miklu máli vilji konur líta vel út. Ef fólk velur vel sniðin föt úr góðum efnum endast þau lengi. Eyðið frekar aðeins meiri peningum í góð föt í stað þess að kaupa ódýr föt. Ódýru fötin fara fljótt úr tísku og efnin í þeim eru oft léleg og þola illa þvott eða hreinsun. Góð leið til að eignast falleg föt, vel sniðin og úr góðum efnum er að kaupa þau notuð á netinu, fara í Rauðakrossbúðirnar eða aðrar verslanir sem selja notaðan gæðafatnað.
Hversu langt er síðan það hefur verið tekið til í nærfataskúffunni. Eru nærfötin sem þú átt í réttri stærð og þarf ekki að fara að taka nýtt brjóstahaldara mál. Passið að eiga nærföt í svörtu, hvítu og húðlitu sem passa almennilega.
Það er ástæða fyrir því að hönnun Diane Von Fustenberg er klassísk. Kjóllinn sem hægt er að vefja um sig og hún hannaði upphaflega hefur svo sannarlega staðist tímans tönn og það er ástæða fyrir því. Sniðið klæðir flestar konur og það er hægt að nota þessa kjóla bæði við hátíðleg tækifæri og hversdags.
Sumt er alltaf í tísku og velsniðnar buxur með beinum skálmum er eitt af því. Buxurnar þurfa að vera úr góðu efni í náttúrlegum litum eða svartar. Það er hægt að nota litríkan topp eða skyrtu við buxurnar, peysu bara allt eftir tilefninu hverju sinni. Buxur af þessu tagi ganga bæði með háum hælum og flatbotna skóm.
Allar konur ættu að eiga að minnsta kosti einn svartan kjól. Vel sniðin og úr góðu efni. Slíka flík er hægt að nota við mörg tilefni og stöðugt hægt að breyta útlitinu með því að velja mismunandi fylgihluti. Fallegir eyrnalokkar og háir hælar við þann „litla svarta“ er ómótstæðilegur klæðnaður.