Fataklúbbar gætu verið málið

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gmail.com

Fötin skapa manninn segir máltækið. Föt eru samkvæmt þessu ekki aðeins ætluð til að hylja nekt manneskjunnar heldur umskapa hana að vissu leyti. Fatnaður er heilmikið áhugamál hjá mörgum og ýmislegt í sambandi við hann getur sameinað fólk og skapað tilefni til að hittast og spjalla. Þá leggur einmanaleiki á flótta en gleðin heldur innreið sína í sálina.

Mér datt í hug að kannski væri sniðugt að stofna einskonar fataklúbba á vettvangi samkomustaða fyrir aldraðra þar sem skipst væri á fötum. Það gæti verið áhugaverð viðbót við aðra starfsemi, svo sem handavinnu af ýmsu tagi, útskurð, silfursmíði, bókband, upplestur eða spilamennsku. Allt miðar þetta að því sama – hafa eitthvað skemmtilegt fyrir stafni og hitta aðra. Ég tek fram að vel má vera að fataskipti séu þegar markvisst gerð í einhverjum mæli í starfi aldraða þótt ég hef ekki frétt af því.

Fataskipti eru svo sem ekki ný af nálinni og til eru síður á Facebook þar sem notuð föt eru auglýst til sölu eða í skiptum. En ekki er allt eldra fólk á netinu svo mér datt í hug að hægt væri að stofna klúbba á vettvangi samkomustaða fyrir aldraða, þar sem fólk gæti komið með flíkur og fengið aðrar í staðinn. Um leið gæti það fengið sér kaffisopa og spjallað. Það er alltaf gaman að vera í nýjum og góðum fötum. Og gömul flík fyrir einn er ný fyrir annan sé hún falleg og vel með farin.

Í svona klúbba væri hægt að koma til dæmis með fallega peysu og fá eitthvað annað fatakyns í staðinn. Þarna er verið að tala um fataskipti til frambúðar.  Hins vegar mætti einnig hugsa sér lánafyrirkomulag í fatamálum. Þá kæmi einstaklingur með flík sem einskonar pant og fengi aðra að láni í ákveðinn tíma.  Loks væri hreinlega hægt að stofna fatalánaklúbba aldraða. Þar væri markvisst safnað þar saman ágætum fötum sem fólk gæti fengið lánuð til að vera í við sérstök tækifæri, svo sem í veislum, í útivist, í sumarferðum og þannig mætti telja. Þetta kostar auðvitað skipulagningu eins og annað en varla meiri en allskyns önnur starfsemi sem fram fer í þágu aldraðra.

Þetta gæti verið skemmtilegt og spennandi viðfangsefni, orðið tilefni til nýrra vina- og kunningjasambanda og skapað umræðugrundvöll. Ekki skemmir að fataskipti gætu í vissum tilvikum sparað fólki kaup á nýjum klæðnaði og væri framlag í þágu endurnýtingar og minni sóunar sem svo mikið er rætt um núna.Vitaskuld hafa notuð föt gengið kaupum og sölum um langan aldur. En bein fataskipti til langs eða skamms tíma eru líklega mest tíðkuð innan fjölskyldna eða vinahópa.

Skipulegir fataklúbbar aldraðra væru útvíkkun á slíku.

Vitaskuld eru til fataleigur sem leigja út samkvæmisklæðnað og fleira í þeim dúr og ódýrar verslanir með notuð föt – en þar koma peningar við sögu. Fataklúbbarnir væru aftur á móti skiptimarkaðir þar sem peningar gegna ekki neinu hlutverki.

Peysur, pils, vesti, buxur, kjóla, jakka og fleira mætti hafa í svona fataklúbbum. Skilyrði væri að skila flíkinni heilli og hreinni að notkun lokinni. Eina sem varla er ráðlegt að lána manna á meðal eru skór. Ef eitthvað lagar sig að líkama manns þá eru það skór – nema kannski stígvél.

Eins og margar konur, hef ég oft skipt við vinkonur mínar á fötum. Stundum hafa skiptin verið til langframa. Eitt áhrifamikið dæmi úr mínum reynslubanka er saga af minkajakka sem vinkona mín fékk að gjöf frá manni sem misst hafði konu sína og vildi þakka góða aðstoð í veikindum hennar. Minkajakkinn, sem var lítt notaður, var of stór á vinkonu mína. Hún stakk því upp á skiptum við mig. Ég fengi minkajakkann en hún fengi í staðinn gráan jakka sem líka var lítt notaður og henni fannst fallegur. Ég hafði keypt hann heldur þröngan og ætlað að grenna mig í hann – en það tókst ekki sem skyldi. Skiptin voru gerð og voru báðar ánægðar. Ella hefðum við setið uppi með flíkur sem við gátum ekki notað.

Í fataklúbbum fyrir aldraða væri sem sagt hægt að skipta á fötum til langframa eða í skamman tíma, þeir gætu verið félagslega skemmtilegir fyrir þá sem taka þátt, unnið gegn einmanaleika, hugsanlega sparað fé og minnkað sóun. Fataklúbbar gætu því verið málið.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir apríl 3, 2017 10:18