Drekk ég of mikið?

Á vef Landlæknisembættisins er listi yfir 9 hættumerki, sem benda til þess að menn séu að drekka of mikið. Þar segir jafnframt að menn tengi oft óhóflega áfengisneyslu við þau félagslegu og heilsufarslegu vandamál sem af henni hljótast, en það sé ekki endilega réttur mælikvarði

En í raun sýnir aðeins lítill hluti þeirra sem drekka óhóflega einkenni ofneyslu. Þeir virðast halda fullri daglegri virkni í leik og starfi, meðal vina og ókunnugra. Jafnvel þótt áfengisneyslan sé stöðug eða að aukast.

Þá kannast flestir stórneytendur við hversdagslegar aðstæður þar sem þeir geta ekki sinnt ákveðnum verkefnum eða verið til staðar þar sem viðveru og athygli er krafist, vegna þess að þeir hafa neytt of mikils áfengis. Þeir gleyma fundum, missa af viðburðum eða hafa á einhvern hátt ekki staðið undir þeim væntingum sem til þeirra hafa verið gerðar.

Jafnvel hinar minnstu óþægilegu meðvituðu afleiðingar óhóflegrar áfengisneyslu geta leitt til íhugunar og spurningar vakna: Drekk ég of mikið? Bitnar drykkjan á öðrum? Skaða ég sjálfa/n mig? Þarf ég að draga úr neyslunni?

Hérna fyrir neðan eru svo hættumerkin 9, en fyrir utan það að telja fjölda drykkja er hægt að spyrja sig þeirra níu spurninga sem hér eru lagðar fram, til að kanna hvort drykkjan er óhófleg og skaðleg:

  1. Finnur þú afsakanir/ástæður til að fá þér áfengi?
  2. Hefur þú einhvern tíman lofað sjálfum þér að drekka ekki í t.d. viku en ekki geta staðist það?
  3. Hefur einhver sagt þér að þú drekkir of mikið?
  4. Hefur þú reynt að fela drykkjuna til að forðast leiðindi innan fjölskyldunnar?
  5. Hefur þú svikið loforð við börnin þín vegna drykkju?
  6. Hefur þú verið í veikindafríi vegna eftirkasta drykkju (timburmenni)?
  7. Þarft þú að drekka meira en áður til að finna fyrir áhrifum?
  8. Verður þú drukkin/n í veislum þótt þú hafi ákveðið að verða það ekki?
  9. Drekkur þú stundum á þann hátt að þú manst ekki atburði dagsins?

Ef þú svarar einhverjum þessara spurninga játandi er góð ástæða til að draga úr áfengisneyslunni og sérstaklega að drekka ekki mikið í hvert skipti, segir á vefsíðu Landlæknis og bent er á að ítarlegri próf megi finna á vef SÁÁ og á doktor.is

Þá er bent á að þarfnist menn aðstoðar við að draga úr eða hættu neyslunni megi meðal annars leita til eftirfarandi aðila sem geti veitt aðstoð:  SÁÁ, AA-samtökin, Vímuefnadeild Landspítalans, félagsþjónustan, heimilislæknar, sjálfstætt starfandi sálfræðingar og ráðgjafar.

 

Ritstjórn september 8, 2015 13:36