Tengdar greinar

Um 600 Íslendingar fá heilablóðfall á ári

Heilablóðfall er líka nefnt heilaáfall, slag, eða heilablæðing. Ástæður þess eru skyndileg truflun á blóðflæði af völdum blóðtappa eða rofs á æð í höfði. Björn Ófeigsson eigandi vefsíðunnar hjartalíf.is, þekkir það af eigin raun að ganga í gegnum hjartaáfall og lifa með hjartasjúkdóm. Hann hefur tekið saman eftirfarandi upplýsingar um heilablóðfall og stuðst þar við vefsíðuna heilaheill.is.

Heilablóðfall eða heilaslag er afleiðing skyndilegrar og varanlegrar truflunar á blóðflæði til heilasvæða af völdum æðasjúkdóma. Blóðflæðitruflunin getur orsakast af stíflu í heilaslagæð af völdum blóðtappa (heiladrep) eða því að æð brestur og blæðir í heilavefinn (heilablæðing). Í báðum tilvikum líða heilafrumur, sem æðin nærir súrefnisskort, auk skorts á öðrum nauðsynlegum næringarefnum. Hluti heilafrumanna deyr, en starfsemi annarra raskast. Stundum koma einkenni um heilablóðfall einungis fram í stuttan tíma og er þá talað um skammvinna blóðþurrð í heila. Ýmsir sjúkdómar geta stuðlað að heilablóðfalli. Einkennin sem koma fram eru háð staðsetningu og stærð skemmdarinnar í heilanum.

Tíðni hækkar með hækkandi aldri

Rannsóknir á Íslandi hafa leitt í ljós, að um 600 einstaklingar fá heilablóðfall árlega. Meðalaldur þeirra er tæplega 70 ár og er þorri sjúklinga eldri en 65 ára. Heldur fleiri karlar en konur fá heilablóðfall hérlendis. Tíðni heilablóðfalla er mjög háð aldri. Rannsóknir Hjartaverndar benda til að árleg tíðni um 50 ára aldur sé um 3 af hverju þúsundi en um áttrætt er tíðnin komin upp í 12 af þúsundi. Heilablóðfall er þriðja algengasta dánarorsökin á Íslandi. Það veldur dauða hjá um 8% karla og kvenna.

Heilablóðfall flokkað í þrjá flokka

Heilablæðingu, heiladrep og skammvinna blóðþurrð í heila. Þetta er rakið ákvæmlega í greininni og einnig hvernig heilablóðfall er greint og rannsakað. Þar segir einnig að heilablóðfall verði að meðhöndla strax.

Það kemur fram í greininni að forvarnir séu mjög mikilvægar, sumum áhættuþáttum getum við að vísu ekki breytt, en öðrum sé hægt að breyta. Rannsóknir Hjartaverndar og erlendar rannsóknir hafi sýnt fram á þessa áhættuþætti.

Áhættuþættir sem ekki er hægt að breyta

 • Aldur

Líkurnar aukast með hækkandi aldri. Meðalaldur þeirra sem fá heilablóðfall hérlendis er tæplega 70 ár. Meirihluti sjúklinga er yfir 65 ára aldri.

 • Kyn

Fjórðungi algengara hjá körlum en konum.

 • Fjölskyldusaga

Vert er að láta fylgjast með blóðþrýstingi og öðrum þekktum áhættuþáttum bæði ef er fjölskyldusaga um heilablóðfall og / eða hjarta- og æðasjúkdóma.

 • Fyrri saga um heilablóðfall / skammvinna heilablóðþurrð

Áhættuþættir sem hægt er að breyta

 • Háþrýstingur
 • Reykingar
 • Kyrrseta
 • Offita
 • Sumir hjartasjúkdómar (t.d. óreglulegur hjartsláttur/gáttaflökt)
 • Sykursýki
 • Hækkað kólesteról
 • Áfengismisnotkun
 • Getnaðarvarnapilla (á það einkum við ef konan reykir og er eldri en 35 ára)
 • Streita

Flestir þessara áhættuþátta tengjast ástandi hjarta- og æðakerfis. Með því að hugsa vel um hjarta og æðakerfi minnka líkurnar á heilablóðfalli, segir í greininni sem sjá má í heild með því að smella hér.

Ritstjórn júlí 15, 2021 07:30