Að leika á ellikerlingu…. eða við hana?

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Seint verður sagt um þessa kerlingu að hún sé skemmtileg. Frekar er um hana sagt að hún sé ein sú leiðinlegasta sem um getur. Orðið er samsett úr tveimur verulega neikvæðum nafnorðum sem kalla fram hugrenningatengsl sem við ýtum frá okkur. Fyrra orðið, “elli”, hræðumst við flest og viljum alls ekki tengja okkur við og “kerling” er í sama flokki.

Þessi kerling er nú samt þannig að hún kemur til okkar allra til að vera, sama hvað við gerum. En þar með er ekki sagt að við getum ekki gert ýmislegt til að hefta för hennar, eða í minnsta kosti að tefja fyrir henni. Við getum nefnilega leikið á hana og svo er líka hægt að leika við hana ef okkur sýnist svo, sem er líklega betri kostur. Og auðvitað eigum við að nota öll ráð sem tiltæk eru en minna okkur reglulega á að besta ráðið er samt oftast að fara frekar út að ganga en að leggjast upp í sófa, bæði við andlegum og líkamlegum kvillum.

Allir sem eru komnir á miðjan aldur vita að það er upp úr fertugu sem þessi kerling getur farið að minna á sig þótt hún komi ekki í heimsókn af fullum þunga fyrr en miklu síðar. Einstaka grá hár eða lína í húð hér og þar er áminning um að hún er farin að vinna sitt verk. Fullnaðarsigur hennar á sér samt ekki stað fyrr en miklu síðar í flestum tilfellum. Það veltur nefnilega á því hvernig við dönsum okkar dans út lífið hversu gott hún á með að vinna sín fólskuverk.

Hrollköld er sú staðreynd að ef við föllum í þá gryfju að fara að berjast við kerlinguna getum við verið viss um að sú barátta er fyrir fram töpuð. Þá er betra að leika við hana því þannig eru meiri líkur á að hún fari um okkur mildum höndum. Best er að bjóða henna bara upp í dans en tilkynna henni jafnframt að við ætlum að leiða dansinn.

Ef um veikindi er að ræða er staðan auðvitað allt önnur, en ef svo er ekki getum við tekið til okkar ráða og er í raun ófyrirgefanlegt að gera það ekki. Það versta sem við gerum er halda kyrru fyrir því þannig hleypum kerlingunni að til að vinna sitt verk. Öll hreyfing kemur blóðinu til að renna hraðar sem er eitt helsta vopnið sem við höfum til að hefta för hennar. Í þessari viku leggjum við áherslu á hreyfingu í greinum á vefnum okkar Lifðu núna. Vonandi verða þær lesendum  hvatning og munum öll að “lifa núna”.

 

 

 

 

 

 

 

Sólveig Baldursdóttir mars 2, 2020 09:50