Að sitja í óskiptu búi – eða ekki.

Ásdís j. Rafnar

Ásdís j. Rafnar

Ásdís J. Rafnar skrifar

Það er ofsagt að venjuleg íslensk fjölskylda samanstandi af börnunum hennar, börnunum hans og kannski þeirra sameiginlegu börnum! Þetta mynstur er þó mjög víða að finna. Flestir þekkja meginreglur erfðalaga um erfðir, sem auðvelt er að kynna sér í lagasafninu, sem er birt á vef Alþingis. Umfjöllunin hér á eftir miðast við hjón, því um sambúðaraðila gilda ekki sambærilegar reglur.

Stundum kemur upp ágreiningur við dánarbúskipti, sem verður þeim sem í hlut eiga mjög sár reynsla. Það má draga úr hættunni á ágreiningi með ýmsu móti en þau dæmi sem hér fara á eftir eru ekki tæmandi talning á hugsanlegum aðgerðum í því efni, en það er vert að skoða þau. Börn af fyrra sambandi eiga sinn rétt og þau réttindi eiga ekki að koma neinum á óvart.

Hvenær á að skipta búi?

Er erfðaskrá með ákvæði, sem heimilar eftirlifandi maka setu í óskiptu búi, með börnum þess sem fyrr fellur frá, ráðleg í öllum tilvikum ? Það er vafalaust ráðlegt þegar eignir bús eru ekki mjög miklar og hjúskapur hefur staðið nokkra hríð. Við fráfall maka erfir hinn 1/3 hluta eigna hins látna, en fari skipti á óskiptu búi fram eftir lát beggja hjóna fellur lögmæltur erfðaréttur hins langlífara eftir hið skammlífara niður.

Rétt er að árétta að séreignir samkvæmt kaupmála eða erfðaskrá renna ekki inn í óskipt bú, nema kveðið sé á um að þær eignir lúti reglum um hjúskapareignir að öðru hjóna látnu. Eftirlifandi maki erfir 1/3 af séreignum hins makans, en þær koma að öðru leyti í hlut barna þess sem átti þær.

Ef hjúskapareignir bús eru nokkrar eða miklar þá er ráðstöfun um setu í óskiptu búi með erfðaskrá sennilega í flestum tilvikum óráðleg. Þegar dánarbúinu er skipt, er fyrst reiknaður búshluti makans, sem eftir lifir, sem er helmingur hreinna hjúskapareigna búsins. Hinn helmingurinn er til skipta og erfir makinn 1/3 hluta hans og börn hins látna saman 2/3. Eftirlifandi maki gæti kosið að sitja í óskiptu búi með sameiginlegum börnum sínum og hins látna ef um sameiginleg börn er að ræða, en gert upp við börnin af fyrra sambandinu. Hann getur einnig ákveðið að skipta búi hvenær sem er þótt erfðaskrá mæli fyrir um rétt hans til setu í óskiptu búi.

Fjármunir sem menn eignast á meðan setið er í óskiptu búi

Ef eftirlifandi maka tæmist arfur á meðan hann situr í óskiptu búi eða hann t.d. vinnur stóra fjárhæð í happdrætti, þarf hann að lýsa því yfir hjá sýslumanni innan tveggja mánaða frá því að hann vissi af þessum fjármunum að þeir skuli ekki renna inn í hið óskipta bú. Verða þeir fjármunir með því séreign hans, en renna ella inní óskipta búið.

Ekki er alltaf börnum til að dreifa hjá hvoru hjóna. Annar makinn á börn af fyrra sambandi, en hinn er barnlaus. Nú ákveður makinn sem á börnin að heimila maka sínum setu í óskiptu búi, svo lengi sem hann kýs. Það getur verið að hann geri það vegna þess að börnin hans erfa hinn makann við andlát hans, ef hann á ekki lögerfingja á lífi þegar hann fellur frá, foreldra eða systkini.

Gott að útbúa yfirlýsingu

Þegar fjölskyldumynstrið er með þessum hætti er það vafalaust frekar algengt að hjónin hafi gert kaupmála sín á milli um séreignir, sem síðan koma ekki til skipta. Bæði hjónin koma e.t.v. með eignir inn í hjúskapinn og hafa áður gengið í gegnum hjónaskilnað og fjárhagslegt uppgjör af þeim sökum. Séreignum þarf að halda sérgreindum og ekki er óalgengt að á það reyni að sanna þurfi hvaða eignir séu séreignir. Þegar hjónin hafa búið lengi saman getur verið ráð að gera grein fyrir því í yfirlýsingu þeirra á milli hvað t.d. af innbúi þeirra er keypt af þeim sameiginlega og hvað er séreign. Jafnvel getur gerð slíkrar yfirlýsingar verið ágætis tilefni til að gera afkomendunum grein fyrir hvaðan einstakir hlutir eru upprunnir. Eðlilegt væri að fá votta að undirritun yfirlýsingarinnar. Það auðveldar börnunum að gera sér grein fyrir eignunum þegar annað hjóna fellur frá og ætti þannig að draga úr hættunni á ágreiningi. Ef annað hjóna á tiltekna eign að séreign og framkvæmdir eru gerðar á eigninni þá er ráðlegt að gera grein fyrir því í yfirýsingu hver kostaði framkvæmdirnar, ef þær hafa verðbætt eignina að einhverju ráði. Hafi sá kostað framkvæmdirnar sem á eignina að séreign getur enginn ágreiningur orðið en þörf gæti verið á því að sanna það. Hið sama á við ef hinn makinn greiðir þær eða tekur þátt í þeim sjálfviljugur og vill verðbæta séreign hins án endurgjalds, t.d. vegna þess að hann nýtir eignina til sinna þarfa.

 

 

 

Ritstjórn desember 9, 2015 10:56