Að vera eða vera ekki með ökuskírteini

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég lá andvaka í nótt og fór að velta því fyrir mér hvernig ég ætti að skipuleggja afmælisdaginn minn á vordögum þegar ég yrði þrisvar sinnum tuttugu og fimm ára. Allt í einu mundi ég eftir því að á þeirri sömu spýtu hangir ökuskírteinið mitt. Það rennur út á afmælisdaginn minn. Ég man eftir stressinu fyrir fimm árum við að fá vottorð frá lækni um sjón, lyfjanotkun og geðheilsu og nýja ljósmynd. Og til hvers? Ég hef ekki keyrt einu sinni öll þessi fimm ár. Sambýlingurinn sér um þá hlið dagslega lífsins. Ekki má heldur gleyma strætó.

En samt er það stór ákvörðun að velja að endurnýja skírteinið ekki. Er ég að stimpla mig inn sem þurfaling fyrir skutl ef minn betri helmingurinn er af einhverju orsökum ekki til staðar? Er ekki hallærislegt að vera ekki með ökuskírteini? En hvers vegna allt þetta mas bara til þess að hafa þetta ónotaða vottorð í kortaveskinu?

Fyrir framan mig liggur mín mikið notaða íslenska orðabók, árituð með fallegri rithönd pabba þar sem segir: Til Sigrúnar með þökk fyrir ökuleyfisstuðninginn 1987, mamma og pabbi. Sagan á bak við þessa gjöf er sú að mamma hafði látið ökuskírteinið sitt renna út og fékk svo allt í einu bakþanka. Hvað ef þau Stebbi væru stödd í sumarhúsinu, sambandslaus, og eitthvað kæmi fyrir hann og hún mætti ekki keyra? Mamma ræddi þetta við mig. Ég ákvað að finna fyrir hana góðan kennara sem tæki hana í nokkra ökutíma og gerði hana klára fyrir nýtt ökuskírteini og öruggan akstur. Margir í kringum okkur voru efins um að þetta myndi takast. En viti menn, hún fékk nýtt skírteini og naut þess að keyra meðan heilsan leyfði.

Ég tók bílpróf daginn sem ég varð 17 ára. Ég gat varla beðið. Ég var sú fyrsta af systkinunum til þess að taka próf. Þegar ég kom heim sagði pabbi að ég skyldi ekki halda að hann ætlaði að lána mér bílinn SINN. Hann var nokkuð stífur á þessu, sérstaklega til að byrja með. Það var því ekki fyrr en ég eignaðist minn eigin bíl að ég fór að aka eitthvað að ráði. Þegar sambýlismaðurinn kom inn í myndina fann ég strax að honum líkaði ekki minn akstursmáti. Smám saman hefur það orðið að venju að hann situr við stýrið og ég reyni að stjórna ferðinni með öðrum aðferðum.

Ég hef verið alveg sátt við hlutverk mitt sem aðstoðarökumaður en núna er ég tvístígandi. Fyrir fimm árum sagði heimilislæknirinn minn að það væri ekki auðvelt verkefni að segja fullorðnu fólki að það sé ekki lengur fært um að keyra bíl enda oft mikil frelsissvipting sem felst í því. Reyndar hef ég fulla trú á því að ég myndi sleppa í gegnum nálarauga læknisins, svo það er ekki það sem ég óttast. En á ég að nenna að hlaupa milli stofnana bara af því að?  En það er heldur ekki auðveld ákvörðun að farga ökuskírteininu í eitt skipti fyrir öll. Hér sit ég og velkist í vafa  um hvað ég á að gera. Ég hef bara örfáar viku til þess að ákveða mig. En óháð því hugga ég mig við að ungu ökumönnunum í barnabarnaflokknum fjölgar sifellt, sem njóta þess að fá fjölskyldubílinn lánaðan með þeirri góðu afsökun að þeir þurfi að skutla gamlingjunum.

Sigrún Stefánsdóttir febrúar 28, 2022 07:00