Örlagafiðlan

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

Getur fiðla orðið rómantískur örlagavaldur í lífi fjölskyldu? Svo er tilfellið í fjölskyldu minni. Móðir mín Aðalbjörg Bjarnadóttir var fædd og uppalin á Kirkjubóli í Dýrafirði fædd árið 1910 og faðir minn Þorvaldur Ellert Ásmundsson var fæddur og uppalinn á Akranesi fæddur 1909. Hann leitaði sér mennta og sótti skóla á Núpi í Dýrafirði hjá séra Sigtryggi Guðlaugssyni. Séra Sigtryggur var þekktur skólamaður sem hafði mótandi áhrif á nemendur sína. Móðir mín var í skólanum á sama tíma. Þau vissu hvort af öðru sem skólafélagar en ekki tókust með þeim kynni.

Sumarið 1931 var ákveðið að móðir mín og Margrét systir hennar víkkuðu sjóndeildarhringinn eins og hún orðað það í minningarbrotum sem hún skrifaði. Þær systur héldu til Reykjavíkur. Móðir mín dvaldi hjá frændfólki. Frænkan var heilsuveil og móður mín annaðist heimilishaldið fyrir hádegi en vann síðan eftir hádegi á saumastofu frá kl. eitt til klukkan sjó og stundum lengur ef verkefni voru mörg. Þar vann hún við saumaskap jafnframt sem lærlingur. Saumakonan og kennslukonan hét Ólöf Guðmundsdóttir og var nýlega flutt frá Ísafirði. Ólöf leigði tvö herbergi og lítið eldhús hjá Þórarni Guðmundssyni fiðluleikara og tónskáldi í svonefndu Schoushúsi sem var milli Vesturgötu og Tryggvagötu. Ólöf sneið og mátaði í stofunni og síðan var fatnaður af öllum gerðum saumaður í eldhúsinu.

Fljótlega eftir að móður mín hóf störf á saumastofunni var hún send til þess að kaupa silkitvinna. Þegar hún kom til baka að húsinu gengur ungur maður með fiðlukassa niður tröppurnar. Faðir minn var að koma úr fiðlutíma hjá Þórarni. Þau urðu bæði undrandi og báðum varð að orði: „Hvað ert þú að gera hér?“ Eitthvað höfðu þau skrifast á en vissu hvorugt um tilvist hins í Reykjavík. Faðir minn var við nám í Stýrimannaskólanum en hann ætlaði jafnframt að stunda fiðlunám hjá Þórarni. Lítill tími reyndist til fiðlunámsins vegna anna í Stýrimannaskólanum svo námið lagðist af en fiðluna varðveitti hann alla tíð. Fiðluna hafði hann fengið í vöruskiptum hjá íslenskum sjómanni sem hafði keypt fiðluna á fornsölu þegar hann sigldi til Ítalíu. Fiðlan mun vera frá því um 1880.

Foreldrar Þráins, líklega brúðkaupsmynd.

Kynni hófust milli þessara ungmenna og um miðjan vetur bauð faðir minn móður minni á árshátíð Stýrimannaskólans og Vélstjóraskólans sem haldnir voru sameiginlega upp á loftinu í Iðnó. Þann 18. júní 1932 settu foreldrar mínir upp hringana og héldu upp á daginn með því að fara á Þingvöll í blíðskapar veðri en þangað hafði móðir mín ekki komið. Þau gengu svo í hjónaband á Akranesi á aðfangadag árið 1932 en þar settust þau að.

Af fiðlunni er það að segja að hún var í eigu fjölskyldunnar og geymd inn í skáp. Eftir að foreldrar mínir voru látnir og búið tekið upp lenti fiðlan í minni umsjá. Mörgum árum síðan datt mér í hug að láta skoða fiðluna og koma henni í notkunarástand. Fór ég til fiðlusmiðs sem kvað upp þann úrskurð að fiðlan væri ekki viðgerðar virði. Ég ákvað að eiga fiðluna áfram og hún gæti í það minnsta orðið minjagripur upp á vegg. Árið liðu og dótturdóttir okkar Freydís Helga- og Hrannardóttir hóf Suzuki fiðlunám í Tónskóla Sigursveins. Svo leið að því að Freydís þurfti fullorðins fiðlu eftir 7 ára fiðlunám orðin 12 ára. Hrönn spurði hvort mætti aftur láta líta á dauðadæmdu fiðluna. Það var gert og fiðlan var nú dæmd ágætis hljóðfæri sem vel mætti lagfæra og aðlaga tóninn með hljóðfæraleik. Við kostuðum töluverðu til og fiðlan var tekið í notkun í janúar á þessu ári 2019 eftir 87 ára hvíld.

Án efna myndi það gleðja föður minn fengi hann að sjá sonardótturdóttur leika svo ljúflega á ættarfiðluna eins og Freydís gerir. Fyrir Freydísi er fiðluleikurinn meira en tónlistarflutningur því einnig er leikið á tilfinningaskala. Hver veit hvort hún væri yfir höfuð að leika á fiðlu og stödd í þessari tilveru með núverandi fjölskyldu frekar en við hin í fjölskyldunni ef fiðla föður míns hefði ekki komið til. Um það getur enginn sagt en rómantíska sagan um örlagafiðluna sem leiddi saman tvo unga einstaklinga og skapaði grunn að fjölskyldu mun lifa með afkomendum.

Þráinn Þorvaldsson apríl 22, 2019 10:35