Kórsöngur er skemmtilegur og bætir heilsuna

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar:

Fyrir tveimur árum hóf ég að syngja í kór. Nú syng ég í tveimur kórum, Kór Félags eldriborgara í Reykjavík og KKK (Karlakórinn Kátir Karlar). Báðir kórarnir eru undir afar góðri og skemmtilegri stjórn Gylfa Gunnarssonar. Fyrir 50 árum þegar ég var í Háskóla Íslands söng ég í Stúdentakórnum undir stjórn Jóns Þórarinssonar. Mér finnst ánægjulegt að taka þátt í kórstarfinu og vildi helst hafa gert það fyrr. Betra er seint en aldrei.

Eftir eina æfinguna fyrir skömmu velti ég því fyrir mér af hverju mér liði svo vel í kórstarfinu. Ég taldi fyrir því góðar ástæður m.a. tónlistaráhugi og góður félagsskapur. Ég hugsaði um samlíkingu við þjóðfélagið. Þeir sem syngja í kór syngja með ólíkum röddum en þær verða að hafa samhljóm með fyrirfram skilgreindum markmiðum eða útsetningum undir leiðsögn góðs stjórnanda sem samhæfir raddirnar. Til þess að ná samhljómi kórsins verða kórfélagar að hlusta vel á þá sem eru í kring bæði í eigin rödd og félaga í öðrum röddum. Á milli fólks sem kemur saman í kór til að syngja myndast sterk tengsl. Samhæfingin og hljómur raddanna er uppskera æfinganna. Vellíðan fylgir því að heyra samhljóminn þegar raddirnar falla saman. Ég velti því fyrir mér hvort vandamálin í þjóðfélagsumræðu á Íslandi sem annars staðar væri ekki skortur á samhljómi. Of margir syngja eigin rödd án þess að hlusta á aðra eða fylgja markmiðum sem mótuð er í þjóðfélaginu. Okkur getur þótt bæði sönglögin og útsetningar þeirra misgóðar en þær eru þó það sem söngstjórinn eða stjórn kórsins setur kórfélögum að syngja eftir.

Í framhaldi fór ég að velta fyrir mér hvort einhverjar rannsóknir væru til um kosti þess að syngja í kór. Ég sló inn á leitarvef „why singing in a choir is good for you“ (af hverju söngur í kór gerir þér gott). Mér til undrunar var vísað til 40 milljóna tilvitnana. Um þetta efni mætti hafa langt mál en í þessum stutta texta nefni ég nokkur atriði sem mér fannst áhugaverð og varða góð áhrif þátttöku í kórsöng á heilsu.

Í grein sem birtist í Telegraph í desember 2013 „Choir singing boost your mental health“ segir frá rannsókn sem gerð var á 375 manna hópi sem ýmist söng í kór, einsöng eða var í hópíþróttum. Allir hóparnir komu vel út með tilliti til andlegrar vellíðunar en kórafólkið kom langt best út. Samanborið við fólk sem stundaði hópíþróttir mat kórafólkið áhugasvið sitt hafa meiri tilgang. Vitnað er í forsvarsmann rannsóknarinnar sem sem segir að niðurstöður sýni að kórstarf gæti verið áhrifamikil leið með litlum tilkostnaði til þess að auka vellíðan fólks. Bent er á að tilfinning kórfélaga fyrir því að vera þátttakandi í samstæðum þjóðfélagshópi skapi vellíðunartilfinningu í viðbót við gleðina að nota röddina til þess að skapa tónlist. Í greininni kemur fram að fyrri rannsóknir bendi til þess að kórstarf geti haft áhrif á einkenni Parkison, þunglyndi og lungnasjúkdóma. Vísað er til sænskrar rannsóknar sem bendir til þess að kórsöngur eykur ekki aðeins súrefnismagnið í blóðinu heldur leysir úr læðingi „hamingju“ hormóna eins og oxytocin sem talið er að minnki streitu og lækki blóðþrýsting. Vitnað er í aðra athugun sem sýndi að 60% þeirra sem hófu kórstarf sýndu merki minni streitu og þunglyndis ári síðar þegar mælingar voru endurteknar. Bent er á að söngur í kór gefi sterka tilfinningu fyrir því að vera hluti af hóp sem hefur tilgang.

Í grein í South China Morning Post frá því í desember 2014 kemur fram að kórsöngur er af hinu góða bæði tilfinningalega, líkamlega og félagslega og fullyrt er að heilsusamleg áhrif séu vísindalega rökstudd. Söngurinn er sagður góður fyrir lungu, hjarta og blóðflæði, bætir svefn, þjálfar andlitsvöðva, bætir hvernig á að bera sig, opnar öndunarfæri, framleiðir endorfine, bætir ónæmiskerfið, dregur úr reiði og áhyggjum, bætir sjálfsímynd, minnkar streitu og hvetur til tengsla við aðra. Söngur er talinn styrkja minni barna. Tónlistaræfingar eru taldar hafa mikil áhrif á hæfileika barna til þess að læra.

Í grein í Daily Mail í júlí 2013 er sagt frá rannsóknum sem sýna að hjartsláttur þeirra sem syngja í kór eykst og minnkar í takt meðal kórfélaga og hjartsláttur samhæfist. Öndun í kórsöng er samhæfð eins og í jóga og er sögð hafa góð áhrif á hjarta- og æðakerfið. Því er haldið fram að áhrif kórsöngs á heilsu séu ekki minni en jóga iðkun.

Kórastarf á Íslandi er öflugt. Í ritgerð Veroniku Osterhammer við Listaháskólann árið 2008 er áætlað að um 1.200 menn séu í karlakórum 800 í kvennakórum og 1.600 í blönduðum kórum. Einhverjir syngja í fleiri en einum kór en gera má ráð fyrir að um 3.000 manns taki þátt kórastarfi á Íslandi. Félagar mínir í KKK eru margir aldnir að árum en afar ungir í anda. Í 30 manna kórnum eru 3 yfir 90 ára, 8 á aldrinum 80 til 90 ára og svo komum við unglingarnir frá um 70 til 80 ára. Ég er sannfærður um að til viðbótar við ráðleggingar um hreyfingu og holt matarræði ber að ráðleggja kórsöng fyrir þá sem það geta og vilja iðka. Kórsöngur bætir greinilega heilsuna og leiðir til betra lífs.

Þráinn Þorvaldsson apríl 27, 2015 11:58