Óttast ekki dauðann – bara að missa bílprófið

Jónas Haraldsson.

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar:

Við erum bílaþjóð, um það þarf vart að deila þótt misjafnar skoðanir séu á því þarfaþingi sem bíllinn vissulega er. Sumir elska bílinn, aðrir ekki. Nýliðnar borgarstjórnarkosningar í Reykjavík snerust að mestu um til þess að gera stóra bíla, strætisvagna. Þrasað var um það fram og til baka hvort auðvelda ætti þeim gulu farartækjum leið um stræti borgarinnar með sérreinum. Sýndist þar sitt hverjum. Þrátt fyrir góðan ásetning, hæfilegan áróður og góð rök fyrir auknum almenningssamgöngum gengur hægt að fjölga þeim sem taka þá gulu fram yfir einkabílinn. Bíllinn er og hefur verið frelsistáknið, framlenging af okkur sjálfum, tækið sem flytur okkur hvert sem hugurinn girnist. Byggðin er jú dreifð og landið stórt. Við búum ekki við sömu ferðatíðni og lestakerfi stórborganna bjóða upp á. Þar skiptir eiginlega engu máli þótt maður horfi á eftir lest. Sú næsta kemur hvort sem er eftir tvær eða þrjá mínútur. Það er ekki alveg eins spennandi að bíða eftir strætó í 15 eða kannski 30 mínútur í íslensku veðri þar vorið gleymir að koma, hvað þá sumarið.

Ómögulegt er að segja hver þróunin verður, hvort einkabíllinn heldur velli og þá í hvaða mynd. Rafvæðing bílaflotans er hafin. Rafbíll mengar ekki eins og bensín- eða dísilbíll, að minnsta kosti ekki beint.  Einhvers staðar verða vondir samt að vera, það er að segja geymar rafbílanna þegar þeir hafa lokið sínu hlutverki. Það er ekki eintóm hollusta í innviðum þeirra. Sjálfkeyrandi bílar ku síðan sjást við ystu sjónarrönd.

En er á meðan er. Við höldum fast í stýrið á einkabílnum meðan þess er nokkur kostur. Kannski er sú kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi sú síðasta sem nýtur þess frelsis sem einkabíllinn veitir. Tímabil hans mun þá aðeins spanna fjórar til fimm kynslóðir. Til er mynd af föðurafa mínum þar sem hann situr, barn að aldri, í einum fyrsta bílnum sem kom hingað til lands í upphafi 20. aldar. Hann tók bílpróf ungur að árum og átti nokkur dollaragrín á sinni tíð. Hann sigldi á Ameríku og amerískir skyldu drekarnir vera, hátt á þriðja tonn hver. Móðurafi minn tók hins vegar ekki bílpróf fyrr en hann var kominn á sextugsaldur. Hann notaði reiðhjól sem samgöngutæki fram að því. Hvorug amma mín settist nokkru sinni undir stýri á bíl.

Foreldrar mínir tóku bílpróf þegar þau máttu. Þau eignuðust alls konar bíla, gott ef pabbi var ekki bílabraskari, eins og það var kallað, keypti og seldi bíla á æskudögum okkar systkina í því skyni að hagnast á þeim viðskiptum. Við vissum eiginlega aldrei hvort við kæmum heim í sömu tegund af bíl og við lögðum af stað í.

Pabbi var því af fyrstu kynslóð þeirra sem áttu bíl alla sína ævi, það er að segja þegar aldur leyfði slíka eign og akstur. Ég sé hann ekki fyrir mér án bíls. Þegar leið á hans ævikvöld óttaðist hann alls ekki að deyja, hann óttaðist það eitt að missa bílprófið. Hann var kominn á þann aldur að endurnýja þurfti ökuskírteinið árlega. Hnén voru nokkuð tekin að gefa sig eftir langa lífsgöngu og því studdist pabbi við staf. Það brást þó ekki að þann dag ársins sem hann fór til læknisins, til þess að fá vottorð um aksturgetu, henti hann frá sér gönguprikinu og gekk teinréttur inn til doktorsins. Út kom hann jafnan með vottorðið, sigri hrósandi.

Pabbi hélt því ökuskírteininu þar til yfir lauk, þótt það verði að viðurkennast að stundum höfðum við, börnin hans, nokkrar áhyggjur af samskiptum hans og bílsins síðustu misserin. Allt gekk það þó slysalaust, sem betur fer.

Vonandi fæ ég að keyra meðan þrek leyfir, hvort heldur það verður minn dísiltrukkur eða annars konar farartæki með ótilgreindum orkugjafa. Gaman verður líka að fylgjast með því, ef kollurinn verður í sæmilegu lagi þegar fram í sækir, hvort krakkarnir mínir fara að gera athugasemdir við aksturslagið og spyrja hvort ekki sé nóg komið af svo góðu.

Svo getur líka verið að blessuð afkvæmin þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur, bíllinn minn verði orðinn sjálfkeyrandi þegar þar að kemur. Undir því stýri – eða stýripinna – geti ég því setið með mitt stafprik, ef hnén verða farin að gefa sig, og liðið áfram áreynslulaust.

Við sjáum hvað setur.

 

Jónas Haraldsson júlí 9, 2018 13:14