Aðgengi að verslunum – er það gott?

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir fyrrverandi formaður LEB skrifar

Sá mikli fjöldi eldra fólks sem sem á eftir að aukast enn meira á næstu árum er oft skilinn eftir þegar aðgengi er skoðað. Hvernig er þetta  t.d. í stóru verslunarkjörnunum? Í Smáralind er aðgengi að mörgu leyti gott, slétt inn og  breiðir gangar. En þegar kemur að því að taka stuttar pásur þá eru bekkir mjög fáir og sumir of lágir. Áberandi er í auglýsingum frá verslunum að það eru nánanast undantekningar að tekið sé fram á hvað hæð viðkomandi verslun er.

Ég hringi oft og spyr á hvaða hæð tiltekin búð er og í hvorum enda hússins. Það getur sparað sporin verulega  fyrir aldrað og fatlað fólk sem á erfitt með gang eða vill komast á sem auðveldastan hátt í viðkomandi verslun. Víða erlendis eru svo verslunarmiðstöðvar aldursvænar og taka fullt tillit til að við sem erum á efri árum erum mjög oft góðir kúnnar. Það er öllum ljóst, að hluti eldri íbúa treystir sér ekki í stóru búðirnar þar sem aðgengi er ekki nægjanlega gott.

Í stóru verslunarhúsi með mjög mörgum verslunum í Kolding í Danmörk má finna sérlega vel hannaða ganga sem eru merktir með litum þannig að fólk getur verið búið að athuga hvort búðin sem það ætlar að finna er á gulum gangi eða bláum. Bekkir eru á öllum göngum og auðvelt að rata. En svo má líka horfa á hvað stóru matvöruverslanirnar eru oft illa útbúnar fyrir eldra fólk. Oft er búið að breyta hilluuppröðun og fólk finnur ekkert. Í USA er víða að finna göngugrindur og rafskutlur í búðum sem auðvelda fólki verulega lífið. Þó fólk eldist hættir það ekki að hafa gaman af að fá að velja sjálft á sig föt eða leita að gjöfum til dæmis handa barnabörnum sem eru að fermast eða eiga afmæli.

Þjónusta í verslunum hefur batnað mjög en sumstaðar mætir manni mikið áhugaleysi. Í mjög þekktri búð bæði í Kringlu og Smáralind, þar sem oft er bið eftir aðstoð eða afgreiðslu,  er hvergi stól að finna. Þar gengur eldra fólk út. Nei, takk. Við viljum njóta virðingar og vera fullgildir þjóðfélagsþegnar þrátt fyrir nýtt hné að annað sem hefur bilað í stoðkerfinu. Aldursvæn borg hvar er hún?

Allir með í að vera virkir!

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir maí 6, 2022 12:00