Eva Björk Valdimarsdóttir er biskupsritari og hægri hönd nýs biskups. Eva hafði verið starfandi prestur í níu ár þegar hún réðst til Biskupsstofu. Hún er frá Akureyri en fyrsta prestsembætti hennar var í Keflavík. Síðan var hún héraðsprestur í nokkur ár og var þá líka að vinna náið með presti innflytjenda sem hún segir að hafi fært sér ómetanlega reynslu. Síðustu árin var hún svo prestur í Bústaðakirkju og Grensáskirkju sem var virkilega góður tími að hennar sögn. Þar fyrir utan leysti Eva Björk fangaprest Þjóðkirkjunnar af um tíma sem hún segir að hafi líka fært sér dýrmæta reynslu.
Eva Björk segir að starf hennar líkist helst starfi aðstoðarmanns ráðherra. ,,Ég er eina manneskjan á landinu í þessu starfi svo það er óneitanlega sérstakt en ég vinn sem betur fer með mörgu góðu fólki á Biskupsstofu svo þetta gengur allt mjög vel. Hlutverk biskupsritara er að vera aðstoðarmaður biskups, ráðgjafi, ritari og sjá um ýmis samskipti fyrir hennar hönd bæði innan kirkju sem og utan. Ég er til dæmis í miklum samskiptum við ýmsar stofnanir fyrir hönd biskups eins og samráðshóp almannavarna og stjórnsýsluna. Ég er líka í starfsþjálfunarteymi Þjóðkirkjunnar sem heldur utan um starfsþjálfun djákna- og prestsefna. Síðan er ég í góðu samstarfi við djákna, presta og prófasta í landinu og þar kemur reynsla mín af prestsstörfum að góðum notum,“ segir Eva Björk.
Áhersla á sýnileik kirkjunnar
,,Guðrún hefur lagt mikla áherslu á sýnileik kirkjunnar eftir að hún tók við og það er að skila sér,“ segir Eva Björk. ,,Þegar áföll ríða yfir í lífi fólks eru það yfirleitt prestar sem koma að og hafa þess vegna mikilvægu hlutverki að gegna. Gott og öflugt starf er unnið í kirkjum landsins en fólk leiðir hugann oft ekki að því fyrr en áföllin skella á. Hluti af starfi okkar er einmitt að gera fólk meðvitað um þetta merkilega starf sem allir eiga að geta nýtt sér.“
Eva segir að ákveðið hafi verið að bæta vel í á samskiptasviði kirkjunnar, ráða bæði samskiptastjóra og samfélagsmiðlastjóra. ,,Við sem störfum innan kirkjunnar vitum hvað hún er að sinna miklu og mikilvægu starf, nú þurfum við bara að gæta þess að sem flestir viti það líka. Síðan er verið að þróa nýja heimasíðu svo ásýnd kirkjunnar er að verða allt önnur,“ segir Eva Björk
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.