Kynslóðirnar mætast í nýrri bók Nönnu

Kápa bókarinnar Borð fyrir einn – allan ársins hring.

Nanna Rögnvaldardóttir hefur búið ein í um 20 ár og hefur langoftast eldað fyrir sig eina þann tíma. Hún segist reyndar vera mjög dugleg að bjóða afkomendum sínum og öðrum gestum í mat og eldi þá gjarnan fyrir marga. En nú brá svo við að þegar heimsfaraldurinn skall á þurfti hún að verja löngum stundum í sóttkví eins og margir og eldaði þá alla daga fyrir sig eina. Þá rifjaði hún upp gamla hugmynd sem hafði aldrei orðið að veruleika, en það var matreiðslubók fyrir einn. Nú er bókin komin út og er alveg örugglega glæsilegri en hún hefði orðið á sínum tíma, því nú er Nanna reynslunni ríkari. Hún hefur nú skrifað fjölda matreiðslubóka og séð um matreiðsluþætti í blöðum og tímaritum og býr yfir mikilli þekkingu. Það segir ýmislegt um ungan huga Nönnu að í stað þess að láta sér leiðast í sóttkví nýtti hún tækifærið og bjó til heila bók.

Ætlar að hætta að vinna 65 ára

Nanna verður 65 ára í mars næstkomandi og ætlar þá að hætta að vinna. „Ég reiknaði dæmið út og sá að það myndi ekki breyta svo miklu fyrir mig fjárhagslega þótt ég færi á eftirlaun, og þá var auðvitað rökrétt að hætta að vinna og njóta lífsins,“ segir hún. „Ég hóf að leggja inn í séreignalífeyrissjóðinn eins mikið og ég gat, var þá um fertugt, og það gerir mér kleift að hætta að vinna núna. Það hefði þótt saga til næsta bæjar hér áður að ég væri bæði forsjál og skipulögð,“ segir Nanna og hlær. „En ætli lífið hafi ekki kennt mér að það borgaði sig að leggja áherslu á bæði forsjálni og skipulag,“ segir hún. „Það er aldrei of snemmt að fara að hugsa um eftirlaunaaldurinn og sá tími getur orðið langur,“ segir Nanna sem er við góða heilsu í dag.

Kom sér upp sykursýki

Nanna segir að fyrir 7–8 árum hafi hún áttað sig á því að hún hafi verið komin með forstigseinkenni sykursýki. Heimilislæknirinn hennar vildi setja hana á lyf, en hún ákvað að athuga hvort hún gæti ekki frestað því í nokkur ár með því að breyta mataræðinu. Hún tók út allan viðbættan sykur, notaði eingöngu ávexti sem sætuefni og það segir hún að hafi virkað. „Einkennin hurfu og ég léttist líka,“ segir Nanna. „En ég vissi alltaf að þetta væri bara tímabundinn frestur, ég væri trúlega búin að valda sjálfri mér skaða með áratuga sykuráti. En þetta virkaði sem sagt í nokkur ár en nú er ég komin á lyf. En með því að halda mig nokkurn veginn við sykurlaust mataræði áfram gengur mér ágætlega að hafa stjórn á sykursýkinni og halda henni í skefjum.“

Nanna segir að nú orðið minnki hún sykur í uppskriftum sínum og aðlagi þær að mat eins og hún megi sjálf borða. Þær eru því hollari en áður var.

Hefur aldrei tekið bílpróf

Nanna hefur aldrei átt bíl og hefur alveg komist af án þess að taka bílpróf. „Ég bjó lengst af í miðbænum og fór allra minna ferða labbandi eða í strætó og það dugði mér alveg,“ segir Nanna sem ól börnin sín tvö upp án þess að eiga bíl.

Fallegur pottur sem Nanna keypti í London á leið sinni heim frá Frakklandi. Á þessum svölum myndaði hún allar myndirnar í Borði fyrir einn og notaði fallega birtu íslensks sumars, en nú var komið haust.

Tekur myndirnar sjálf

Eftir að hafa unnið við útgáfu bóka og tímarita í áratugi hafði Nanna lært svo mikið að hún gat sjálf séð um marga þætti í gerð þessarar bókar. „Ég hef unnið með svo mörgu hæfileikafólki sem ég hef lært af og fór svo að gera tilraunir með að taka myndirnar sjálf fyrir nærri tíu árum. Það er búið að vera óhemju skemmtilegt. Ég sé matinn til dæmis öðruvísi í gegnum myndavélaraugað og eldamennska mín hefur þess vegna breyst með tímanum. Ég hafði í huga að maturinn í þessari bók væri þannig að maður ímyndaði sér að maður væri á veitingahúsi þótt eldamennskan sé í sjálfu sér ekki flókin. Það er bara svo gaman að elda að ég hef ekki farið út í að elda stóra skammta og frysta, en það er auðvitað hægt og að því geta verið bæði þægindi og sparnaður,“ segir Nanna.

Myndirnar allar teknar á svölunum heima

Nanna hefur starfað lengi hjá Forlaginu sem ritstjóri bóka og hefur eins og gefur að skilja mikið vald á tungumálinu, hún hefur auk þess verið viðstödd gerð fjölda matreiðsluþátta og komið að hönnun bóka og blaða. Hún hefur tekið sjálf allar myndir í síðustu tíu bókum sínum. „Núna bar ég undir hönnuðinn hugmynd mína að taka myndir úti á svölum hjá mér þar sem ég er með töluverða ræktun og hún sagði mér að ég þyrfti þá eiginlega að taka allar myndirnar þar og þá gerði ég það bara. Ég skipti bókinni niður í kafla eftir árstíðum og byrja á vori af því að ég byrjaði að vinna bókina vorið 2020. Ég tek alltaf mjög margar myndir af hverjum rétti og hætti ekki fyrr en ég var orðin ánægð. Ég er með ágætis myndavél og hef haft mjög gott fólk með mér sem hefur sagt mér til.“

Skipulag galdurinn

Þegar Nanna er spurð að því hvort geti ekki verið dýrara að elda fyrir einn en fleiri segir hún að skipulag sé galdurinn. „Það er næstum allt dýrara ef keypt er inn og eldað er fyrir einn,“ segir hún. „Og þá kemur skipulagið til. Maður reynir að kaupa litla skammta og margir kaupmenn eru búnir að gera sér grein fyrir því og selja minni skammta. En ef maður neyðist til að kaupa stærri skammta, þá er galdurinn auðvitað að skipta hráefninu niður í minni skammta og frysta þá. Og ef mann langar í lambalæri, þá er auðvitað hægt að kaupa lambaskanka og elda hann, maður fær þá að minnsta kosti bragðið af lærinu. Uppskriftir að slíkum ráðum eru einmitt í þessari bók og þá er einfalt að margfalda með tveimur ef tveir eru í heimili.“

Kynslóðirnar mætast

Nanna við pottasafn sitt sem prýðir heimili hennar en pottarnir sjást sumir á myndum bókarinnar.

Nanna segist hugsa þessa bók bæði fyrir þá sem hafa eldað alla sína ævi og vantar hugmyndir og líka fyrir þá sem eru að byrja að búa. „Það er nefnilega ekki svo einfalt að elda fyrir fáa eftir að hafa eldað fyrir misstóra fjölskyldu alla tíð, svo ég tali nú ekki um fyrir bara einn. Munurinn á að elda fyrir einn eða marga getur legið í svo mörgu, en ekki síst í skipulagi.

Ég reyndi að hafa hráefnið sem fjöbreyttast, þ.e. jafnmikið af kjöt- og fiskuppskriftum og grænmetisréttum og svo meðlæti sem hentar öllum réttum. Í bókinni eru meðal annars uppskriftir að hefðbundnum réttum eins og kjötsúpu eða plokkfiski, en líka að framandi og nýmóðins réttum.“

Í bókinni eru skotheldar uppskriftir og góð ráð um það hvernig gott er að meðhöndla hráefnið og hvernig við getum nýtt það sem best. „Þetta á að vera hugmyndavekjandi bók. Ég var auðvitað með fólk eins og mig í huga sem hef oft eldað fyrir marga en er nú orðin ein í heimili.“

Nanna ætlar ekki að setjast alveg í helgan stein þótt hún hætti að vinna. Hún er meðal annars með bók í smíðum sem var frestað út af Covid, en það er ferðamannabók og kemur líklega út næsta haust. „Svo tek ég sjálfsagt að mér ýmis verkefni ef leitað verður til mín, en ég ætla að láta það bara ráðast.“

Nanna hefur verið mjög vinsæl á vinnustað, því afgangarnir af eldamennsku hennar fyrir bækurnar hafa gjarnan endað í mötuneytinu í vinnunni. „Þau voru nú ekkert sérstaklega ánægð þegar ég var að elda fyrir þessa bók, því það voru aldrei neinir afgangar,“ segir Nanna og brosir. „Ætli ég muni nú ekki halda áfram að heimsækja þetta ágæta samstarfsfólks sem ég hef haft um árabil núna og þá getur verið að ég taki eitthvað með mér,“ segir Nanna kankvís.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn október 27, 2021 07:00