Æskilegt að rýmka rétt launafólks til að annast veika ættingja

Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur á undanförnum árum barist fyrir því að foreldrum langveikra barna verði bætt tekjutap vegna umönnunar þeirra heima, en á það hafa viðsemjendur ekki viljað fallast í kjarasamningum. Mikil áhersla var lögð á þessa kröfu á árunum fyrir hrun. Foreldrar ungra barna geta í dag fengið hvort um sig 12 daga frí á launum ár hvert, vegna veikinda barna sinna.

Rætt um að útvíkka réttinn

Það hefur verið töluvert um það rætt innan nefnda Bandalagsins að útvíkka þennan rétt til þeirra sem þurfa að annast veikan maka eða foreldra. Styrktarsjóðir aðildarfélaga Bandalagsins hafa heimild til að greiða fólki dagpeninga í allt að 60 daga vegna langvarandi veikinda maka eða barna, en það hefur verið erfitt að fylgja því eftir í minnstu sjóðunum. Þegar hrunið varð breyttust áherslur BSRB nokkuð í kjarasamningum en Ágúst Bogason upplýsingafulltrúi BSRB segir afstöðu bandalagsins til þessara krafna ekki hafa breyst „Líklegt er að þær muni koma til tals á ný við samningaborðið næsta vor  þegar gengið verður til nýrra kjarasamninga“, segir Ágúst „þar sem stefnt er að því að gera samninga til lengri tíma“.

Ekki bara þeir efnamestu

Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB berst fyrir fjölskylduvænna samfélagi og segir að það, að rýmka rétt fólks til fjarveru frá vinnu vegna veikinda nánustu ættingja, falli að þeim hugmyndum. Gildi þá einu hvort um sé að ræða börn, maka eða foreldra viðkomandi. Hún segir að þetta sé einnig ákveðið jafnréttismál.

Það er staðreynd að þessi ólaunuðu störf sem eru unnin á heimilum og utan vinnustaða lenda í mun meira mæli á konum en körlum. Langar fjarvistir eða skert starfshlutfall vegna umönnunar ættmenna hefur bein áhrif á laun viðkomandi og mun frekar á laun kvenna. Vel flestir hafa litla eða enga möguleika til að minnka við sig vinnu af fjárhagsásæðum. Við viljum búa í samfélagi þar sem fólk hefur jafnan rétt óháð tekjum. Það væri því æskilegt að rýmka rétt fólks til launaðra fjarveru frá vinnu vegna umönnunar ættmenna svo að það verði ekki bara á færi þeirra efnamestu að annast sína nánustu ef eitthvað bjátar á.“

 

 

Ritstjórn september 3, 2014 15:35