Eldri brúðhjón ættu að gera kaupmála

Hreinn Pálsson hæstaréttarlögmaður

Hreinn Pálsson hæstaréttarlögmaður

 

Fyrir þá sem vilja ganga í hjónaband á sjötugsaldrinum, eins og nú tíðkast í auknum mæli til dæmis í Bretlandi, er hægt að gera kaupmála þar sem ákveðnar eignir eru skráðar sem séreignir hjónanna hvors um sig. Það skiptir máli að gera það áður en gengið er í hjónaband, því það er ódýrara en að gera kaupmála eftir hjónavígsluna. Þetta segir Hreinn Pálsson hæstaréttarlögmaður. Hann segir að unnt sé að skrá íbúðir, bíla, verðbréf eða aðrar eignir sem séreign annars hvors hjónanna og sé það gert, fái erfingjar hvors um sig eingöngu þær eignir sem skráðar eru á þeirra foreldri. Þess skal þó geta að sá maki sem lifir hinn á erðarétt að 1/3 af séreign hins látna. Hreinn segir að það sé öruggast að fá lögmann til að ganga frá kaupmálanum sem er síðan þinglýst hjá Sýslumannsembættunum.

Skilnaður eða andlát maka

Komi til skilnaðar hjá eldra fólki sem hefur gert kaupmála sín í milli, fær hvor um sig þær eignir sem hann á samkvæmt honum. Ef annar makinn fellur hins vegar frá, fær sá sem eftirlifir 1/3 af eignum hans en börn hins látna 2/3. Í hjúskap þar sem fólk á saman börn, er þessu hins vegar þannig háttað ef annað hjónanna fellur frá, að helmingur eigna skiptist milli makans sem eftir lifir og barnanna. Makinn fær 1/3 af þeim helmingi, en börnin 2/3.

Líka hægt að gera erfðaskrá

Ef makar sem ganga í hjónaband á efri árum, vilja kveða nánar á um erfðir sín á milli, er einnig hægt að gera erfðaskrá. Með erfðaskrá er hægt að ráðstafa 1/3 eigna sinna að eigin vali. „Það er mikilvægt fyrir þá sem eru að ganga í hjónaband kannski í annað eða þriðja sinn og eiga börn úr mörgum samböndum að huga vel að þessum málum – og tímanlega“, segir Hreinn.

 

 

Ritstjórn júlí 19, 2014 13:18