Ríkið myndi græða á að hætta að skerða atvinnutekjur eldri borgara

Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins skrifar grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni Hættum að skerða atvinnutekjur eldri borgara.  Hann segir að ríkisstjórnin myndi græða á því að leyfa þeim eldri borgurum að vinna sem það vilja og þá án skerðingar á atvinnutekjum þeirra.

Gróðinn fyrir ríkið yrði í skattekjum og betri heilsu þeirra eldri borgara sem vilja eða geta unnið. Það er fáránlegt að skerða vinnulaun og þá einnig lífeyrissjóðslaun frá lífeyrissjóðunum sem eru ekkert annað en laun viðkomandi plús vextir og verðtrygging. Vextina og verðtrygginguna ætti að skatta sem fjármagnstekjur, en ekki launatekjur. Þetta er eignarupptaka af verstu gerð“.

Segir Guðmundur Ingi í greininni. Hann gerir einnig að umtalsefni hið nýja fyrirkomulag, þar sem eldri borgurum er gert kleift að fá  hálfan lífeyri frá lífeyrissjóðum á móti hálfum lífeyri frá Tryggingastofnun, án nokkurra skerðinga. En hann segir kerfið mismuna fólki. Láglaunamaðurinn hafi þar ekki sömu möguleika og hálaunamaðurinn, eins og segir í greininni.

Þegar sótt er um þennan hálfa rétt fyrir einhvern sem er með minna en 124.053 krónur úr lífeyrissjóði á mánuði segir orðrétt á vef Tryggingastofnunar ríkisins: „Lífeyrissjóðstekjur eru of lágar, þar af leiðandi átt þú ekki rétt á 50% lífeyri og 50% frá lífeyrissjóðunum miðað við þær lífeyristekjur sem þú gefur upp. Lífeyrissjóðstekjurnar þurfa að vera hærri en 124.053 krónur á mánuði svo að þú eigir rétt. En þú getur sótt um almennan ellilífeyri.

Guðmundur Ingi minnir á það í greininni að Flokkur fólksins hafi ásamt öðrum,  lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar, um afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna eldri borgara. Það er nú til umfjöllunar í þinginu.

Ritstjórn apríl 3, 2019 12:22