Franski kvikmyndaleikarinn Alain Delon var helsti hjartaknúsari, kyntákn og leiðandi stjarna í frönsku endurvakningunni, en frönsk kvikmyndagerð á sjöunda áratug síðustu aldar hefur verið svonefnd. Hann þótti afburðagóður leikari og margar mynda hans eru klassískar og þykja meistaraverk að mati kvikmyndaaðdáenda. Þeirra meðal eru Plein Soleil, Le Samouraï, Once a Thief og Lost Command. Alain lék í mörgum Hollywood-kvikmyndum á ferlinum en kaus að flytja aftur heim til Frakklands og vinna þar. Hann var óvenjulega laglegur og bar sig sérlega vel og þótti meðal best klæddu manna í kvikmyndaiðnaðnum.
Alain var áttatíu og átta ára en hann fæddist árið 1935 í Sceaux, Hauts-de-Seine, einu af úthverfum Parísarborgar. Móðir hans hét, Édith Arnold og faðir hans, Fabien Delon. Pabbi hans var ítalskur í aðra ættina og Korsíkumaður í hina en móðir hans var frönsk og þýsk. Foreldrar hans skildu þegar hann var enn mjög ungur og Alain átti erfiða æsku. Hann var oft rekinn úr skóla og þótti órólegur og erfiður. Hann hætti í skóla fjórtán ára og fór að vinna hjá slátrara en gekk svo í franska sjóherinn þar sem hann meðal annars barðist í frönsku nýlendunum sem á þessum tíma voru að reyna að fá sjálfstæði og í Víetnam. Árið 1956 var hann rekinn úr hernum.
Hann ákvað að reyna fyrir sér í kvikmyndaleik og fékk fljótlega hlutverk í frönskum myndum. Fyrsta myndin sem hann lék í hét Send a Woman When the Devil Falls í leikstjórn Yves Allégret. Hann kynntist bandaríska kvikmyndaframleiðandanum David O Selznick í Cannes árið 1957 og gerði samning við hann. Ári síðar birtist hann í kvikmyndinni Christine á móti Romy Schneider. Þau urðu ástfangin meðan á tökum stóð og ástarsamband þeirra vakti gríðarlega athygli. Næst kom Plein Soleil en sú mynd var gerð eftir sakamálasögu Patriciu Highsmith, The Talented Mr. Ripley sem ótalmargir kannast við því gerðar hafa verið margar myndir eftir þeirri sögu. Næst kom Rocco and His Brothers.
Lék leigumorðingja og glæpamenn
Hann lék í ítölskum kvikmyndum og nefna má einnig myndir á borð við The Yellow Rolls-Royce sem naut mikilla vinsælda, Texas Across the River en í henni lék hann á móti Dean Martin og Is Paris Burning þar sem mótleikarinn var Kirk Douglas. En þrátt fyrir vinsamlega dóma gagnrýnenda og þónokkrar vinsældir ákvað Alain að snúa aftur til Frakklands og þar átti hann eftir að vinna með leikstjórum á borð við Jean-Pierre Melville, René Clément og Jacques Deray.
Þekktastur er hann án efa í Evrópu fyrir hlutverk leigumorðingjans í kultmyndinni Le Samouraï eftir Jean-Pierre Melville og eftir það var hann gjarnan valinn í hlutverk glæpamanna meðal annars í myndunum The Sicilian Clan, Borsalino og The Red Circle. Hann lék á móti Marianne Faithful í Girl on a Motorcycle árið 1967 og La Piscine árið 1969 á móti fyrrum ástkonu sinni Romy Schneider. Sú mynd var endurgerð árið 2016 og fékk þá titilinn A Bigger Splash en þau Tilda Swinton og Ralph Fiennes léku aðalhlutverkin þá.
Rétt áður en myndin, La Piscine, var frumsýnd fannst lík lífvarðar Alains, Stefans Markovics á ruslahaug. François Marcantoni, þekktur fyrir að vera undirheimakóngur og náinn vinur Alains var ákærður fyrir morðið en ákæran var að lokum felld niður. Hneykslið varð enn meira þegar í fundust ljósmyndir af kynferðislegum toga meðal eigna hins látna. Stefans, af honum og þekktum konum í frönsku elítunni, meðal annars eiginkonu forsetaframbjóðandans George Pompidou. Aldrei tókst að finna morðingjann og sannanir gegn François Marcantoni voru ekki nægilega sterkar til að leiða til sakfellingar. Hins vegar þóttu tengsl Alain við ansi vafasama karaktera honum ekki til framdráttar.
Skrautlegt einkalíf
Á áttunda áratugnum lék Alain í mörgum góðum myndum og hann vann César-verðlaunin fyrir bestu myndina árið 1977. Hann færði sig eftir það út í leikstjórn og kvikmyndaframleiðslu og fyrsta myndin sem hann sendi frá sér var Pour la Peau d’un Flic árið 1981. Árið og aftur árið 1985 vann hann aftur César-verðlaunin, að þessu sinni fyrir bestan leik í aðalhlutverki. Hann hóf einnig að hanna húsgögn og naut þónokkurrar velgengni á því sviði. Hann minnkaði mikið við sig vinnu á tíunda áratugnum og lýsti því yfir árið 1997 að hann væri hættur að leika. Hann ákvað hins vegar að taka að sér hlutverk í mynd Jean-Luc Godards, Asterix á Olympíuleikunum en Alain lék sjálfan Júlíus Sesar.
Einkalíf Alains Delons var í senn skrautlegt og á stundum flókið. Hann átti í ástarsamböndum við margar mótleikkvenna sinna og átti ástkonur þótt hann væri giftur. Ungar konur um allan heim heilluðust af honum og dæmi voru um að þær kysstu grátandi leikaramyndir af honum en þeim söfnuðu unglingar og ungmenni á þessum árum. Árið 1962 kenndi ljósmyndafyrirsætan og söngkonan Nico honum barn en Alain neitaði faðerninu. Drengurinn Christian var hins vegar ættleiddur af móður hans. Alain giftist Nathalie Delon, söngkonu árið 1964 og þau eignuðust soninn Anthony árið 1964. Þau skildu árið 1968. Hann og Mireille Darc voru saman í fimmtán ár. Þau skildu árið 1982 en þá tók hann saman við og átti tvö börn með Rosalie van Breemen, hollenskri ljósmyndafyrirsætu. Það voru svo börnin hans þrjú, Alain Fabien, Anouchka og Anthony tilkynntu lát hans á samfélagsmiðlum þann 18. ágúst. Hann lést á heimili sínu í Douchy.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.