„Það þarf kerfisbreytingu til að útrýma skerðingunum í almannatryggingakerfinu“, segir Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann skrifaði nýlega grein í blaðið Vísbendingu, þar sem hann fjallar um jaðarskatta í íslenska skattkerfinu. Þórólfur sem er öllum hnútum kunnugur í fjármálum hins opinbera, sem hann kennir í háskólanum, hefur einnig starfað í norræna skattrannsóknarráðinu og þekkir skattkerfi Norðurlandanna vel. Hann kynnti nýlega hugmyndir sínar fyrir stjórnarmönnum í Félagi eldri borgara í Reykjavík.
Tvöföld skattlagning hjá mörgum eldri borgurum
Þórólfur segir að hér á landi séum við ekki skattlögð jafn mikið og almennt á Norðurlöndunum, en þar geri samfélagssáttmálinn ráð fyrir að tryggja með sköttum öryggi þegnanna þegar kemur að heilbrigðis- og menntamálum. Tekjutengingu eins og hjá eldri borgurum hér sé hins vegar ekki að finna í öðrum norrænum ríkjum. „Við heyrum frásagnir um að aldraðir hér á landi lendi í fátæktargildru og að tilraunir til að komast út úr henni beri ekki árangur“, sagði Þórólfur. „Þetta er ekkert endilega fjölmennur hópur, en af hverju er þetta svona? Staðan er sú að hér er tvöföld skattlagning á hluta tekna hjá sumum hópum. Ríkisskattstjóri skattleggur alla eins, en því til viðbótar kemur skattheimta hjá Tryggingastofnun, vegna þess að tekjutengingar eru skilyrði fyrir greiðslum í almannatryggingakerfinu“.
70-80% jaðarskattur eldri borgara
Þórólfur segir að hjá TR sé litið á upphæð teknanna sem menn hafi og ef þær séu yfir ákveðnum mörkum, skerði TR lífeyrisgreiðslur sínar til þeirra. „Ef tekjur eldra fólks með lífeyristekjur umfram skerðingarmörk aukast, fara 40% viðbótarinnar til Ríkisskattstjóra, auk þess sem lífeyrisgreiðslur frá TR lækka um álíka upphæð og skattgreiðslan er. Á meðan jaðarskattur hefðbundinna launþega er 40%, er hann 70-80% og jafnvel hærri hjá ellilífeyrisþegum, sem getur þýtt að af 50 þúsund króna viðbótartekjum þeirra standi 4-6 þúsund krónur eftir“. Þórólfi finnst það sérkennilegt fyrirkomulag, að Tryggingastofnun hafi einnig skattlagningarvald.
Róttæk kerfisbreyting gæti útrýmt skerðingunum
Hann telur að í stað þess að vera alltaf að horfa á pínulítinn part af kerfinu og sníða af því einstöku agnúa, sé þörf á kerfisbreytingu, vilji menn útrýma tekjuskerðingunum hjá eldri borgurum. Sjálfur bendir hann á athyglisverða leið til að gera það, en hún snýst um að breyta sjálfu kerfinu þannig, að lækka persónuafslátt, og taka upp fjölþrepa skattkerfi með mjög lágum jaðarskatti á lægstu tekjur, en síðan stighækkandi. „Ef persónuafsláttur yrði lækkaður um helming, þá væri líklega mögulegt að sleppa tekjutengingunni. Þetta hefði í för með sér tilfærslu frá þeim sem hafa mjög lágar tekjur en eru ekki með tekjur frá TR, til dæmis unglingar og fólk í starfsnámi, til þeirra sem fá skertar greiðslur frá TR núna. Þannig standa allir frammi fyrir sama jaðarskatti“, segir hann og vill ekki að litið sé á breytingar á persónuafslættinum sem „tabú“.
„En það er mikilvægt fyrir eldri borgara að hafa það á hreinu hvað þeir vilja og leita svo leiða til að leysa þann vanda sem er fyrirliggjandi í kerfinu“, sagði Þórólfur á fundinum þar sem þessar breytingar voru ræddar.