Í bókinni Svartir kettir, fullt tungl og rauðhærðar konur, eftir Símon Jón Jóhannsson þjóðháttafræðing, er fjallað um hjátrú af ýmsum toga, bæði innlenda og erlenda, gamalgróna og nýja. Efnið er sett fram á skýran og einfaldan hátt og flokkað í kafla, meðal annars um dýr, tímann, líkamann, ástir og kynlíf, mat og drykk, athafnir, börn, hluti, sjúkdóma og dauði. Þá er rætt við nokkra einstaklinga úr mismunandi starfsstéttum um þá hjátrú sem fyrirfinnst í þeirra starfsumhverfi, lögreglumann, íþróttamann, flugstjóra, leikara, tónlistarmann og hjúkrunarfræðinga.
Flestir þekkja að best er að sneiða hjá svörtum köttum sem hlaupa þvert á leið manna, að það boðar sjö ára ógæfu að brjóta spegil og að talan þrettán er varasöm. Þetta flokkast undir það sem við vanalega köllum hjátrú.
Margir þjóðfræðingar nú á tímum kjósa að nota orðið hjátrú í þrengri merkingu en þjóðtrú og þá sem hluta af eða þátt innan þjóðtrúar. Hjátrú vísar til þeirrar trúar sem liggur til hliðar við það sem kallað er opinber trú, í rauninni til þess sem menn ættu ekki að trúa, á svipaðan hátt og orðin hjákona og hjáverk. Í hjátrú felast m. a. ýmsir fyrirboðar, góðs vitar og ills vitar, og þær athafnir sem menn hafa í frammi til þess að reyna að hafa áhrif á gang mála í daglegu lífi, koma í veg fyrir ólán eða auka gæfu og gengi. Þess vegna gjalda menn varhug við ýmsu – taka mark á og fara eftir ákveðnum boðum og bönnum.
Hinn hjátrúarfulli gerir ráð fyrir að í tilverunni úi og grúi af hættulegum öflum sem sífellt beri að varast, vinna gegn eða hafa góð. Einnig séu til staðar góð öfl sem nýta megi sér til hjálpar og framdráttar með ákveðnum hætti. Forlagatrú er því samofin hjátrú.
– Hundur sem liggur fram á lappir sínar, leggur trýnið á þær og snýr mót dyrum, spáir gestakomu. Leggi hundurinn hausinn aðeins yfir vinstri framfótinn er gesturinn þjófóttur en ef hann liggur fram á hægri fót er sá sem kemur í heimsókn heiðarlegur. Þegar hundstrýnið er milli lappanna er gesturinn samsveitungi en trýni utan lappa bendir til þess að von sé á gesti úr annarri sveit.
– Þegar hrafnar fljúga í kross yfir kirkju þá er einhver í nágrenninu feigur.
– Ef sjómenn sofa hjá nóttina áður en haldið er í veiðiferð koma þeir til með að veiða lúðu.
– Það er ólánsvegur að henda brauði því þá verða menn svangir síðar.
– Geti stúlka sem látin er setjast á baldursbrá ekki staðið upp aftur þá er hún ekki hrein mey.
– Þeir sem eru með blá augu eru gáfaðir, blíðir og skáldmæltir.
– Ótrúar eiginkonur eignast rauðhærð börn.
– Brúðhjón verða að standa svo þétt saman við altarið að ekki sjái á milli þeirra því annars gengur hjónabandið ekki vel.
– Sá sem fær síðustu kaffidropana úr kaffikönnunni eignast kolvitlausa tengdamömmu.
– Ólánsvegur er að mæta svörtum köttum eða öðrum óheillakrákum svo sem rauðhærðum konum, rangeygðum o.s.frv. á leið í próf.
– Börn hætta að vaxa borði þau kertavax.
– Ógift stúlka sem sest við endann á matarborði eignast rangeygðan mann.
– Horfi menn lengi í glerið á örbylgjuofni verða þeir blindir.
– Ekki mega ófrískar konur pissa úti í tunglsljósi því þá verður barnið sinnisveikt.
– Það er ills viti að blístra í leikhúsi.
– Við bakverk er þjóðráð að binda hreina mey á bak sér eða gera band úr hári hennar og leggja við bakið.
– Til að lækna gigt á að taka inn fimm geitaspörð á fastandi maga með hvítvíni, átta daga í röð.
– Það læknar kvef að lykta af óhreinum sokkum.
– Það er góðs viti að mæta tómum líkbíl en menn verða að gæta þess að snúa sér ekki við og horfa á eftir honum. Þá er voðinn vís.
Já, og hvað er svo þetta með rauðhærðu konurnar? Skyldu þær vera hættulegri en aðrar, eða hvað?