Af hverju rosknir karlmenn og blóm?

Sýningin „Hilmir snýr heim“ eftir ljósmyndarann og myndlistarmanninn Sigurð Unnar Birgisson samanstendur af stækkuðum passamyndum af karlmönnum um sjötugt ásamt blómamyndum úr náttúru Íslands eftir Hjálmar R. Bárðarson (1918-2009). Sýningin verður opnuð í Ljósmyndasafni Reykjavíkur á morgun, laugardaginn 25. september, kl. 14. Í fréttatilkynningu um sýninguna segir ennfremur:

„Það kann að þykja óvenjulegt að stilla þessum tveimur myndefnum upp saman. Hvað gætu rosknir karlar átt sameiginlegt með blómum? Við fyrstu sýn virðist það ekki vera margt annað en að hefðbundinni, raunsærri nálgun er beitt í báðum tilfellum auk þess sem greina má  samhljóm með myndformum. Sýningin veltir þó upp djúpstæðari spurningum þar sem kafað er undir yfirborðið og hlutirnir settir í stærra samhengi.

Sigurður Unnar Birgisson

Sigurður Unnar segir: „Herrarnir á sýningunni eru mín blóm. Ég dái þá fyrir fegurð þeirra og þeir eru minn leiðarvísir í átt að því hvernig á að lifa sem karlmaður. Þeir komu allir í myndatöku til mín og suma þeirra hitti ég aftur.“ Kjarnann í samlíkingu herranna og blómanna er svo að finna í  6. kafla Mattheusarguðspjalls, versi 28: „Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna.“

Blómamyndir Hjálmars R. Bárðarson birtust í bók hans Íslenskur gróður árið 1998. Hann var afkastamikill ljósmyndari og gaf út fjölda ljósmyndabóka. Myndasafn Hjálmars er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands sem veitti góðfúslegt leyfi fyrir notkun myndanna á sýningunni.

 Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér á vef safnsins.

Sigurður Unnar Birgisson býr í Reykjavík og starfar á ljósmyndastofunni Passamyndir. Hann útskrifaðist með BA og MA gráðu frá Universität der Künste í Berlín árið 2015 undir handleiðslu Mariu Vedder. Frá því að hann lauk námi hefur hann komið að innsetningum á listahátíðinni „Háskar“, lesið upp dagbókarfærslu sem hluta af gjörningi í Mengi, listamannareknu rými í Reykjavík, leikstýrt föður sínum í tónlistarmyndabandi við lag Teits Magnússonar „Bara þú“ og unnið fyrir Reykjavík Dance Festival í samstarfi við Michikazu Matsune að verkinu „The Viewers“. Viðfangsefni Sigurðar er manneskjan eins og hún birtist af holdi og blóði. Hægt er að nálgast sýnishorn af verkum hans á www.sigurdurunnar.com.“

Ritstjórn september 24, 2021 11:00