Stefnumót í Ljósmyndasafni Reykjavíkur

Stefnumót – Norræn ljósmyndun út yfir landamæri er heiti nýrrar sýningar sem opnuð verður í Ljósmyndasafni Reykjavíkur á morgun, 14. september, kl. 15. Eftirfarandi kemur fram um sýninguna í fréttatilkynningu.

Á sýningunni eru ljósmynda- og vídeóverk eftir fimm ljósmyndara/listamenn:

Titilmynd sýningarinnar eftir Miia Autio

Báru Kristinsdóttur (Íslandi)
Johannes Samuelsson ( Svíþjóð)
Miia Autio (Finnlandi)
Nanna Debois Buhl (Danmörku) og
Sandra Mujinga (Noregi)

Sýningin „Stefnumót – Norræn ljósmyndun út yfir landamæri“ fjallar um stefnumót ýmissa viðfangsefna sem myndgerð eru af fimm norrænum samtímaljósmyndurum/listamönnum. Auk þess að vera stefnumót listrænnar tjáningar þeirra þá má segja að sýningin sé stefnumót mannlegra samskipta, norræns menningarheims og annarra menningarheima, og stefnumót þess persónulega og þess opinbera.

Þemu eins og innflytjendamál, breytingar á landslagi og borgum sem og staðbundnar afleiðingar alþjóðavæðingar eru í kastljósinu á þessari sýningu. Með því að varpa upp, oft ósýnilegum hliðum á málum og setja í samhengi við samfélagslegt mikilvægi verða til nýir þræðir. Þetta sjáum við gert á ólíkan hátt í verkum listamannanna Báru Kristinsdóttur, Nanna Debois Buhl, Sandra Mujinga, Johannes Samuelsson og Miia Autio.

Sýningin er afurð samvinnu sýningarstjóra og stofnana frá Norðurlöndunum fimm, þeirra Jóhönnu Guðrúnar Árnadóttur (Ljósmyndasafni Reykjavíkur),  Kristine Kern (Fotografisk Center í Kaupmannahöfn), Tiina Rauhala (Finnska Ljósmyndasafninu í Helsinki), Susanne Saether (Henie Onstad Art Center í Osló) og Sara Walker, Louise Wolthers og Dragana Vujanović Östlind (Hasselbladstofnuninni í Gautaborg).

Sýningin var sett upp fyrr á árinu í Hasselblad Center í Gautaborg (23. febrúar – 5. maí) og  Fotografisk Center í Kaupmannahöfn (8. júní – 18. ágúst).

 

 

 

Ritstjórn september 13, 2019 10:04