Mannlíf á fyrstu áratugum lýðveldisins

Sigurhans Vignir

Hið þögla, en göfuga mál er yfirskrift 40 ára afmælissýningar Ljósmyndasafns Reykjavíkur sem verður opnuð laugardaginn 6. mars n.k.

Á sýningunni eru verk eftir Sigurhans Vignir* (1894-1975) sem starfaði sem ljósmyndari frá 1917 til 1965, lengst af í Reykjavík. Hann skildi eftir sig verðmætt filmusafn sem varðveitt er á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Í því eru ríflega 40 þúsund myndir, flestar teknar á árunum 1940-1965. Margar þeirra eru afar áhugaverðar heimildir um mannlíf og uppbyggingu samfélagsins á fyrstu áratugum íslenska lýðveldisins.

Á löngum starfsferli sínum sem ljósmyndari tók Vignir að sér margbreytileg verkefni en það sem sameinar þau flest er fjölskrúðugt atferli manneskjunnar frá vöggu til grafar. Hann myndaði verkafólk við vinnu, presta skíra börn, hernám á hlutlausu þjóðríki, brúðkaup og afmæli ýmis konar, skautahlaup, fegurðarsamkeppni í Tívolí, hárkollugerð og stofnun lýðveldis, svo fátt eitt sé nefnt.

Verkamenn í Mabikunarstöð Reykjavíkur

Vignir tók einnig myndir fyrir Reykjavíkurborg og eru margar þeirra mikilvægar heimildir um starfsemi sveitarfélagsins, sögu þess og þróun. Við sjáum grjótharðar framkvæmdir, malbikun, mótatimbur, steypta veggi og stál – og orkuver rísa upp úr moldinni. Þar eru líka skemmtilegar myndir af skólabörnum í leik og starfi og fjörleg starfsemi gæsluvalla, þar sem börn fylkja sér upp í himinháar rennibrautir, vega salt, moka, klifra og róla.

Vignir var einnig mikilvirkur leikhúsljósmyndari og tók m.a. myndir fyrir Þjóðleikhúsið og Leikfélag Reykjavíkur.

Sýningarstjórn og myndaval á sýningunni önnuðust Gísli Helgason, Sigríður Kristín Birnudóttir og Kristín Hauksdóttir.

Karólína vefari

Sýningin er opin alla daga og stendur til og með 19. september á þessu ári.

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér á vef safnsins https://borgarsogusafn.is/ljosmyndasafn-reykjavikur/syningar/hid-thogla-en-gofuga-mal-sigurhans-vignir

* Að ósk afkomenda er ættarnafnið Vignir ekki fallbeygt.

 

Ritstjórn maí 4, 2021 19:17