Leiðin í hundana eftir Erich Kästner er kaldhæðin og skörp samfélagsádeila. Erich fæddist árið 1899 og lést 1974. Hann lifði því það þjóðfélagsumrót sem hann fjallar um í Leiðinni í hundana. Árið 1931 var erfitt efnahagsástand í Þýskalandi. Weimar-lýðveldið er búið að missa allan trúverðugleika og fylgi og um huga og sál þýsks almennings berjast kommúnistar og nasistar.
Erich notar skáldsöguna til sýna hvernig fjarlægðin milli fólks eykst, spilling og siðleysi. Jakob Fabian aðalsöguhetjan er þrjátíu og tveggja ára og býr í Berlín. Hann hefur lokið doktorsprófi í textafræði en finnur sig ekki á vinnumarkaði. Hann þvælist eiginlega að mestu um borgina og lætur reka á reiðann. Alls konar fólk verður á vegi hans og hann lendir í margvíslegum skrýtnum uppákomum. Frásagnarstíllinn minnir helst á kvikmynd þar sem stöðugt er klippt milli atriða. Það sem heldur þeim saman er Jakob hinn ungi og kómíkin. Erich er mikill húmoristi og sum samtölin stórskemmtileg. Í lesandanum situr engu að síður eftir óþægileg tilfinning vegna öfgana er hér birtast í formi ýmissa aukapersóna og hann skynjar að hér er um að ræða samfélag á fallanda fæti, samfélag sem siglir hraðbyri í átt að ógæfunni. Engin raunveruleg samkennd er til, hver og einn fastur í sínu og sér heiminn aðeins frá sínu þrönga sjónarhorni.
Í sjálfu sér er ekki skrýtið að Josef Goebbels hafi sett Leiðina í hundana á lista yfir þær bækur sem nasistar létu brenna. Bókabrennan fór fram þann 10. maí 1933 og stúdentar gengu harðast fram í að tína til bækurnar og kynda undir þeim. Sorglegt en satt að sá hópur sem í gegnum söguna hefur reynst virkastur í baráttunni fyrir betri heimi hafi þarna stutt og viðurkennt skoðanakúgun og mannréttindabrot. Erich Kästner varð vitni að þessum atburðum og sá unga fólkið bera hans eigin bækur á brennuna. Þrátt fyrir það flúði hann ekki frá Þýskalandi en gaf þess í stað út bækur undir dulnefni. Þannig lifði hann stríðið af.
Það er hárfín lína sem skilur milli feigs og ófeigs í andrúmslofti líku því sem var eftir að nasistarnir náðu völdum í Þýskalandi. Fordæming á persónum og hópum, æsingur og uppþot vegna ímyndaðra og raunverulegra ávirðinga annarra og miskunnarlaus refsigleði einkennir þetta samfélag. Að sumu leyti óhugnanlega kunnugleg og leiðin í hundana er vandlega vörðuð dómhörku og hatri. Það er mikill fengur af því að fá svo góða þýðingu á þessari bók einmitt núna en það er Elísa Björg Þorsteinsdóttir sem þýðir.
Ég þekkti Erich Kästner sem barnabókahöfund en hélt að hann hefði eingöngu skrifað fyrir börn og það er mikil uppgötvun að átta mig á að svo er ekki. Margir aðrir en ég muna án efa eftir Emil og leynilögreglustrákunum, Ögn og Anton og Lísa eða Lotta: hvor var hvor? Allt frábærar bækur sem nutu mikilla vinsælda í bókabílnum í gamla daga.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.