Alltaf að missa jafnvægið

Hefur þú fengið svimakast nýlega eða fundist þú óstöðug/ur á fótunum? Ef svo er ertu áreiðanlega ekki ein/n um það. Ein algengasta orsök þess að eldra fólk dettur heima hjá sér er svimakast eða finna fyrir jafnvægisleysi, sérstaklega þegar verið er að standa upp. Ástæðurnar þess að fólk finnur fyrir óstöðugleika eru fyrst og fremst tengdar taugakerfinu og ástandi liða.

Til að jafnvægi haldist gott þurfa augun, innra eyrað og vöðvar líkamans að vinna vel saman. Með árunum getur jafnvægiskerfi innra eyrans raskast til dæmis vegna sýkinga, sjónin breytist og vöðvakraftur minnkar. Allt þetta er hægt að þjálfa. Með því að gera jafnvægisæfingar á hverjum degi geta menn haldið við hæfni sinni en nokkrir sjúkdómar geta valdið skaða á jafnvægiskerfinu.

  1. Fullorðins vatnshöfuð

Billy Joel tilkynnti árið 2018 að hann væri hættur að halda tónleika og semja lög. Ástæðan var að hann hafi fengið sjúkdóm sem kallaður er fullorðins vatnshöfuð, eða normal pressure hydrocephalus eins og það heitir á ensku. Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að rými í heilanum fyllast af vökva. Billy hafði orðið fyrir því að detta á sviðinu og gangast í kjölfarið undir aðgerð til að hreinsa burtu vökvann.

Oftast þróar fólk ekki með sér þennan sjúkdóm fyrr en eftir sextugt. Þetta er sjaldgæft en helstu einkenni eru jafnvægisleysi, að eiga erfiðar með gang og stjórn á þvaglátum. Stundum fylgja hugræn vandamál sem geta líkst vitglöpum. Flestir ná að rétta sig af ef þeir hrasa um eitthvað á göngu utandyra eða jafnvel á gólfinu heima hjá sér en manneskja með fullorðins vatnshöfuð geta það ekki. Hún getur líka átt í erfiðleikum með að snúa sér og margir lýsa því þannig að það sé eins og fæturnir séu fastir við gólfið.

Hægt er að greina sjúkdóminn með segulómun á heilanum. Ef fullorðins vatnshöfuð greinist geta læknar skorið manneskjuna upp og fjarlægt vökvann. Í sumum tilfellum er komið fyrir svokölluðum skuntum eða plaströrum sem leiða vökvann burtu úr heilanum og yfir í aðra hluta líkamans, oftast magann.

  1. Réttstöðuþrýstingsfall

Hefur þú einhvern tíma staðið snöggt á fætur og fundið fyrir svima og jafnvægisleysi, jafnvel dottið ofan í sætið aftur? Þá hefur þú fundið fyrir réttstöðuþrýstingsfalli. Einn af hverjum fimm sem náð hefur sextugsaldri finnur einhvern tíma fyrir þessu en blóðþrýstingur fellur þá snöggt og hratt. Í sumum tilfellum er um að ræða aukaverkanir blóðþrýstingslyfja en einnig getur þetta stafað af vökvaskorti, blóðleysi, miklum verkjum og þunglyndi.

Réttstöðuþrýstingsfall getur einnig bent til að taugakerfið hafi orðið fyrir skaða vegna þess að ákveðnir hlutar heilans hafa orðið veikst eða skaðast vegna tiltekinna erfðasjúkdóma. Sjálfvirka taugakerfið sér um að halda líffærakerfum okkar gangandi þar á meðal, öndun, hjartslætti og blóðþrýstingi. Ef það veikist af einhverjum ástæðum getur blóðþrýstingur fallið hratt eða hækkað langt umfram það sem æskilegt. Ef þú finnur oft fyrir snöggu jafnvægisleysi eða svima þegar þú stendur upp, svitnar mikið eða finnur fyrir hjartsláttartruflunum ættir þú að leita læknis og biðja um rannsókn.

  1. Útlægur taugakvilli

Peripheral neuropathy eða útlægur taugakvilli er nokkuð algengur meðal fólks yfir fimmtugt. Fólk með sykursýki þróar gjarnan með sér þennan kvilla en hann orsakast af skemmdum á litlum taugaþráðum og veldur tilfinningaleysi eða doða í fingrum og fótum. Til er í dæminu að fólk finni ekki hvort fætur þeirra snerti gólfið eða ekki. Skemmdirnar geta síðan aukist og farið að leggjast á stærri taugaþræði og þá missir fólk vöðvakraft og stjórn og tilfinningu í liðum. Af sjálfu sér leiðir að þetta eykur jafnvægisleysi og veldur tíðri svimatilfinningu.

Ef fólk hefur þróað með sér þennan kvilla ætti það að varast að bera þunga hluti eða ganga um þar sem dimmt er því hvoru tveggja eykur hættuna á að manneskjan missi jafnvægið og detti illa. Það að þurfa að einbeita sér að því að halda einhverju stöðugu eða því að sjá í myrkri minnkar enn tilfinninguna fyrir líkamanum. Ofskammtar af tilteknum vítamínum eða skortur á þeim getur einnig valdið þessum einkennum og í dag er auðvelt að athuga hvort um það sé að ræða.

  1. Þögult heilablóðfall

Blóðþurrðarslag eða heilablóðfall vegna blóðtappa verða vegna tímabundinnar truflunar á blóðflæði til heilans. Stundum verður fólk tæplega vart við hvað er að gerast og einkennin vara í skamman tíma. Sumir kalla þetta smáheilablóðfall eða ministroke. Í flestum tilfellum valda þau ekki varanlegum skaða en það sem kallað hefur verið á ensku silent stroke eða þögult heilablóðfall veldur á hinn bóginn oftast skemmdum en fólk finnur hugsanlega ekki fyrir neinum einkennum.

Þegar manneskja fær heilablóðfall er algengt að hún lamist öðru megin í líkamanum eða finni fyrir málstoli, höfuðverk eða missi meðvitund. En margir sem hafa fengið silent stroke vita ekki einu sinni af því. Þeir fundu aldrei nein einkenni svo fer að bera á jafnvægisleysi eða erfiðleikum með gang og viðkomandi telur einhverjar allt aðrar ástæður liggja að baki. Finni menn allt í einu fyrir því að þeir eigi erfiðara með ganga upp eða niður stiga. Að þeir séu orðnir hægari í hreyfingum en áður og jafnvægisleysi hafi aukist ættu þeir að íhuga þann möguleika að þeir hafi fengið silent stroke. Með því að stunda tai chi eða jóga geta menn hins vegar þjálfað upp getu sína aftur og dregið úr einkennunum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.