Alzheimerhverfi í Hollandi

Ingrid Kuhlman

Skammt frá Amsterdam í Hollandi er frægt Alzheimerhverfi sem heitir De Hogeweyk. Þetta er lokað hverfi, inni í öðru hverfi sem heitir Weesp. „Þarna er komið öðruvísi fram við einstaklinginn, honum er sýnd meiri virðing og hann nýtur meira sjálfræðis en við þekkjum á stofnunum hér“, segir Ingrid Kuhlman, sem er fædd og uppalin í Hollandi, en hefur búið á Íslandi í rúm 20 ár, ásamt íslenskum eiginmanni og börnum. Saman reka þau hjónin fræðslufyrirtækið Þekkingarmiðlun. Ingrid hefur farið þrjár ferðir til Hogeweyk ásamt stjórnendum og starfsmönnum íslenskra hjúkrunarheimila, til að kynna sér starfið sem þar fer fram.  Hún segir markmið starfseminnar vera heilsu og lífsgæði. Það búa 170 manns í Alzheimerhverfinu í 27 húsum. Þeir dvelja á sex manna heimilum þar sem hver íbúi hefur sérherbergi. Á hverju heimili er svo umsjónarmaður.

Fólk valið saman inná heimilið

„Ég er búin að fara í heimsókn þangað með stjórnendur og starfsmenn íslenskra öldrunarheimila, sem fara út til að kynna sér hvernig hlutirnir eru gerðir þarna og innleiða svo eitthvað af þeim hér heima. Meðalaldur íbúanna á heimilunum er 85 ár. Þeir dvelja þarna að meðaltali í tvö ár og búa þar til æviloka“, segir Ingrid. Hún segir fólkið í hverfinu mikið á hreyfingu og það gangi mikið. Aðeins 4-5 eru rúmliggjandi á hverjum tíma.  Fólk sé valið inn á heimilin eftir lífsstíl. Aðstandendur sjúklinganna útbúi möppu með upplýsingum um þá, áhugamál þeirra og bakgrunn. Í möppunni séu líka myndir af gamla heimilinu. „Menn velja saman fólk með sömu áhugamál, smekk, gildi og bakgrunn“ segir hún.

Fólk er valið saman á heimilinu

Fólk sem hreyfir sig dettur síður

Virkni og hreyfing eru lykilþættir í umönnuninni sem fer fram í De Hogeweyk. Íbúar velja hvað þeir vilja hafa í matinn, fara út í búð og taka eins mikinn þátt og þeir eru færir um í heimilishaldinu, eldamennskunni, þrifum og svo framvegis. Ingrid segir að það auki matarlystina að taka þátt í að undirbúa máltíðirnar. Hún segir lyfjanotkun minni í Alzheimerhverfinu en almennt gerist. Þá geti íbúarnir tekið þátt í alls konar klúbbastarfi, svo sem blómaskreytingum, bakstri eða klassískri tónlist. Umsjónarmaðurinn á heimilinu fari heim á kvöldin, en eftir það er sett á hljóðkerfi, þannig að hægt sé að fylgjast með því ef fólk fer á stjá, eða dettur fram úr rúmi. „Aðstandendur spyrja hvort það sé ekki hætta á að fólki detti þarna, en fólkið er frjálst ferða sinna og miklu meira á hreyfingu en tíðkast hjá sambærilegum hópum á öðrum heimilum. Það er miklu minni hætta á að fólk slasi sig ef það fer reglulega út að ganga“ segir Ingrid.

Eden hugmyndafræðin kemst næst þessu hér á landi

Við höldum áfram að ræða við Ingrid um Alzheimerhverfið og hversu mikinn áhuga það hefur vakið hjá fólki sem starfar í öldrunarþjónustunni. Hún telur að það sé auðveldara að byggja upp svona aðstöðu ef það er gert frá grunni. En vissulega sé hægt að tileinka sér hugmyndir sem þarna er stuðst við. „Eden hugmyndafræðin sem er notuð á Akureyri og í Mörkinni, kemst næst þessu“, segir hún.

Björn Bjarki Þorsteinsson

Athyglisverð klúbbastarfsemi

Björn Bjarki Þorsteinsson framkvæmdastjóri Hjúkrunarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi fór ásamt fleiri starfsmönnum stofnunarinnar og skoðaði De Hogeweyk hverfið í apríl síðastliðinum. Hann segir að heimsóknin hafi verið skemmtileg og ekki síður fróðleg. „Það er athyglisvert hvernig að málum er staðið þar, einingarnar eru minni en við eigum að venjast hér á landi,  það eru 6 heimilismenn  sem búa saman inni á hverju heimili eða deild. Þannig að þetta er kannski ögn meira persónumiðað hjá þeim en almennt er hér á landi, þó við séum nú ansi nærri á flestum sviðum.  Það sem mér fannst kannski athyglisverðast var það val sem íbúarnir hafa um það sem þeir gera sér til dægrastyttingar.  Fólk velur klúbba til að starfa í, til dæmis tónlistarklúbb eða listaklúbb, og greiðir fyrir þátttöku. Hér heima er þetta enn sem komið er meira almennt”, segir hann og bætir við að hér á landi þyrftum við að leita leiða til að hjúkrunarheimilin verði nær því venjubundna lífi sem einstaklingurinn naut áður en hann kom á hjúkrunarheimilið. Það þurfi að skýra valkosti og verðmeta þjónustuþætti sem heimilisfólkið gæti síðan valið um.  Björn Bjarki segir jafnframt að í haust verði hafist handa við það á Brákarhlíð að innleiða Eden hugmyndafræðina þar.

 

 

Ritstjórn júlí 24, 2019 07:18